Leita í fréttum mbl.is

Sæmdartap fyrir Oslóarliði

IMG_6075Víkingur 2 tapaði fyrir Oslóarliðinu Höybraaten-Stovner 0-1 í fyrsta leik síns riðils. Markalaust var í fyrri hálfleik en sigurmark Norðmanna kom fljótlega í seinni hálfleik. Í blálokin fengu Víkingar dauðafæri í tvígang en heppnaðist ekki að skora. Þeir voru satt að segja grátlega nálægt því að jafna.


Andstæðingarnir voru sterkari í heildina tekið í fyrri hálfleik en Víkingar áttu sína spretti líka. Í síðari hálfleik gerðu Víkingar atlögu að norska markinu nokkrum sinnum og hefðu átt skilið að uppskera stig. Strákarnir okkar báru greinilega of mikla virðingu fyrir norska liðinu í fyrri hálfleik en fóru að hvessa sig meira í þeim seinni, eftir að þjálfari vor hafði messað í hálfleik. Rétt er þó að nefna að Agnar Darri sýndi andstæðingunum alls enga virðingu frá upphafi til enda, gerði usla og ógnaði aftur og aftur. Norðmennirnir réðu ekkert við drenginn.


Þjálfarar liðs frá Þrændalögum (Klæbu), sem deila hæð í Bekkelaget skole með Víkingi, sáu í gærkvöldi lista yfir þau sex lið sem Víkingar mæta í riðlakeppninni og töldu að Oslóarliðið væri einna sterkast. Það sem við sáum og reyndum í dag bendir til að Þrændur hafi eitthvað til síns máls. Við höfum þegar mætt tveimur liðum og horfðum svo í dag á leik tveggja liða sem Víkingur 1 á eftir að spila við: Aal og Hesseng. Víkingur mætir Aal í fyrramálið og Hesseng á þriðjudag. Strákarnir munu taka vel á þeim báðum og sú meðhöndlun hefst kl. 8 að staðartíma að morgni mánudags. Á sama tíma spilar Víkingur 2 við Stadsbygd, lið frá Þrændalögum, og nú reynir á okkar menn að fá stig í sarpinn.


Við verðum snemma á fótum í fyrramálið til að vera klárir í leiki dagsins. Strákarnir verða ræstir um svipað leyti í flugið heima á laugardagsmorguninn (að íslenskum tíma!). Starfsfólk í matsalnum í skólanum okkar verður klárt á slaginu kl. 6:30 að norskum tíma með léttan morgunmat fyrir hópinn. Svo röltum við áleiðis á mótssvæðið til að vakna almennilega og vera vel gíraðir til átaka.

Það þurfti ekkert agavald á drengina til að fá þá til að leggjast til hvílu í kvöld. Þeir háttuðu, slökktu ljós og fóru að sofa – allt á sjálfsstýringu. Húsvörðurinn í skólanum er algjörlega sannfærður um að sjálfsaginn og prúðmennskan í KFUM á Íslandi sé mun meiri en í norska KFUM. Er þá mikið sagt.

Húsvörðurinn skilur auðvitað ekki að bláu gleðibeddarnir skýri að stórum hluta þessi rólegheit, yfirmáta hæversku og hvíldarþörf íslensku sveinanna. Það er engu líkara en vindsængurdrengirnir í hópnum okkar hafi smitast af beddaværð hinna og nú er allir komnir inn í draumalandið á bláu svefnskýi. Engum datt í hug að svo mikið sem orða diskótekferð í kvöld hvað þá meira.


Og værð hefur færst yfir fleiri hér á bæ. Yfirþjálfari vor, Gunnar Örn og frú Jóhanna, sem hafa sérstakt kamesi hér á hæðinni út af fyrir sig, eru gengin til hvílu líka. Þau brúka tvo samliggjandi bedda og verða því væntanlega til frásagnar við heimkomu um reynslu af slíkum húsgögnum í hjónaherbergjum. Þau vilja gefa sér viku áður en einhverjar yfirlýsingar verða út gefnar um.  Spennan heldur því áfram.


Fyrir ykkur sem heima sitjið eru bláu beddarnir örugglega orðnir álíka plága í umræðunni og Magma-málið. Magma er hins vegar froðusnakk en beddarnir áþreifanlegir. Þeir eru í senn heilsbrigðismál og lífsfylling og bæta, hressa og kæta ekkert síður en maltölið. Við höfum því ekki sagt okkar síðasta orð um bedda, enda vikan bara rétt að byrja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

vikingarnir.blog.is

Frjálst og óháð blogg
Frjálst og óháð blogg
Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband