9.8.2010 | 10:31
Sætt og súrt stefnumót við Fjölni
Víkingar lögðu Fjölni í A-leiknum í Víkinni í kvöld, 2-1, en þurftu að játa sig sigraða í B-leiknum, 0-3. Staða efstu A-liða í riðlinum er óbreytt eftir leiki kvöldsins því höfuðkeppinautur Víkings um toppsætið, Breiðablik, sigraði Fylki 2-4 eftir að hafa lent undir 2-0.
Víkingar höfðu undirtökin í A-leiknum frá upphafi til enda og áttu skilið að skora fleiri mörk frekar en Fjölnir að minnka muninn. Úrslitin voru því í raun nokkur gestrisni af hálfu Víkings. Patrik skoraði í fyrri hálfleik eftir sendingu frá Jóni Rey og seinna markið kom þegar vel var liðið á síðari hálfleikinn. Davíð Örn fékk fína sendingu frá Patrik og vippaði laglega yfir markvörðinn.
Sigur Fjölnis í B-leiknum var í samræmi við gang mála á vellinum, einkum í fyrri hálfleik. Grafarvogsmenn voru einfaldlega sterkari þegar á heildina er litið en sanngirni er afstætt hugtak í þessum efnum sem öðrum þegar horft er til þess að rangstöðufnykur var af marki nr. 2 og mark nr. 3 átti aldrei að fá að standa vegna æpandi rangstöðu. Aðstoðardómara var því eðlilega sárt saknað í B-leiknum, ekki síst af því dómarinn hafði afar takmarkaða yfirferð á vellinum og hélt sig í hringnum á miðjunni og í þægilegri grennd við hann.
Víkingar fengu færi í leiknum en uppskáru ekki það sem máli skiptir úr þeim. Þeir komust í fjórgang í stöðuna einn á móti markmanni en náðu ekki að setj'ann.
A-liðið á nú fjóra leiki eftir á Íslandsmótinu en B-liðið tvo. Ástæðan er sú að Fram er með A-lið en ekki B-lið og báðir A-liðsins leikir Víkings og Fram eru eftir. Sá fyrri er á sunnudaginn kemur, 15. ágbúst, kl. 16:00 í Víkinni. Síðari leikur A-liðsins við Fram er 30. ágúst.
A- og B-liðið mæta FH í Kaplakrika í næstu viku, 18. ágúst, og Breiðabliki í Víkinni 25. ágúst. Viðureign A-liða Víkinga og Blika verður að öllum líkindum stóra stóra uppgjörið um sigur í riðlinum.
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar