Leita í fréttum mbl.is

Réttó silfurhafi á grunnskólamótinu

silfurrefir-rettoRéttarholtsskóli náði öðru sæti á móti grunnskóla Reykjavíkur í Egilshöll í dag. Uppistaðan í Réttóliðinu var Víkingsstrákar 9. bekk, þ.e.a.s. árgangi 1996.  Þar voru líka strákar úr 8. og 10. bekk, allt Víkingar. 

Strákarnir töpuðu úrslitaleik við Árbæjarskóla 1-2, sem kom svo sem ekki á óvart því Árbæingar voru tvímælalaust með besta lið keppninnar – allt Fylkisstrákar úr 10. bekk að einum undanskildum.

Réttóstrákarnir sýndu Árbæingum samt of mikla kurteisi og virðingu í leiknum og hefðu með ögn meiri fylgni og hörku hugsanlega getað knúið fram jafntefli og þar með vítaspyrnukeppni. Það telst til tíðinda að tvö sjálfsmörk voru skoruð í úrslitaleiknum. Árbæingar skoruðu strax snemma í leiknum með hörkuskoti langt utan af velli, stöngin inn. Síðan kom sjálfsmark Víkings og nokkru síðar sjálfsmark Fylkis.

Réttó byrjaði mótið á því að sigra Hamraskóla 2-0, síðan kom jafntefli, 1-1, í leik við Ölduselsskóla og í síðasta leiknum var lið Breiðholtsskóla kjöldregið, 10-0. Í undanúrslitum lögðu Réttóstrákar Fellaskóla 1-0 en töpuðu svö úrslitaleiknum, 1-2.

Silfur er fínn árangur og til hamingju með það silfurrefir úr Réttó og Víkingi!


Keppnistímabilið gert upp í lokahófi þriðja flokks

Þá er þessu formlega lokið í ár og leiðir skilja. Strákarnir í 3. flokki komu saman í Víkinni í kvöld og gerðu sér dagamun í tilefni loka keppnistímabilsins. Fráfarandi flokksráð bauð upp á þessar líka yndælis pizzur frá Eldofninum í Grímsbæ, stolti Víkingshverfisins. Ekki að furða að hróður þessa fína veitingastaðar hafi borist vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið! Flokksráðið leysti þjálfarana út með verðskulduðum þökku, gjöf og góðum óskum en fyrst og fremst var kvöldið strákanna sjálfra og þeir fengu að heyra mörg orð frá Gunnari Erni þjálfara um hve flottir þeir væru!

Hópurinn hafði sett sér markmið um að ná titli eða titlum í hús á tímabilnu en það gekk ekki eftir. Þar vantaði hinn margumtalaða og snúna herslumun. Gunnar Örn sagði að hins vegar að strákarnir hefðu lagt sig 100% fram og jafnvel rúmlega það. Hann kvaðst aldrei hafa unnið með svo frábærum hópi og ferðin á Norway Cup hefði toppað allt, samveran í 3. flokki hefði verið gríðarlega skemmtilegur tími og hann ætti eftir að sakna samverustundanna með þessum strákum.

Þjálfararnir Gunnar Örn og Sindri tilkynntu síðan val þeirra sem þeir töldu hafa sýnt mestar framfarir á nýafstöðnu keppnistímabili. Það reyndust vera Sverrir Hjaltested í A-liði og Bjarki Þórðar í B-liði og báðir fengu ávísun á máltíð á Eldofninum.

Í upphafi samkomunnar var dreift miðum í salnum og strákarnir skráðu þar í leynilegri kosningu þá þrjá sem þeir sjálfir töldu vera bestu leikmenn tímabilsins. Fyrsta val gaf þrjú stig, annað val tvö stig og það þriðja eitt stig. Atkvæði voru talin á meðan pizzuveislan stóð sem hæst og spenna var í lofti þegar Gunnar Örn tilkynnti úrslitin og leysti sigurvegarana út með ávísun á máltíð á Eldofninum.

Alls hlutu níu leikmenn stig í kjöri A-liðsins en þeir þeir þrír efstu hlutu afgerandi kosningu:

  1. Aron Elís
  2. Jón Reyr
  3. Viktor Jóns.

Aðrir sem hlutu atkvæði (í stafrófsröð): Davíð, Hlynur, Hörður, Patrik, Róbert, Villi.

Í kjöri B-liðsins hlutu alls tólf leikmenn stig. Þeir þrír efstu hlutu afgerandi kosningu og sá er hreppti fyrsta sætið skaraði þvílíkt fram úr að hann hlýtur að spá alvarlega í forsetaframboð þegar hann nær aldri til slíks:

  1. Agnar Darri
  2. Ólafur Andri
  3. Halldór.

Aðrir sem hlutu atkvæði (í stafrófsröð): Daníel, Bjarki Þórðar, Bjössi, Eyþór, Lárus, Magnús, Óli Þór, Ólafur Ægir, Steinar.

Bestir-i-A-lidinu

Bestir í A-liði með Sindra og Gunnari Erni: Viktor, Jón Reyr, Aron Elís.

Bestir-i-B-lidinu

Bestir í B-liði með Sindra og Gunnari Erni: Halldór. Ólafur Andri, Agnar Darri.

 

 


Uppskerustund

Iðkendur í þriðja flokki sumarið 2010 eru hér með boðaðir til uppskerusamkomu (ekki -fagnaðar) í stóra salnum í Víkinni

fimmtudaginn 30. september 2010 kl. 18:00.

 

Skráið þetta í kladdann ykkar.


Blikar kláruðu Íslandsmótið fyrir Víkinga

Víkingar mættu ofjörlum sínum úr Breiðabliki 2 í undanúrslitum A-liða í Víkinni í kvöld. Grænstakkarnir sigruðu örugglega og sannfærandi, 1-3, og voru nær því að skora fleiri mörk en Víkingar að saxa á forskotið.

Blikarnir skoruðu á lokasekúndum fyrri hálfleiks en Patrik jafnaði með laglegu marki þegar tíu mínútur voru liðnar af þeim síðari. Þá héldu áhangendur þeirra röndóttu að heimamenn væru komnir á bragðið en svo var ekki. Blikar bættu tveimur mörkum við og höfðu leikinn í hendi sér.

Fyrr í kvöld sigraði HK Breiðablik i hinum úrslitaleiknum á Smárahvammsvelli, 0-2. Það verða því Blikar 2 og HK-menn sem spila til úrslita á sunnudaginn kemur í innanbæjarslag í Kópavogi.

Blikar voru vel að sigrinum komnir i dag. Þeir mættu ákveðnir til leiks og spiluðu einfaldlega betur en heimamenn frá upphafi til enda. Leikur A-liðs Víkings minnti óþægilega mikið á undanúrslitaleikinn gegn Gróttu á Norway Cup á dögunum. Þar vanmátu Víkingar andstæðinginn með afleiðingum sem óþarft er að rifja upp. Sama kann að hafa gerst í kvöld þegar þeir mættu C-liði úr Breiðabliki á Íslandsmótinu (Grótta er líka C-lið!), með tölustafinn 2 aftan við félagsheitið. Sá merki tölustafur hefur trúlega verið hluti af hinum andlega örlagavaldi Víkings í kvöld og fengið okkar menn til að trúa því að Kópavogsmenn væru auðveld bráð.

Víkingur mætti bara ekki til leiks í huganum. Strákarnir í Breiðabliki 2 voru hins vegar uppgíraðir og baráttuglaðir og uppskáru eins og til var sáð. Það er af sem áður var þegar eitt aðalsmerki Víkingsstráka í árgangi '94 var einmitt að koma vel andlega undirbúnir af Þrándi þjálfara í mikilvæga leiki, sama hver andstæðingurinn var. Þegar liðið hins vegar mætir nú í tvígang á fáeinum vikum í úrslitaleiki með hugarfarið í augljósu ólagi hlýtur eitthvað að vera að í undirbúningnum.

Tæpast hefði það breytt miklu um úrslitin en óhjákvæmilegt er samt að spyrja hverju það sæti að þessi undanúrslitaleikur skyldi fara fram á grasi en ekki á gervigrasinu nýja og góða, hinum eiginlega heimavelli Víkingsliðsins? Það var út af fyrir sig gestrisni við áhorfendur að láta þá fá stóla undir bossana sína og enn meiri gestrisni við Blikana, sem æfa meira á grasi en Víkingar.

Öruggt er að Breiðablik hefði ekki hagað sér svona ef þetta hefði verið heimaleikur þess félags! Um síðustu helgi áttust við A-lið Blika og Víkings í úrslitakeppni í 4. flokki. Þetta var heimaleikur Blika og hvar skyldi hann nú hafa verið? Auðvitað á hinu skelfilega gervigrasi inni í Fífunni. Eðlilega! Blikar útveguðu sér ákveðið forskot í leiknum með því að velja honum aðstæður sem hentuðu þeim. Færa má hins vegar rök fyrir því að Víkingar hafi fært Blikum dulítið forskot með því að velja að spila á grasinu í Víkinni í kvöld en það afsakar auðvitað ekki úrslitin í kvöld. Við erum bara svo grannagóðir hérna megin Fossvogsdals.


Víkingur-Breiðablik 2 í undanúrslitum

Komið er að undanúrslitaleiknum í Íslandsmótinu hjá A-liðinu okkar. Hann verður í Víkinni annað kvöld, fimmtudag, kl. 18:00.

Andstæðingurinn verður Breiðablik2, sigurvegari í úrslitakeppni C-liða 3. flokks. Þar sigraði Breiðablik 2 Aftureldingu 0-1 í Mosfellsbæ og sigraði svo sameinað lið Siglfirðinga, Sauðkrækinga og Hofsósinga (KS/Tindastóll/Hvöt) í vítaspyrnukeppni, 5-4, eftir að sjálfum leiknum lyktaði með markalausu jafntefli. 

Þessi úrslitaleikur var giska skrautlegur og kallaði skrifkrampa og andateppu yfir aumingja dómarann, sem ótt og títt þurfti að flauta og skrifa. Þrír norðanmenn fengu að líta rauða spjaldið og þrír til viðbótar það gula. Einn Bliki fauk út af í sama leik og annar fékk gult spjald. Því má reynar bæta við að einn úr liði KS/Tindastóls/Hvatar var rekinn út af í undanúrslitaleiknum við Gróttu og annar fékk gult spjald. Samtals afrekuðu því alls tíu leikmenn úr þessu liði Skagfirðinga og Siglfirðinga að fá spjöld í tveimur undanúrslitaleikjum í C-riðli, þar af fjórir rautt! 

  • Mæting í Víkinni kl. 16:45, fimmtudaginn 9. september. Leikur hefst kl. 18:00.
    • Hlynur, Villi, Rögnvaldur, Hörður, Ólafur Ægir, Patrik, Jón Reyr, Róbert, Davíð, Aron Elís, Viktor, Halldór, Agnar, Ólafur Andri, Bjarki, Bjössi og Sverrir.

Breiðablik og HK mætast í hinum undanúrslitaleiknum sem hefst á Smárahvammsvelli kl. 16:00 á morgun, fimmtudag. Þar mætast sem sagt Kópavogsstálin stinn í blóðugum slag.

Sigurvegarar úr leikjum fimmtudagsins eigast við í úrslitaleik Íslandsmótins á sunnudaginn kemur, 12. september, kl. 14:00.

Við göngum að sjálfsögðu út frá því að Víkingsliðið mæti í úrslitaleikinn en fyrst þarf að sjálfsögðu að klára Breiðablik 2. Ekki látum við það gerast að sjálf úrslitarimma Íslandsmótsins breytist í héraðsmót í Kópavogshreppi eða jafnvel innanfélagsmót Breiðabliks. Ó nei.

Áfram Víkingur!


Framarar sukku að öxlum í Safamýrina

Víkingar krýndu sjálfa sig sem sigurvegara A-riðils Íslandsmótsins með stórsigri yfir Fram í Safamýrinni í kvöld, 1-8. Það þarf eiginlega ekkert að segja um leikinn annað en að spuningin var aðeins sú hve mörg mörg Fram fengi á sig á heimavelli og þau reyndust fjögur í fyrri hálfleik og önnur fjögur í þeim síðari. Fram náði að klóra í bakkann með ágætu marki í síðari hálfleik. Aron Elís og Ólafur Andri skoruðu í tvígang hvor en Robbi, Patrik, Davíð Örn og Röggi skoruðu sitt markið hver.

  • Víkingar enduðu riðlakeppnina með 35 stig eftir 14 leiki. Þeir höfðu sigur í 11 leikjum, gerðu tvö jafntefli og töpuðu einum leik.
  • Víkingar  skoruðu alls 47 mörk og fengu á sig 13, markareikningurinn var því jákvæður um 34 kvikindi.
  • Breiðablik, sem er í öðru sæti riðilsins, skoraði líka 47 mörk en fékk 21 mark á sig og reikningur liðsins er því jákvæður um 26 mörk.

Til hamingju strákar með áfangann, þið eruð auðvitað langflottastir!

Þetta er samt bara áfangasigur því nú blasir sjálf úrslitakeppnin um aðra helgi. Breiðablik mætir grönnum sínum í HK í undanúrslitum, sigurvegara í B-deildinni en Víkingur mætir sigurvegara í úrslitakeppni efstu liða í C-deildunum þremur og þess liðs náði bestu árangri í öðru sæti.


Liðið gegn Fram

Lokaleikur A-liðsins okkar á Íslandsmótinu verður gegn Fram verður í Sogamýri kl. 17:00 í dag. Þjálfari vor kveður fleiri til leiks en komast á leikskýrslu. Ástæðan er sú að meiðsl hrjá menn í hópnum og því verður ekki unnt að stilla upp liði fyrr en á...

A-liðið sigurvegari riðilsins eftir jafntefli við Blika

Víkingur er sigurvegari A-riðils Íslandsmóts 3. flokks og Breiðablik fylgir Víkingum í úrslitakeppnina. Liðin skildu jöfn í Víkinni í toppslag riðilsins í kvöld, 2-2. Víkingar máttu afar vel una við þá niðurstöðu en Blikar hurfu hins vegar súrir á braut....

Blikaleikirnir í Víkinni

Breiðablik mætir í Víkina síðdegis til leikja við Víkinga í Íslandsmótinu. Svo vill til að bæði Víkingsliðin eru sem stendur í öðru sæti í sínum riðli og í A-riðli eru Víkingar á toppnum, öruggir um sæti í úrslitakeppninni í september....

Steinar Ísaks í landsliðsúrtaki

Steinar Ísaksson, liðsmaður vor í þriðja flokki Víkings, hefur verið valinn í hóp sem tekur þátt í úrtaksmóti Knattspyrnusambands Íslands á Laugarvatni um næstu helgi, 20.-22. ágúst. Þjálfarar U-16 landsliðsins völdu hóp stráka úr félögum héðan og þaðan...

Næsta síða »

vikingarnir.blog.is

Frjálst og óháð blogg
Frjálst og óháð blogg
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband