27.7.2008 | 17:53
Nú lágu Danir í því
Víkingur 1 hirti bronsverðlaunin í A-liðum 4. flokks á ReyCup eftir að sigrað danska liðið Herfölge sannfærandi með tveimur mörkum gegn einu. Víkingur varð þar með efst íslenskra A-liða á mótinu í 4. flokki og kom í veg fyrir að útlend lið einokuðu verðlaunapallinn við úrslitaathöfnina. Hansa Rostock frá Þýskalandi niðurlægði FIF/1909 frá Danmörku 7-0 í úrslitaleiknum, þ.e. sama lið og marði sigur gegn Víkingum í undanúrslitaleik í gær, 4-3!
Víkingur 2 sigraði Aftureldingu léttilega í leik um 5. sæti B-liða. Frammistaða liðsins í heildina bendir ekki í neina aðra átt en að liðið hefði átt að vera í úrslitakeppninni. Tapið fyrir Val var í áttaliðaútslitum var afdrifaríkt slys.
Víkingur 3 tapaði fyrir KA í lokaleik sínum á mótinu.
Víkingsliðin þrjú spiluðu alls 24 leiki á ReyCup og uppskáru sigur í 19 leikjum. Það er auðvitað magnað vinningshlutfall og rós í hnappagöt stráknna og Viggós þjálfara.
Úrslit sunnudagsleikjanna á ReyCup:
- Víkingur 1 - Herfölge: 2-1.
- Víkingur 2 - Stjarnan: 5-0.
- Víkingur 2 - Afturelding: 5-2.
- Víkingur 3 - KA: 0-2.
Víkingur 2 átti snilldarrispur í báðum leikjum dagsins og verður að segjast enn einu sinni að grátlegt er að besta B-liðið á mótinu skyldi ekki spila um verðlaunasæti. Víkingar tóku Stjörnuna í bakaríið í morgun með fimm mörkum gegn engu. Sigurður Davíð skoraði tvisvar og Röggi, Haukur og Ólafur Andri settu eitt mark hver. Eftir hádegið var röðin komin að Aftureldingu og Mosfellingar voru sendir heim líka stigalausir. Ólafur Andri skoraði í tvígang og Röggi, Sigurður Davíð og Egill skoruðu hver sitt markið. Mosfellingar skoruðu tvisvar í síðari hálfleik en voru aldrei nálægt því að ná neinum tökum á leiknum. Víkingar réðu þar ferðinni frá upphafi til enda.
Það reyndist vera danska liðið Herfölge sem mætti til leiks við Víking 1 um 3. sæti A-liða en ekki FIF/1909 eins og við sögðum hér á síðunni í gær. Ástæðan var ranglega færð úrslit í leik Herfölge og FIF/1909 á heimasíðu ReyCup (rangfærsla sem enn er ekki búið að leiðrétta þar sólarhring síðar - og í dag bæta mótshaldarar gráu ofan á svart með því að skrá úrslit í leik Herfölge og Víkings 2-1 fyrir Dani!).
Danska liðið er sterkt og vel spilandi en það er Víkingur líka og sigurviljinn var meiri okkar megin í dag. Það var ljóst á upphafsmínútunum að Víkingar ætluðu ekkert að gefa eftir og þjörmuðu rækilega að þeim dönsku. Mark lá í loftinu og frekar tvö en eitt. Aron Elís vippaði glæsilega yfir markvörðinn og skömmu síðar bætti Davíð Örn öðru marki við. Staðan 2-0 í hálfleik. Danir náðu að minnka muninn með því að skalla í netið úr hornspyrnu í seinni hálfleik og lögðu allt kapp á að jafna. Víkingar fengu færi til að bæta við en tókst það ekki. Mikill darraðardans var á stundum á vallarhelmingi og framan við mark Víkinga en okkar mönnum tókst að halda aftur af Dönum. Hurð skall samt nærri hælum, til dæmis áttu Danir lúmst skot með jörðu út við stöng en Halldóri tókst að koma puttunum í boltann og beina honum fram hjá svo einungis munaði sentimetrum. Víkingar stóðust þannig frekari áhlaup og uppskáru bronsverðlaunin.
Víkingur var eina liðið sem spilaði við öll þrjú erlendu A-liðin á mótinu , tvö dönsk og eitt þýskt. Uppskeran var einn sigur og tap í tvígang. Það þurfti ekki mikið að gerast til að Víkingar næðu fleiri stigum í þessum ,,landsleikjum" og það sýnir auðvitað styrk liðsins að sigurvegarar mótsins, Hansa Rostock, skyldi mega þakka fyrir að sleppa með þrjú stig frá viðureigninni við Víking í gær.
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar