1.8.2010 | 13:53
Öruggur Víkingssigur í fyrsta leik
A-lið Víkings sigraði Flisa úr Heiðmerkurfylki í Noregi sannfærandi og örugglega í fyrsta leik sínum á Norway Cup með þremur mörkum gegn einu. Sú markatala segir samt aðeins hálfa sögu og tæplega það.
Okkar menn höfðu undirtökin mestallan tímann og stjórnuðu leiknum. Samt voru það Norðmenn sem voru fyrri til að skora en í loftinu lá að þeir ættu að fara sparlega með fagnaðarlætin. Það réttist rétt vera því á nokkurra mínútna kafla jafnaði Viktor eftir fyrirgjöf frá Jóni Rey og andartökum síðar fékk Patrik sendingu frá Davíð Erni, vippaði laglega yfir markvörð Flisa og kom Víkingi í 2-1. Sú var staðan í hálfleik.
Í seinni hálfleik áttu Víkingar leikinn en bættu samt aðeins einu marki við. Það var líka mark í lagi: klassasending frá Óla Ægi milli varnarmanna Flisa til Davíðs Arnar og sá þrumaði boltanum í netið. Þar við sat, 3-1.
Vallaraðstæður í dag eru kapítuli út af fyrir sig. Spilað var á gervigrasi í öðrum bæjarhverfi en aðalmótssvæðið er. Þetta gervigras er nýtt en undir það vantar gúmmílag og sand, sem ætti þar að vera að öllu eðlilegu. Iðkendur beggja liða hrösuðu og duttu aftur og aftur á vellinum, svo augljóst var frá upphafi að aðstæður voru ekki sem skyldi. Markið sem Norðmenn skoruðu skrifast til dæmis miklu frekar á völlinn en frammistöðu okkar manna til varnar norsku sókninni.
Stjórnarmaður í íþróttafélaginu í þessu umrædda hverfi, Abildsö idrettslag, var á hliðarlínunni í morgun og sagði við skrifara þessa pistils að engum væri bjóðandi að spila á þessum velli og hann baðst hreinlega afsökunar fyrir hönd heimamanna! Alvarleg mistök hefðu átt sér stað við að leggja gervigrasið og þarna hefðu slasast iðkendur, beinlíns vegna aðstæðna. Meira að segja hefði dómari í leik fyrr í sumar misst fótanna og meiðst. Á daginn kom svo að þetta vonda gervigras hafði farið illa með takka á skóm nokkurra Víkinga og víst er að við viljum eindregið losna við að spila meira á þessum velli.
Sól skín í Osló og heitt er eftir því. B-liðið á að spila kl. 19:30 í kvöld að norskum tíma og sól verður þá vonandi gengin niður. Mikill hiti og sólskin er nefnilega ekki óskaveður okkar manna í fótboltaleikjum. Ósköp er hins vegar notalegt að vera á hliðarlínunni í hlutverki áhorfanda þegar blessuð sólin bakar belgi.
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar