4.8.2010 | 18:49
Víkingur 1 kominn í 16 liða úrslit - Víkingur 2 féll úr keppi
Víkingur 1 er áfram á sigurbraut á Norway Cup. Liðið sigraði í leik sem var að ljúka með fjórum mörkum gegn engu. Markaskorarar kvöldsins voru Patrik, Röggi (vítaspyrna), Villi og Ólafur Ægir.
Niðurstaða þriggja leikja Víkings 1 í dag er sem sagt sú að liðið hefur tryggt sér sæti í 16 liða úrslitum og til lukku með það! Næsti leikur er kl. 10:00 á morgun, fimmtudag, og þá er slagurinn um að komast í átta liða úrslit. Að sjálfsögðu verða fluttar fréttir af þeirri viðureign svo fljótt sem verða má, nú þegar þetta er skrifað vitum við ekki hver andstæðingurinn verður.
Andstæðingar Víkings 1 í leiknum í kvöld voru drengir af Þelamörk í Noregi, frá félagi sem Sannidal/Kragerö heitir. Segja verður þá sögu eins og hún er að þetta er ekki stórbrotið fótboltalið og reyndar eilítið undrunarefni að það skuli þó hafa náð þetta langt í mótinu. Víkingar stjórnuðu leiknum frá upphafi til enda, voru með boltann í 80& leiktímans og þurftu lítið að hafa fyrir því að verjast - einfaldlega af því sóknartilburðir Norðmanna voru afar takmarkaðir. Eina dramatíska atvikið í leiknum var þegar Patrik var felldur í vítateignum og dómari dæmdi víti eftir að hafa ráðfært sig við aðstoðardómara. Enn dramatískara atvik átti sér stað við hliðarlínuna fyrir leik, þegar Víkingar voru að hita upp og einum Víkingi tókst óvart að skjóta niður annan aðstoðardómarann. Sá fékk sum sé boltann í hausinn, steinlá og þurfti aðhlynningar við en náði fljótlega áttum í tilverunni eftir þessa sérlega óvenjulegu og óvæntu atlögu Víkings að réttarkerfi knattspyrnunnar á Norway Cup.
Víkingur 2 lauk sinni þátttöku á mótinu í kvöld með 1-0 tapi fyrir norska liðínu Fyresdal. Strákarnir geta engu að síður borið höfuðið hátt og því skal til haga haldið að þeir hafa fengið erfiðari andstæðinga til að glíma við á mótinu en Víkingur 1 (riðlakeppnin) og komust alla leið í 32ja liða úrslit.
Það bar ögn á spennu í strákunum í leiknum í kvöld, á sama tíma og norskir andstæðingar þeirra voru sjálfsöryggið uppmálað. Norska liðið var ágætlega spilandi og í loftinu lá stærstan hluta leiksins að líklegra væri að það bryti ísinn með marki en Víkingar. En þegar leið á leikinn fóru okkar menn að sækja í sig veðrið. Fyrri hálfleikur leið án þess að skorað væri mark og allt stefndi í að sú saga endurtæki sig í þeim síðari. Venjulegur leiktími var að renna út og Sindri þjálfari var kominn með vatnsflöskutöskuna í hendur, tilbúinn að ræða við strákana um framlengingu. Þá skyndilega náðu Norðmenn sókn og tókst að skora, dómarinn blés leikinn af og allt í einu voru okkar menn dottnir úr keppi. Stutt á milli feigs og ófeigs á stundum!
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar