5.8.2010 | 09:49
Víkingur 1 og Grótta í átta liða úrslitum á Norway Cup á morgun!
Víkingur 1 sigraði í morgun lið frá Hörðalandi, Skogsvald/Hald, með tveimur mörkum gegn einu á Norway Cup og er þar með kominn í átta liða úrslit á mótinu! Liðpið er því áfram á blússandi siglingu í úrslitakeppninni og á næsta leik kl. 10:00 á morgun, föstudag, að norskum tíma (ekki síðdegis í dag, eins og útlit var fyrir í morgun). Það sem gerir tilveruna skrítna og skemmtilega er að andstæðingar í átta liða úrslitum eru vinir vorir Gróttumenn af Seltjarnarnesi! Grótta er þar að auki með okkur í Bekkelaget skole þannig að þetta verður eins konar íslenskt fjölskylduuppgjör á norskri grundu.
Víkingar voru betra liðið í leiknum í morgun og átti sigurinn fyllilega skilið en Norðmennirnir voru líka með ágætt lið, betra en flest önnur norsk lið sem Víkingar hafa spilað við á mótinu. Víkingur komst yfir snemma í fyrri hálfleik með marki Jóns Reys. Viktor skallaði í slá, boltinn hrökk út á völlinn og Jón Reyr var réttur maður á réttum stað og kláraði dæmið snyrtilega.
Leikur okkar manna róaðist óþarflega mikið eftir markið en Norðmenn náðu sem betur fer ekki að nýta sér að. Gunnar Örn þjálfari barði í brestina í hálfleik og lagði einfalda spurningu fyrir strákana: Langar Norðmenn meira til að halda áfram í mótinu en ykkur? Víkingar svöruðu spurningunni úti á vellinum með því að koma galvaskir til leiks og fljótlega kom mark a la Viktor Jóns.
Síðan var málið að halda fengnum hlut og það gerðu strákarnir. Norsku strákarnir höfðu greinilega ekki búist við að lenda í slíkum mótbyr og gerðust grófir á köflum. Harka færðist í leikinn og leikmenn úr báðum liðum fengu áminningu. Í blálokin var dæmt víti á Víking, fyrir eitthvað sem enginn sá nema hugsanlega dómarinn. Norskir áhangendur liðins frá Hörðalandi voru orðnir snaróðir og liðsmenn þeirra sömuleiðis inni á vellinum. Dómarinn leit á klukkuna, sá að einungis 30 sekúndur voru eftir og dæmdi vítið til að friða hina æstu hjörð, vitandi það að norskt mark á þessum tímapunkti myndi ekki hafa áhrif á úrslitin. Norðmenn skoruðu og leikurinn var blásinn af, úrslitin 2-1 fyrir Víking.
Nokkrir úr norska liðinu sýndu dæmalaust óíþróttamannslega framkomu og stungu höndum aftur fyrir bak þegar okkar menn vildu þakka þeim fyrir leikinn. Norski aðstoðarmaðurinn okkar, Lotta, skammaðist sín sárlega fyrir framkomu landa sinna og sagðist vera feginn því að þeir hefðu verið sendir út úr keppninni.
Sem sagt: slökun í dag, Grótta í fyrramálið. Það verður sjálfsagt einkennilegt andrúmsloft í morgunmatarsalnum!
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar