Leita í fréttum mbl.is

Hitað upp fyrir heimferð með rússibanareið og hamborgaraáti

Víkingshópurinn er kominn í hús í Bekkelaget skole eftir hamborgaraveislu í boði flokkssjóðsins á Burger King í hjarta Oslóarborgar. Þegar samið var við veitingahaldarann í dag um að annast veisluhöldin fylgdi sögu að hér yrðu á ferð þreyttir en soltnir úlfar af Íslandi sem erfitt væri að metta þannig að dygði nema rétt rúmlega fyrir þarnæsta horn á leiðinni heim. Þá færi að gæta örsvengdar hjá sumum sem síðar ágerðist og endaði í alsvengd fyrr en hendi væri veifað.

Borgarakóngurinn kvaðst ætla að sjá til þess að svengdar yrði ekki vart hjá nokkrum manni hérna megin miðnættis. Þar með ættu allir í hópnum að lifa sæmilega af til morguns þegar mötuneytislið í Bekkelaget skole færi á stjá til að gefa kornfleks, brauð og makríl í dós á garðann.

Fyrirheit Borgarakóng standast og rúmlega það. Hann steikti ofan í hópinn tvöfalda ostborgara, lét fylgja með fullorðna skammta af frönskum, hálfan lítra af gosdrykk og hálfan lítra af íshristingi í eftirrétt.

Þegar allt þetta var lagt saman stóðst máltíðin allan samanburð við stórátakamatseðil Múlakaffis í Reykjavík sem sérhannaður er fyrir stjórnendur flutningabíla, ýtukarla og helluleggjendur í gangstéttarframframkvæmdum. Víkingsstrákar urðu margir frá að hverfa íshristingnum að einhverju eða öllu leyti. Þeir skjögruðu út ofurmettir og hafa nú ekki minnst á mat eða gaulandi garnir í samfellt tvær klukkustundir, sem er sjaldgæft ef ekki einsdæmi í seinni tíð.

Í fyrramálið, sunnudag, verður ræst snemma enn einu sinni en í þetta sinn til að pakka niður ogundirbúa brottför. Strákarnir voru svo bugaðir af þreytu eftir tívolírölt og kjötsvima + kviðfylli Borgarakóngs að ekki reyndist unnt að láta þá taka sig til af neinu viti nú í kvöld. Meira að segja Sindri aðstoðarþjálfari lognaðist áðan út af í miðri setningu í kvöldspjalli á fararstjórakontórnum og verður að bíða til morguns eftir að fá málfræðilegan og rökfræðilegan botn í umræðuefnið sem hann stofnaði til. Það fyllir okkur meðsofendur aðstoðarþjálfarans vissulega óöryggi að ganga til hvílu með heila atburðarás í lausu lofti, auk þess sem óvíst er að kvöldsaga sé yfirleitt við hæfi að morgni dags. Það sem sagt er í kvöldrökkri þolir nefnilega ekki endilega dagsbirtu.

  • Sjá nýjar myndir í sarpinum af inngangi skemmtigarðsins Tusenfryd þar sem langflestir sktrákarnir vörðu laugardeginum. Einnig myndir frá síðustu kvöldmáltíðinni á Borgarakóngi, ferðalagi í sporvagni og af sofandi aðstoðarþjálfara með nátthúfu. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

vikingarnir.blog.is

Frjálst og óháð blogg
Frjálst og óháð blogg
Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband