12.8.2008 | 22:18
Öruggur markasúpusigur í Grindavík
A-liðið sótti þrjú stig til Grindavíkur í dag og þurfti að hafa nokkuð fyrir þeim framan af. Leikið var á aðalkeppnisvelli bæjarins við bestu hugsanlegu aðstæður. Sjálfur völlurinn er skínandi góður og flottur, sólin skein og varla hreyfði vind. Aron Elís skoraði strax í upphafi en Grindvíkingar jöfnuðu skömmu síðar. Agnar Darri bætti við marki og aftur jöfnuðu heimamenn. Patrik gerði sér svo lítið fyrir og skoraði beint úr hornspyrnu frá hægri og Davíð skoraði fjórða markið fyrir hlé. Eftir það var enginn spurning um lyktir leiksins. Agnar Darri skoraði strax í upphafi síðari hálfleiks og síðar raðaði Davíð Örn inn þremur mörkum í röð. Drengurinn sá fékk fjögur færi í leiknum og skoraði úr öllum! Grindvíkingar lagfærðu aðeins stöðuna þegar komið var fram í uppbótartíma og niðurstaðan varð sem sagt 3:8 Víkingi í vil.
Viggó Briem þjálfari var býsna drjúgur með sig og sína eftir leik: ,,Við vorum búnir undir barnings- og baráttuleik frá byrjun. Aðalatriðið var að vera þolinmóðir og halda góðum tökum á leiknum. Við gerðum ráð fyrir að Grindvíkingar myndu gefa eftir ef okkur tækist að ná tveggja marka forskoti og það gekk eftir. Í stöðunni 2:4 var engin spurning um hvernig þetta færi en Víkingar gáfu samt aldrei eftir og spiluðu vel allt til loka."
Mörkin í leiknum:
- 3. mínúta: Aron Elís.
- 5. mínúta: Grindvíkingar.
- 10. mínúta: Agnar Darri.
- 17. mínúta: Grindvíkingar.
- 20. mínúta: Patrik beint úr hornspyrnu.
- 32. mínúta: Davíð Örn.
- 37. mínúta: Agnar Darri.
- 48. mínúta: Davíð Örn.
- 58. mínúta: Davíð Örn.
- 61. mínúta: Davíð Örn.
- 72. mínúta: Grindvíkingar.
Á föstudaginn kemur verða bæði A- og B-lið í eldlínunni í Mosfellsbænum. Viggó þjálfari skefur ekkert utan af því að Víkingar heimsæki granna sína ekki nema í einum tilgangi: ,,Bæði lið verða að sigra Aftureldingu til að eiga möguleika á að komast í úrslitakeppni Íslandsmótsins. Strákarnir gera sér fulla grein fyrir því og mæta með því hugarfari til leikjanna."
Davíð Örn ógnar fuglum himinsins með kollspyrnu. Hann átti skínandi leik í Grindavík og skoraði fernu; nýtti færin sín 100%!
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar