Leita í fréttum mbl.is

Bláu beddarnir urðu gleðigjafar dagsins

IMG_5941„Fara ekki beddarnir að koma?“ spurðu okkar menn í sífellu síðdegis þegar við höfum burðast með farangurinn frá rútunni upp á aðra hæð Bekkelaget skole. Beddar sáust hvergi og þá gátu sumir ekki leynt svekkelsi sínu. Það var ekki fyrr en eftir kvöldmatinn að rannsókn leiddi í ljós að húsvörður skólans lúrði á beddum Víkinga eins og ormur á gulli. Þvílík unaðsstund þegar þessar umtöluðu erlendu fjárfestingar drengja úr Bústaðahverfinu voru bornar inn á gólf. Sumum fjárfestum gekk að vísu brösuglega að standsetja húsgagnið en aðrir gerðu sig svefnklára á innan við einni mínútu og lögðust strax fyrir til prufu. Eintóm hamingja og þægindi. Svo höfðu menn orð á að beddarnir væru léttir en afar traustbyggðir og blái liturinn gæti gengið við flest í innbúum heima fyrir. Margir hyggjast nefnilega tjalda beddunum til fleiri nátta en þessara sem framundan eru í norskri fótboltasælu. Enn er ótalið að beddinn kemur samanbrotinn í ferðatösku með burðaról og fer ekki mikið meira fyrir honum í farangri en stærstu maðkaboxum laxveiðigreifa. Þegar við gengum heim í skólann, eftir kvöldmatinn, mættum við af og til liðsmönnum fótboltaliða héðan og þaðan úr veröldinni ráfandi í átt að náttstöðum sínum með beddabox á öxlinni. Við kinkuðum kolli og gáfum sigurmerki. Þarna fóru okkar menn. Bláir beddar sameina lönd og þjóðir, kannski duga þeir betur til slíks en Sameinuðu þjóðirnar.


Flugferðin til Noregs gekk eins og í sögu í dag. Vélin var á áætlun og tveimur klukkustundum síðar vorum við á áfangastað í Bekkelaget skole. Á flugvellinum tók á móti okkur Guðni Ölversson, íþróttakennari hér í borg og reglulegur spjallari um norsk málefni í morgunþætti Rásar tvö. Hann verður íslensku liðunum á Norway Cup innan handar á mótinu. Sömuleiðis dúkkaði upp norsk stelpa í skólanum, sem sömuleiðis hafði fengið það verkefni að leiðsegja Víkingum um Osló og vera okkur til halds og trausts í blíðu jafnt sem stríðu. Kom reyndar á daginn að Lotta hin norska er íþróttamaður mikill og hvorki meira né minna en Evrópumeistari í fyrirbæri sem Cheerleading heitir upp á ensku og er sambland af fimleikum, dansi, hoppi og híi til að kynda upp stemningu áhorfenda á kappleikjum. Klappstýrur eru  þær víst kallaðar á okkar ylhýra en Lotta vill eindregið meina að sem keppnisgrein sé klappstjórn mun meira mál en við sjáum t.d. í hléi bandarískra körfuboltaleikja í sjónvarpinu. Kannski fáum við Lottu til að klappstýra stuðningi við Víkingana á morgun. Hún ætlar að fylgja okkur til vallar kl. 10 að staðartíma þar sem Víkingur 1 mætir liði frá Flisa, bæjarfélagi hér í Heiðmerkurfylki.


Norðmenn skammast sín fyrir veðrið en við kvörtum ekki. Það var hlýtt í dag og hlýtt er í kvöld en skýjað og dropar féllu úr lofti. Fínasta fótboltaveður en það mun trúlega rigna eitthvað á okkur í vikunni.


Mótssvæðið er í göngufæri frá Bekkelaget skole og hópurinn fékk sér fyrsta göngutúrinn þangað til að fá sér kvöldmat. Hægt var að velja um kjötbollur í sósu eða kjúklingarétt með hrísgrjónum + salat. Ágætis matur og vel útilátinn. Það var hollt ráð sem Óli Jóh. landsliðsþjálfari gaf strákunum á æfingu í Víkinni á fimmtudaginn: Borðið einfaldlega matinn sem í boði er og verið ekkert að röfla um hvort hann er góður eða slæmur. Öllu máli að spila fótbolta og njóta samveru í góðum hópi frekar en að heilu fótboltaferðirnar fari í að fimbulfamb um matinn!


Í kvöld var setningarsamkoma mótsins á Ekebergsléttunni en þar var fátt um Víkinga. Strákarnir voru greinilega dasaðir og vildu frekar halda kyrru fyrir í skólanum. Hugsanlega hafði sitt að setja að þegar nýbakaðir beddaeigendur lögðust á annað borð fyrir var erfitt að rísa úr rekkju á nýjan leik – þrátt fyrir að klukkan væri einungis hálf sjö að norskum tíma, hálf fimm að íslenskum!
Húsvörður skólans hafði orð á því að norskir KFUM-strákar færu snemma í háttinn en hann hafði aldrei kynnst jafn snemmbúinni rekkjugöngu og hjá þessum íslensku KFUM-Víkingum. Það stefnir því í að Víkingar verði bærilega útsofnir fyrir leiki morgundagsins.


Annars misstu okkar menn af ágætis rokktónleikum á sléttunni þar sem þúsundir manna dilluðu sér í rökkrinu. Flott músik og mikið stuð. Það þarf greinilega mun meira en framlínumenn í norskum rokkbransa til að draga íslenska Víkinga úr bláu fleti.+


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

vikingarnir.blog.is

Frjálst og óháð blogg
Frjálst og óháð blogg
Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband