26.7.2008 | 16:44
Víkingur 1 mætir FIF/1909 á nýjan leik - í baráttu um bronsið!
Víkingur 1 játaði sig sigraðan í undanúrslitaleik við Hansa Rostock frá Þýskalandi í dag og spilar við FIF/1909 frá Óðinsvéum um þriðja sætið kl. 12:00 á morgun, sunnudag, á vellinum við Suðurlandsbraut. Víkingar töpuðu fyrir þessu danska liði í gær 0-3 og eiga því harma að hefna. FIF/1909 tapaði í dag 1-4 fyrir löndum sínum frá Herfölge í hinum undanúrslitaleik A-liðanna. Hansa Rostock og Herfölge keppa því til úrslita á morgun en Víkingur og FIF/1909 um bronsið.
Víkingur 2 tapaði fyrir Val í átta liða úrslitum í morgun. Víkingur 3 vann hins vegar í tvígang í dag. Úrslit laugardagsleikjanna urðu því sem hér segir:
- Víkingur 1 - ÍBV: 2-0
- Víkingur 1 - Hansa Rostock: 3-4.
- Víkingur 2 - Valur: 1-2.
- Víkingur 3 - Breiðablik: 6-1.
- Víkingur 3 - ÍA: 3-1.
Óhætt er að segja að Valsmenn hafi sett Víking 2 í kalda morgunsturtu því þeir skoruðu í tvígang í fyrri hálfleik án þess að okkar menn svöruðu fyrir sig. Markaskorarinn í seinna skiptið var reyndar kolrangstæður en dómarinn virtist ekki hafa rangstöðureglur í fótbolta á hreinu og lét markið standa. Haukur Jóns skoraði eina markið í seinni hálfleik og þvílíkt mark! Hann lét vaða utan vítateigs og skotið var svo fast að boltinn þandi út netmöskvana og sat þar sekúndubrot áður en hann féll til jarðar. Það verður að segjast með sanni að betra liðið tapaði í þetta sinn en það er víst ekki nóg að stjórna leiknum, mörkin telja og ekkert annað!
Víkingur 3 hefur heldur betur komist á sigurbraut á ReyCup eftir slaka byrjunarleiki. Í dag byrjaði liðið á því að taka Blika í nefið og lögðu síðan Skagamenn sannfærandi. Markaskorarar í fyrri leiknum voru Andri (2 mörk), Hörður, Pétur, Jökull Starri og Ási. Andri og Ási sáu svo um að skjóta Skagamenn í kaf með tveimur mörkum Andra og einu frá Ása. Flottur dagur hjá strákunum.
Víkingur 1 komst í fjögurra liða úrslitin með því að sigra Eyjamenn í morgun. Liðið þurfti að hafa talsvert fyrir sigrinum og var þar aðallega að glíma við sjálft sig frekar en andstæðinginn. Það var morgundoði yfir drengjunum lengst af í leiknum en þeir skiluðu því sem máli skiptir, sigri. Robbi skoraði í fyrri hálfleik og Óli Ægir í þeim síðari.
Víkingur 1 er eina íslenska A-liðið í fjögurra liða úrslitum, ásamt tveimur dönskum liðum og einu þýsku. Hansa Rostock hafði farið í gegnum mótið með stórum og auðveldum sigrum í hverjum leik en þeir þurftu verulega að hafa fyrir hlutunum í viðureigninni við Víking og reyndar höfðu okkar menn undirtökin drjúgar stundir í leiknum. Þjóðverjarnir byrjuðu með látum og skoruðu strax með þrumuskoti af löngu færi. Aron Elís jafnaði nokkru síðar og Davíð kom Víkingum síðan yfir. Þjóðverjar náðu að jafna þegar langt var liðið á hálfleikinn en Víkingur fékk dæma á sig vítaspyrnu á lokasekúndunum og Óli Ægir kom liðinu í 3-2. Eftir hlé vörðust Vikingar vel framan af og gáfu ekkert eftir. Þjóðverjar gáfu hins vegar ekkert eftir og uppskáru í samræmi við það. Þeir jöfnuðu og skoruðu svo sigurmarkið beint úr aukaspyrnu við vítateigslínuna í blálokin. Aukaspyrnudómurinn var í meira lagi vafasamur og Þjóðverjarnir hljóta að senda dómaranum í það minnsta jólakort fyrir það góðverk í sinn garð.
Leikirnir við Dani í gær og Þjóðverja í dag eru auðvitað góð búbót í reynslusarp Víkinga en sýna það jafnframt að liðið getur fyllilega staðið í góðum, erlendum liðum úr þessum aldursflokki og meira en það. Þjóðverjarnir sluppu með skrekkinn í dag og Danir hlakka ekki til að mæta Víkingum í annað sinn á morgun.
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar