14.4.2010 | 22:15
Alslemma í Frostaskjóli
Víkingar gerðu góða ferð í Vesturbæinn í dag og komu heim með öll sex stigin sem í boði voru í þessari umferð Reykjavíkurmótsins. Þeir burstuðu KR í A-leiknum með fimm mörkum gegn einu (Víkingar skoruðu reyndar öll sex mörkin!)og sigruðu B-liðið líka örugglega með sex mörkum gegn fjórum!
Fyrri hluti A-leiksins var markalaus en í loftinu lá að þegar stíflan brysti þá færi að líka að flæða. Og það gerðist fljótlega í síðari hálfleik þegar Aron Elís skoraði og Davíð Örn bætti öðru við. Síðan kom eina mark KR, sem Óli okkar Pétur skoraði, klæddur treyju þar sem aðeins önnur hvor rönd er í lagi. Eftir þetta héldu Víkingum engin bönd. Aron Elís skoraði þriðja mark okkar manna og Agnar Darri sá svo um að koma Víkingi í 1-5 með því að skora í tvígang, hið fyrra var skínandi laglegt skallamark.
B-leikurinn var jafnari en Víkingur hafði samt undirtökin allan tímann. Alexander og Patrik komu liðinu í 0-2 áður en KR tókst að komast á blað. Agnar Darri bætti síðan við marki og leikhléi var staðan 1-3. KR-ingar minnkuðu muninn fljótlega eftir hlé en þá skoraði Óli Þór og KR svaraði strax með marki beint úr aukaspyrnu rétt við vítateigslínu. Patrik og Agnar Darri tóku þá af skarið og tryggðu Víkingi sigurinn með tveimur mörkum. KR-ingar gáfust ekki upp og þeim tókst að skora á síðustu sekúndunni í þessum tiu marka leik.
Eftir leiki kvöldsins deilir Víkingur efsta sæti A-riðils með Fjölni, bæði hafa sigrað í öllum fjórum leikjum sínum og eru með tólf stig en markahlutfall Víkings er mun betra en Grafarvogsmanna.
Í B-riðli náði Víkingur efsta sætinu með sigrinum í Frostaskjóli í kvöld og er með fullt hús, tólf stig úr fjórum leikjum. Tvö lið Fjölnis koma næst, hvort með 10 stig en hafa spilað einum leik fleira en Víkingur. Staða B-liðsins okkar er því býsna efnileg.
- Næstu leikir í Reykjavíkurmótinu verða í Víkinni á sunnudaginn kemur, 18. apríl, við Þrótt. Leikur A-liðanna hefst kl. 13:00, leikur B-liðanna kl. 14:30.
- Þegar Þróttarleikir eru að bak eigum við ólokið þremur leikjum í Reykjavíkurmótinu. A-liðið spilar við Fylki, Fjölni og Fram en B-liðið við Fylki, Fylki 2 og Fjölni.
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar