Leita í fréttum mbl.is

Stórsigur Kleinubandalagsins

Kleinubandalagið að störfumKleinubandalag 3. flokks Víkings er ótvíræður sigurvegari sveitarstjórnarkosninganna, hvað sem líður sífri í einhverjum pólítíkusum hér og þar sem vilja eigna sér sætusta sigra dagsins. Ætla má að Kleinubandalagið  hafi um 10% fylgi á kjörsvæði Breiðagerðisskóla því nærri lætur að tíundi hver kjósandi hafi keypt kleinur af sölufólki Víkings á leið heim af kjörstað.

Fjáröflunarátakið heppnaðist sérlega vel og ber að þakka öllum þeim sem lögðu á sig strit og puð tímunum saman til að láta það ganga upp. Svo uppskera menn sem þeir sá og víst er að aðstandendur Kleinubandalagsins uppskáru ríkuglega. Hver einasta kleina seldist!

Á engan er hallað þegar sagt er að Birna Hugrún og Soffía hafi dregnið þyngsla hlassið í undirbúningi og framkvæmd kosningabaráttu Kleinubandalagsins. Birna skipulagði aksjónina í smáatriðum, setti upp vaktatöflu og  annaðist aðdrætti hráefnis með Soffíu. Sú síðarnefnda hafði reyndar líka úti einkaklær sínar og sankaði sér sér hráefni fyrir lítið eftir öðrum leiðum, fullkomlega löglegum að sjálfsögðu!

Síðdegis á föstudag og fram eftir kvöldi byrjuðu Soffía og Birna að hræra deig og hnoða í eldhúsi við Sléttuveg, til að undirbúa morgundaginn. Á slaginu klukkan sjö að morgni kjördags hittust Birna, Soffía og Dýrleif í kennslueldhúsi Réttarholtsskóla, sem stjórnendur skólans voru svoelskulegir að  lána okkur og eiga miklar þakkir skildar fyrir. Þá var byrjað að fletja deig frá kvöldinu áður og búa til kleinur.

Klukkan átta streymdu fleiri foreldrar á svæðið og hálftíma síðar bættust nokkir strákar í hópinn. Þar með hófst færibandaframleiðsla á kleinum sem stóð linnulaust yfir til kl. þrjú og sumir stóðu við vinnuborðin sín eða yfir steikningarpottum allan tímann. Gunnar Örn þjálfari sýndi að honum er ýmislegt fleira til lista lagt en knattspekin því hann reyndist kleinusteikjari af bestu gerð og eini karlinn sem fékk heimild til að koma nálægt feitispotti við þetta tækifæri.

Við Breiðagerðisskóla voru nýsteiktar kleinurnar seldar frá því kjörstaðir voru opnaðir kl. níu þar til síðasti pokinn seldist um fimmleytið. Sett voru upp söluborð á fjórum stöðum og  strákar voru þar í sölumennsku ásamt nokkrum úr foreldrahópi. Sumir iðkenda vorra eru alveg makalausir sölumenn og kleinurnar bókstaflega flugu út á stundum. Aldrei fór samt svo að framleiðendur í Réttóeldhúsi hefðu ekki undan sölunni.

Það sýndi sig fljótt að kleinurnar féllu kaupendum afar vel í geð. Sumir gátu ekki beðið eftir að smakka og lofsungu baksturinn. Fleiri en eitt og fleiri en tvö dæmi voru um að hjón kæmu á kjörstað hvort í sínu lagi. Það hjóna sem fyrr kom keypti kleinur með morgunkaffinu en þegar makinn mætti svo til að kjósa síðar um daginn var það að minnsta kosti jafn ofarlega í huga viðkomandi að kaupa fleiri kleinur til heimilisbrúks!

 Þetta var stórt verkefni, skemmtilegt og árangursríkt. Ýmsir veltu því fyrir sér hvort yfirleitt megi selja kleinur við kjörstaði og svarið er að biðja verður um leyfi til slíks. Það gerðum við og í þessu tilviki var það veitt. Erindið fór alla leið til dómsmálaráðuneytis og kjörstjórn í Breiðagerðisskóla setti okkur ákveðnar reglur um hvar við mættum vera og hvað við mættum og mættum ekki. Samstarfið við fulltrúa kjörstjórnar og við starfsfólk skólans var afar gott og við erum þakklát fyrir það traust sem okkur var sýnt. Vonandi stóðum við undir því trausti þannig að eftir okkur verði munað ef við skyldum finna upp á einhverju í þessum dúr þegar kosið verður næst!

Ýmislegt má af þessu ævintýri læra, til dæmis það að við vorum í raun of fáliðuð, einkum hefði verið afar æskilegt að hafa vaktakerfi og fleira fólk í bakstrinum í Réttó. Það hefðu líka mátt vera fleiri í sölumennskunni við  Breiðagerðisskóla en þar kom líka til að nokkrir ikðkendur, sem skráðir voru á vaktir, mættu ekki og létu ekki frá sér heyra. Það er auðvitað slæmt og skapaði nokkur skipulagsvandræði um hríð á svæðinu.

í heildina tekið var Kleinubandalagið gjöfult og gott uppátæki sem skilaði tekjum eins og til var stofnað í sjóð drengjanna. Fyrst og fremst skilur verkefnið samt eftir sig að víðs vegar um Víkingshverfið er fólk sem hugsar hlýlega til okkar eftir að hafa borðað kleinurnar góðu. Kleinurnar koma örugglega upp í huga samborgara okkar í hverfinu næst þegar leiðir okkar og þeirra liggja saman.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

vikingarnir.blog.is

Frjálst og óháð blogg
Frjálst og óháð blogg
Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband