Leita í fréttum mbl.is

Á fimmtugu dýpi í Cartagena

Strákunum okkar var kastað í djúpu laugina í dag (laugardag) þegar þeir tóku þátt í alþjóðlegu fótboltamóti í Cartagena, um 300 þúsund íbúa borg skammt frá La Manga-hreppi. Við fórum þangað í rútu og vorum ríflega hálftíma á leiðinni. Þarna voru nokkur heimalið frá Cartagena en einnig Charlton frá Bretlandi, Benfica frá Portúgal og svo Víkingur. Staðarblaðið sló því upp í fyrirsögn um mótið að þessi þrjú evrópsku úrvalslið sæktu Cartagena heim! Gaman var líka að sjá veggblöð út um allt + boli sem starfsmenn mótsins klæddust þar sem Víkingsmerkið blasti við gestum og gangandi.

Okkar menn spiluðu eingöngu við Spánverja og töpuðu öllum leikjum en aldrei stórt. B-liðið tapaði 0-1, 0-2 og 0-1. A-liðið tapaði 0-3 og 0-1.  Þjálfarinn góðkunni, Bjössi Bjartmars, sagði í rútunni á heimleiðinni að hann hefði tjáð Viggó fyrir mót að allir leikir myndu trúlega tapast en að barátta Víkinga hefði verið allrar aðdáunar verð. Þeir gáfust nefnilega aldrei upp og stríddu andstæðíngum sínum verulega á köflum. Og svo vitnað sé í Bjartmars enn og aftur þá benti hann á að B-liðið okkar hefði spilað við A-lið og A-liðið við eldri stráka (úr árgöngum 1993 og '92).

Það var því brekka fyrir Víkinga í dag en frammistaða þeirra  lofsverð og það er sagt fullri meiningu en ekki kurteisi! Til dæmis var seinni leikur A-liðsins við Spánverja spennandi og tvísýnn, mikill hasar og barátta. Víkingar vörðust afar vel og hefðu með heppni og örlítið meiri frekju geta náð jafntefli. Það sló Víkingana hins vegar talsvert út af laginu að í fyrri leiknum lenti Óli Pétur í samstuði og varð að fara af velli, laskaður á læri. Félögum hans var brugðið og þeir fengu á sig mark í kjölfarið. Skömmu síðar skoruðu Spánverjar aftur en boltinn lenti áður í hönd Spánverja og markið hefði því aldrei átt að teljast gilt. Dómarar voru annars mikið fyrir kvennalistafótbolta og flautuðu sumir hverjir í tíma og ótíma við minnstu snertingu manna á vellinum. Þetta flautuspil fór réttilega í taugar Vikinga en Charlton-liðar hinir bresku, sem vildu láta finna dálítið fyrir sér, lentu þá í dómurum sem vernduðu Spanjólana eins og þar færu maddömur á peysufötum á leið í síðdegisteboð.

Mótið var spilað við aðstæður sem var frekar andsnúið okkar mönnum en hitt. Völlurinn var lagður einhvers konar leirblandaðri möl og hitinn hafði sitt að segja. B-liðið spilaði auk þess 9 manna bolta, sem var því auðvitað býsna framandi. En svo lærir sem lifir og mótlætið í dag mun í staðinn bitna harkalega á andstæðingum Víkings í næstu leikjum í Íslandsmótinu.....

Heimaliðið Nueva Cartagena sá um mótshaldið og foreldrar úr því seldu mat, drykk og minjagripi til fjárföflunar, eins og við eigum að venjast að heiman. Hins vegar var veitingaramminn öllu víðari en gengur og gerist heima. Þarna voru til dæmis steiktar sardínur beint upp úr sjó og tálgaðar skinkutjásur af svínabógum ofan í gesti. Drykkir voru í öllum regnbogans litum og afgreiðslufólk drakk gjarnan úr tveimur baukum fyrir hvern einn sem það seldi. Þessir viðskiptahættir sköpuðu vissulega ákveðna stemningu á svæðinu og íslensk vitni voru að því er gengið undir einum afgreiðslumanni af vettvangi undir kvöld. Sá hafði selt svo marga ölbauka í dag að sölulaunin sem hann skammtaði sér fyrir vel unnin störf yfirbuguðu hann að lokum.

Það var síðan til að kóróna samkomuna að flugeldum var skotið ótt og títt á loft í hverfinu þegar A-liðið spilaði seinni leikinn og viðureignin átti sér stað í dramatísku sprengjuregni í rökkrinu. Vel að merkja, tímaramminn sprakk gjörsamlega, enda Spanjólar ekki þekktir fyrir að hafa áhyggjur af tímasetningum og stundvísi. Atli og Systa gætu gert það gott á Spáni að kenna mótshöldurum skipulagningu fótboltamóta a la KFC-mótið góða ár eftir ár þar sem tímasetningar leikja standa svo vel að hægt er að stilla klukkur eftir þeim.

Þegar öllu er á botninn hvolft er útilokað að finna íslenska hliðstæðu við þessa samkomu. Hún var í það minnsta allt í senn Reycup, Fiskidagurinn mikli á Dalvík og ball með Trúbroti í Húnaveri um verslunarmannahelgina 1971. Á síðastnefnda skrallinu þurftu allir stuðning til að komast leiðar sinnar eins og baukamaðurinn í daga: gestir, hljómsveitin og dyraverðirnir.

Drengirnir voru þreyttir bæði og slæptir í kvöld. Þeir sofnuðu fljótt og verða að vakna hressir í fyrramálið því þá blasir við þeim erfitt æfingaprógramm. Ekkert er gefið eftir.

  • Hér til hliðar eru myndir frá Cartagena í sérhólfi og í hinu hólfinu eru myndir frá slökunarstund Víkingshópsins alls við helstu sundlaug hverfisins okkar og La Manga-hrepps yfirleitt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

vikingarnir.blog.is

Frjálst og óháð blogg
Frjálst og óháð blogg
Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband