2.8.2010 | 20:59
Saga af dómaratríói
Dómaraflóran á Norway Cup er jafn fjölskrúðug og sjálf iðkendaflóran á mótinu. Það staðreyndum við í morgun í leik Víkings 2 og Stadsbygda. Rétt eftir að við mættum á völlinn til upphitunar birtist náungi og gekk beint að skrifara þessa pistils, sem hélt sig utan vallar, heilsaði með virktum og leitaði frétta af liðunum sem ættu að fara að spila. Hann sagðist vera frá Hamborg í Þýskalandi og færi land úr landi til að sinna fótboltamótum. Ertu með lið frá Þýskalandi? spurði skrifari. Nei, nei, svaraði Hamborgari. Ertu kannski blaðamaður? spurði þá skrifari og var kominn í hlutverk spyrils í Leynigestinum, föstum dagskrárlið í sunnudagsþætti Svavars Gests í Útvarpinu um miðja síðustu öld. Nei, nei, svaraði Hamborgari mjög ákveðið á bjagaðri ensku en greinilega ögn gáttaður á spurningunum.
Lengra komumst við ekki í spurningaleiknum því að okkur gekk nú dökkleit og lávaxin týpa sem heilsaði okkur Hamborgara og sagðist vera þriðja hjól undir vagni. Hamborgari tók honum fagnandi, kynnti sig sem Mike frá Hamborg og innti komumann eftir uppruna og þroskaferli. Sá sagðist vera tamílskur flóttamaður frá Srí Lanka, sem skolað hefði á strönd Björgvinjar í Noregi og byggi þar. Hamborgari fór þá að leggja Tamíla og skrifara lífsreglur og úthluta þeim veifum til brúkunar. Bar þá að þriðja náungann á þessari sjálfsprottnu morgunsamkomu gjörókunnugra manna úr ýmsum heimshornum á norsku engi með mávager gargandi yfir hausamótum. Þriðji maðurinn var norskur og rann þá samstundisupp fyrir öllum viðstöddum að skrifari var boðflenna í röngu partíi.
Hamborgari var sum sé væntanlegur dómari í leik Víkings 2 og Stadsbygda en Tamílinn og Norðmaðurinn aðstoðarþjálfarar. Þeir komu hver úr sinni áttinni, höfðu aldrei sést og aldrei talað saman. Þess vegna upphófst misskilningurinn. Skrifari var og er bara skrifari og afþakkaði veifu til að veifa á hliðarlínunni, enda önnur tól þarflegri til skrifta en tuskur á priki.
Það er svo af dómaratríóinu okkar að segja að það dæmdi leikinn ágætlega, eins og reyndar dómarar hafa gjarnan gert í leikjum okkar hér. Dómarar flauta hins vegar ótt og títt á snertingar, sem kollegar þeirra myndu ekki gera í leikjum á Íslandi. Sú mjúka lína fer ögn í taugar strákanna okkar. Við því er bara ekkert að segja. Mörkuð stefna á Norway Cup er sú að spila mjúkan fótbolta. Dómarar haga sér í samræmi við það og eru sjálfum sér samkvæmir, alla jafna. Við horfðum hins vegar á leik stráka í 2. flokki á Ekebergsléttunni í kvöld og þar var tekið vel á því. Kvennalistalína dómaranna gildir því greinilega ekki í leikjum elstu iðkenda á Norway Cup.
Upphitun tríósins: Norðmaður, Hamborgari, Tamíli.
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar