Leita í fréttum mbl.is

Bæði Víkingsliðin komin í 32ja liða úrslit á Norway Cup!

Víkingar hafa verið sigursælir í dag í Osló, Víkingur 1 hefur spilað tvo leiki og unnið báða, Víkingur hefur spilað einu sinni og sigrað. Bæði liðin spila í kvöld og þá ræðst hvort fyrir þeim á að liggja að komast í 16 liða úrslitin.

Já, það er rétt skilið: Víkingur 1 spilar alls þrjá leiki í dag en Víkingur 2 tvo!


Víkingur 2 hitti fyrir Oslóarstráka úr félagi sem Rustad heitir. Víkingar voru sterkari í leiknum og tvímælalaust betra fótboltalið. Það var því við hæfi að þeir kæmust yfir í fyrri hálfleik þegar Þórarinn skoraði í fyrstu snertingu eftir innáskiptingu. Staðan í leikhléi 1-0. Í seinni hálfleik jöfnuðu Norðmenn en Sindri átti Fjölni uppi í erminni á bekknum og skipti honum inn á,níu mínútum fyrir leikslok, með þeim orðum að nota nú síðustu kraftana til að gera út um leikinn. Það gerði Fjölnir og sendi Oslóardrengina út úr mótinu.


Víkingur 1 spilaði eftir hádegið við skemmtilegt lið frá Madeira í Portúgtal, Barreirense að nafni. Okkar menn byrjuðu með nokkrum látum og létu finna verulega fyrir sér en tókst ekki að skora. Eftir það var barátta og hasar um allan völl án þess að liðunum lánaðist að skora. Leikurinn var framlengdur og ekkert mark kom í framlengingu heldur en hart var barist.


Sjálfurinn leikurinn var æsispennandi og ekki fyrir viðkvæma eða hjartveika á að horfa. Hvað þá vítaspyrnukeppnin, hún var svakalegur þriller. Davíð Örn, Villi, Hörður, Viktor og Villi tóku fyrstu fimm spyrnurnar fyrir Víking og skoruðu allir af miklu öryggi. Portúgalir skoruðu örugglega líka úr fyrstu fimm spyrnunum en Hlynur var ekki langt frá því að ná að kasta sér fyrir boltann í einni þeirra.

Sverrir Hjaltested tók sjöttu spyrnuna og negldi í netið. Þá var komið að sprækum framherja Portúgala. Hann stillti boltanum upp en ekki á réttum stað. Dómarinn færði þá boltann til og truflaði einbeitingu kappans. Portúgalinn tók síðan kæruleysislegt tilhlaup, skaut himinhátt yfir markið og hrundi samstundist grátandi niður í svörðinn. 

Líflegir áhangendur Madeiraliðsins á hliðarlínunni tóku tapið líka afskaplega nærri sér en Víkingar stigu hins vegar stríðsdans. Langt er síðan strákarnir hafa fagnað jafn svakalega og innilega og í dag og þeir áttu aldeilis innistæðu fyrir því!


Bæði lið taka það rólega þessa stundina og hvílast fyrir átök kvöldsins. Strákarnir eru orðnir nokkuð þreyttir en munu örugglega finna aukreitis forða af orku þegar blásið verður til leiks. Og svo lumar Víkingur 1 á leynivopninu Patriki, sem fékk rautt spjald í leik morgunsins og tók út leikbann á móti Portúgölum.  Hann kemur ferskur og lítt þreyttur til vallar á eftir. 


Dagurinn í dag er bæði langur og strangur. Við ræstum strákana í Víkingi 1 kl. sex og hugðumst gefa þeim brauðsneiðar sem Davíð og Jóhanna höfðu puðað við að smyrja  handa þeim í gærkvöld, af því mötuneytið var ekki opnað nógu snemma fyrir okkur. Þá kom í ljós að einhverjir höfðu stolið mestöllu brauðinu og við gripum í tómt í orðsins fyllstu merkingu.

Þá var efnt til sjálfsprottinnar morgunmáltíðar með trúarlegu yfirbragði í stofu fararstjóra. Smalað var saman tiltæku brauði og kexi og lagt á stól (engin borð á vettvangi). Það kom sér vel að við höfðum tekið með okkur álegg af ýmsu tagi úr mötuneytinu til snarls og gátum lagt líka á stólinn. Með þessu var drukkið kranavatn. 

Sindri braut brauðin og útdeildi meðal lærisveina sinna, Gunnar Örn gekk á eftir með plastbikar og bað þá bergja á. Hann bauð upp á slurk  af blóðleitum vökva til að ná upp orkuvinnslu í morgunsárið. Sólberjasaftin dugði vel til síns brúks og víst er að brauðþjófnaður næturinnar þjappaði hópnum saman til átaka frekar en hitt.


Krossið nú fingur heima og heiman og hugsið til Víkingsstrákanna. Víkingur 2 mætir til leiks kl. 19:00 að norskum tíma og Víkingur 1 kl. 19:30!

IMG_6359web

 

 

 

 

 

 

 

 

Portúgalinn þrumar yfir markið í örlagaspyrnunni sinni.

fagn

Stákarnir ærir af fögnuði, portúgalski framherjinn grætur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

vikingarnir.blog.is

Frjálst og óháð blogg
Frjálst og óháð blogg
Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband