25.10.2008 | 19:06
Þrótt skorti þrótt gegn Víkingum
Víkingar fögnuðu sigri í báðum leikjum dagsins við Þrótt í haustmóti 3. flokks í Egilshöll. A-liðið sigraði 2-1 eftir að hafa verið undir 0-1 hálfleik. Óli Pétur afgreiddi Þróttara með tveimur mörkum á síðustu tíu mínútum síðari hálfleiks.
B-liðið lenti líka undir í upphafi síns leiks og var reyndar svo rausnarlegt að skora í eigið mark, alveg út við stöng og óverjandi úr þvögu í markteigi Víkings. Sjálfmarkið setti Víkinga nokkuð út af laginu fyrst í stað en smám saman náðu þeir takti og fóru svo í gang fyrir alvöru þegar Ólafur Andri náði að jafna. Þá kom Viktorsþáttur leiksins. Drengur skoraði í þrígang fyrir leikhlé og staðan orðin 4-1. Þróttur var sleginn út af laginu og í síðari hálfleik var aðeins eitt lið á vellinum, prýtt rauðum og svörtum röndum. Hrafnkell, Stefán, Villi og Haukur Jóns skoruðu hver sitt markið og Þróttarar gátu lítið annað gert en að óska þess að dómarinn færi að flauta ósköpin af sem fyrst. Víkingar óðu í færum og hefðu hæglega getað skorað 5-7 mörk í viðbót, svo miklir voru yfirburðirnir. Og mörkin voru mörg hver af betri gerðinni og mark Hrafnkels reyndar sérlega glæsilegt. Það hefði örugglega verið sýnt aftur og aftur í fréttum Sky ef hann hefði skorað svona í Bretlandi. Hann var kominn upp undir endamörk vinstra megin og lét boltann vaða í boga yfir markvörðinn í hliðarnetið. Klassaafgreiðsla.
Með fullri virðingu fyrir öllu og öllum skal nefndur hér að lokum til sögunnar sá góðkunni vinnuhestur Jón Reyr. Hann spilaði síðari hálfleikinn með A-liðinu í dag og meirihluta B-leiksins þar á eftir. Ekki nóg með það því þegar B-leikurinn var að baki var brunað með hann í Skautahöllina til að keppa í kvöld í íshokkí! Ef að líkum lætur hefur okkar maður ekki verið í lágdrifinu þar á ísnum frekar en á gervigrasi Egilshallar.....
- B-liðið hefur nú landað sigri í tveimur fyrstu leikjum haustmótsins og er á vaðandi siglingu. A-liðið steinlá fyrir Fylki í fyrsta leiknum en náði sem sagt öllum stigum í hús í dag.
- Næsti leikur í mótinu er viðureign B2-liða KR og Víkings í Frostaskjóli fimmtudaginn 6. nóvember kl. 19:30 (sá leikur var upphaflega á dagskrá 12. október en var frestað).
- A- og B-liðin spila næst gegn KR í Egilshöll laugardaginn 8. nóvember kl. 10:30 (A-leikur) og kl. 12:00 (B-leikur). Þriðji og síðasti leikur haustmótsins er þar á eftir, kl. 13:30 í Egilshöll: Víkingur B2-ÍR.
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar