12.6.2008 | 10:40
Sólarsamba, falskar tennur og Playboy-kanínur
Fyrri æfingu dagsins er lokið í La Manga-hreppi í steikjandi sólskini og hita sem hlýtur að nálgast 30 gráður þegar best lætur miðdegis. Boðorð dagsins er að drekka nóg af vatni og bera á sig varnarkrem. Enginn hefur brennt á sér húðina til skaða til þessa, að því best er vitað, en nærri liggur slysi hjá þeim sem vilja flýta sem mest fyrir því að verða brúnleitir á kroppinn. Það lagar nú heldur ekki tempóið í uppeldinu ef hinir fullorðnu eru ekki þær fyrirmyndir í lífinu sem æskilegt er. Viggó þjálfari ber til dæmis á sig höfrungagljáa, sem er vökvi til að maka á sjávarspendýr í dýragörðum á Flórída og víðar til að gera þau ásjálegri og kynþokkafyllri. Auðvitað vilja Víkingsstrákarnir verða gljáandi spendýr eins og yfirþjálfarinn en við sem höfum vitið á vaði fyrir neðan okkur segjum þeim að bíða til fullorðinsára eftir gljáanum. Nóg er nú samt.
Hópurinn fór út í óvissuna í gær og endaði á baðströnd eftir klukkustundarakstur eða svo. Þar vorum við allan daginn í góðu yfirlæti og síðari hluti dvalarinnar fór í róa á húðkeipum og hamast á einhverjum öðrum tólum sem dregnin voru út og suður um hafflötinn á einhverjum sjávarvélfákum. Þetta var mikið sport og drengirnir brostu út að eyrum af sælu og unaði. Þegar hópur í heilli rútu og úr ótal fylgdarbílum til viðbótar kemur á einu bretti á baðströnd rjúka sölumenn upp til handa og fóta og leggjast á gestina með eggjandi tilboðum um sólgleraugu, armbandsúr, geisladiska, nudd og tattóeringar. Þetta síðarnefnda féll í góðan jarðveg Víkinga sem fyrir fáeinar evrur fengu teiknuð á sig kínversk tákn, persónur og leikendur úr Simpson-fjölskyldunni, dreka eða dýr af ýmsu tagi sitthvað fleira. Patrik og Helgi Hannes tilheyrðu hópi dýravina í flokki þeirra sem fengu á sig tattó og völdu kanínu á kroppinn sinn. Nákvæmlega þessi kanínutegund er sú hin sama sem kennd er við alþjóðlega náttúruvísindaritið Playboy. Drengirnir tveir vekja því umtalsverða athygli meðal innfæddra þá þeir rölta um á sundlaugarbörmum eða eftir gangstígum hér í hreppnum, skartandi kanínuhausunum sínum. Aðstandur ættu að spara sér áfall við heimkomu hópsins eftir helgi því táknin dofna og hverfa á tveimur til þremur vikum en vel má samt vera að sterkara litarefni sé notað í kanínurnar. Í það minnsta eru góðar horfur á því.
Víkingarnir unnu sér annars inn prik meðal gesta á ströndinni í gær þegar þeir skiptu liði til að leita að fölskum tönnum sem einn dáðadrengur á svæðinu missti út úr sér í flæðarmálinu. Þrándur stjórnaði leit á sjó en Hjaltested á landi en leitin bar því miður engan árangur. Talsverður öldugangur var og rót á sandi á hafsbotninum. Leitarmenn reyndu að reikna út setflutninga við þessar aðstæður til að áætla hvert og hve hratt fölsku tennurnar færðust úr stað en ekkert dugði. Mál manna var samt að einkum Þrándur hefði borið sig afar fagmannlega að enda er hann frá Höfn í Hornafirði og þar um slóðir eru víst talsvert um falska góma og nokkuð algengt að menn týni út úr sér. Drengir eru því aldir upp við það á Höfn að leita að gómum, yfirleitt með góðum árangri. Sú verðmæta lífsreynsla kom hins vegar fyrir lítið í þessu ógnarbrimi við strendur Spánar. Það er illskárra að týna svona löguðu á Höfn.
Á morgun fáum við heimsókn tveggja liða hér af svæðinu sem spila síðdegis við Víkingana. Við gerum ráð fyrir að þá mætum við miklum lurkum því Spanjólar telja sig eiga harma að hefna frá því á þriðjudaginn. Æfingarnar eru annars alveg magnaðar og víst er að strákunum fer fram greinilega fram í fótboltanum, dag frá degi. Þjálfararnir þrautskipuleggja æfingarnar og strákarnir leggja hart að sér svo af þeim bogar svitinn. Þeir hafa ekki fengið aðra eins yfirhalningu frá því þeir fóru að sparka í bolta, smáguttar forðum daga. Við eigum eftir að sjá afrakstur þessa í leikjum Íslandsmótsins í sumar, það er alveg óhjákvæmilegt!
- Nýjar myndir í albúminu (Mannlíf....)!
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar