23.8.2008 | 17:45
Komnir í úrslitakeppni Íslandsmótsins
A-liðið burstaði Víði/Reyni í dag með níu mörkum gegn engu og tryggði sér þar með annað sæti í riðlinum og rétt til að taka þátt í úrslitarimmu Íslandsmótsins í haust. Leikið var í slagveðursrigningu á Garðsvelli og aðstæður voru í samræmi við það. Engu að síður var það gestunum úr höfuðstaðnum heiður að spila á þessum velli sem á sinn sess í sögu Víkings því einmitt á Garðsvelli tryggðu Víkingar sér Íslandsmeistaratitil í knattspyrnu árið 1991 með 1-2 sigri. Og það var sjálfur Björn Bjartmarz sem kom inn á og skoraði sigurmarkið, verðandi þjálfari Víkingsstrákanna sem voru þarna á ferð í dag.
Leikurinn fór allur fram á vallarhelmingi heimamanna. Markverðir Víkings snertu boltann einu sinni í fyrri hálfleik og tvisvar í þeim síðari, í öll skiptin eftir sendingar frá samherjum. Heimamenn buðu ekki upp á aðra dómgæslu en þá að þjálfari andstæðinga okkar sæi um þá hlið mála og sá flautaði leikinn af þremur mínútum áður en leiktíminn átti raunverulega að renna út. Sennilega hefur hann ekki viljað senda lærisveina sína heim með tveggja stafa markatölu á bakinu. Hann bætir svo um betur, blessaður karlinn, með því að snuða Víking um eitt mark í leikskýrslunni til KSÍ. Þar kemur fram að mörkin hafi einungis verið átta en þau voru sannarlega níu, skráð samviskusamlega niður í skýli Víkings og tímasetningar sömuleiðis.
Markaskorunin í dag dreifðist á sjö leikmenn. Agnar Darri og Davíð Örn skoruðu tvö hvor, öll í fyrri hálfleik. Í síðari hálfleik skoruðu Óli Pétur, Sverrir, Arnar Sölvi, Robbi og Villi hver sitt markið og sum hver býsna lagleg, ekki síst neglan frá Arnari Sölva sem hann kom réttu megin við fjærstöng úr þröngu færi nálægt endamörkum.
Lokaverkefni A-liðsins í riðlinum er heimaleikur við Hauka á miðvikudaginn kemur, 27. ágúst kl. 17:00. Hafnfirðingarnir hafa farið glæsilega í gegnum Íslandsmótið og sigrað í öllum tíu leikjum sínum. Þeir ætla sér að sjálfsögðu að klára riðilinn með fullu húsi stiga en Víkingar vilja á hinn bóginn rjúfa skarð í þá gleði í Víkinni á miðvikudaginn.
Víkingar hafa skorað langflest mörk allra liðanna í riðlinum, að Haukum meðtöldum, og hafa hagstæðasta markahlutfallið. Sigur á Haukum í lokaleiknum yrði góður endur á riðlakeppninni og ágætis upphitun fyrir úrslitakeppnina.
FH-ingar hafa ráðið danskennara úr Fossvogi til starfa í vetur. Sá tók fáein sýnisspor í leikhléi í Garði við misjafnar undirtektir. Sumir áhorfendur kusu að lýsa hughrifum sínum með því að rífa í hár sér af skelfingu.
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar