27.8.2008 | 22:45
Hafnarfjarðarbrandari í B-moll
B-liðið bjargaði andliti Víkings í leikjum dagsins við Hauka og það svo um munaði. Hafnfirðingarnir voru einu sæti ofan við Víkingana á stigatöflunni fyrir leik en þeir fóru heim úr Fossvoginum með 11 mörk á bakinu og þurftu að láta Víkingi eftir annað sæti í riðlinum. Nú stendur B-liðinu til boða að fara í úrslitakeppnina í september en eini þröskuldurinn á þeirri leið er Fjölnir 2 og úrslit ráðast á Fjölnisvelli næstkomandi föstudag kl. 17:00. Spili B-liðið þá eitthvað í líkingu við það sem það gerði í dag verður Fjölnir engin fyrirstaða því strákarnir fóru hreint á kostum í dag og augljóst að Hafnfirðingarnir voru engan veginn búnir undir að lenda í slíkri hakkavél í Víkinni. Fyrstu mínúturnar voru upphitun fyrir það sem koma skyldi: tvö dauðafæri Víkings sem fóru forgörðum og skot í stöng. Svo byrjaði ballið með því að Haukur Jóns þrumaði á Haukamarkið af löngu færi, markvörðurinn varði en missti blautan, sleipan boltann yfir sig og í netið. Svo röðuðu Víkingarnir inn mörkum á færibandi og í leikhléi var staðan 6-0. Eftir hlé bættu þeir fimm mörkum í safnið og Haukarnir voru þeirri stundu fegnastir þegar dómarinn blés til merkis um að heimsókninni í Fossvog væri lokið.
Ólafur Andri, Röggi og Viktor skoruðu sína þrennuna hver, Haukur Jóns setti sem fyrr segir eitt og Lalli eitt. Og nú er ekkert sem heitir: Víkingur B SKAL í úrslitakeppnina með sigri á Fjölni 2 á föstudaginn!
A-lið Víkings tryggði sig inn í úrslitakeppnina í Garðinum síðastliðinn laugardag og hafði því ekki að öðru að keppa en heiðrinum og því að koma í veg fyrir að Haukar færu í gegnum riðilinn með fullt hús stiga. En Hafnfirðingarnir sýndu það að þeir eru vel að toppsæti riðilsins komnir, öflugir og vel spilandi. Víkingar voru reyndar afar rausnarlegir við gestina í fyrri hálfleik og auðvitað þiggja menn úr öðrum héruðum ódýr mörk þegar þau bjóðast. Staðan var 0-2 í hálfleik en í síðari hluta síðari hálfleiks fóru Víkingar loks að þjarma að gestunum. Aron Elís náði þá að skora laglegt mark, stöngin inn, en lengra náðu þeir ekki þrátt fyrir mikla pressu á Haukamarkið á síðustu mínútunum. Víkingar höfðu áður skorað í tvígang en hvorugt markið fékk náð fyrir augum dómarans vegna rangstöðu. Þá bjargaði Eyþór á línu í síðari hálfleik. Leiknum lyktaði sum sé með einu marki gegn tveimur og verður að segjast að Hafnfirðingar unnu fyrir stigunum sínum. A-lið Víkings horfir hins vegar fram á veginn og á í vændum erfiða leiki í úrslitum Íslandsmótsins í september. B-liðið verður vonandi í sömu stöðu eftir föstudagsleikinn við Fjölni 2. Áfram Víkingur!
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar