8.11.2008 | 15:09
Sætt og súrt gegn KR
Víkingar unnu KR í lokaleik A-liða í haustmóti KSÍ í Egilshöll í dag en þurftu hins vegar að játa sig sigraða í viðureign við KR í B-leiknum.
Víkingar réðu ferðinni í fyrri hálfleik A-liðana og skoruðu í tvígang. Patrik smurði boltanum í stöng og inn og átti fyrirgjöf á Óla Pétur sem kláraði færið með marki. Tvö núll í hálfleik og Víkingar í góðum málum en KR-ingar mættu til leiks eftir hlé ákveðnir í að klóra í bakkann. Þeir skoruðu fljótlega og jöfnuðu skömmu síðar. KR-ingar voru líklegri til að komast yfir og útlit var fyrir jafntefli sem Víkingar hefðu reyndar mátt þakka fyrir miðað við gang mála í síðari hálfleik. Þá klúðraði vörn KR því að hreinsa frá markinu, boltinn barst til Óla Péturs rétt utan við vítateigslínu og hann vippaði laglega yfir markvörðinn. KR klúðraði síðan dauðafæri í blálokin og Víkingar hrósuðu sigri.
Víkingur átti eina markið í fyrri hálfleik B-liðanna. Viktor skoraði með þrumuskoti utan vítateigs og markvörður KR átti enga möguleika. KR-ingar áttu líka hættulegar sóknir og Halldór þurfti í tvígang að taka á honum stóra sínum. Í annað skiptið varði hann hörkuskot af stuttu færi og Víkingar flutu því inn í leikhléið með stöðuna eitt núll. Í síðari hálfleik hresstust KR-ingar verulega og jöfnuðu. Þjálfarar Víkings hresstu upp á sóknarleikinn með innáskiptingum sem skiluðu greinilegum árangri. Víkingar sóttu án afláts en tókst samt ekki að skora. KR-ingar uppskáru hins vegar mark, gegn gangi leiksins, og fóru með sigur af hólmi.
KR-ingarnir viðhöfðu munnsöfnuð í leikjunum báðum sem var dómurunum ekki að skapi. Þeir fengu á sig þrjú gul spjöld fyrir kjafthátt í B-leiknum og eitt í A-leiknum. Í þeim efnum voru þeir því ótvíræðir sigurvegarar dagsins.
A- og B-lið Víkings höfðu sigur í tveimur leikjum í haustmótinu en töpuðu í einum. A-liðið tapaði fyrir Fylki en vann Þrótt og KR. B-liðið vann Fylki og Þrótt en tapaði fyrir KR.
B2-lið Víkings og ÍR áttust við í haustmótinu í dag að loknum A- og B-leikjunum fyrrnefndu. Skemmst er frá að segja að ÍR-ingar unnu 4-2 eftir að hafa haft 2-0 forystu í hleikhléi. Kolbeinn og Fjölnir skoruðu Víkingsmörkin í síðari hálfleik. Munurinn á liðunum var samt ekki sá sem markatölurnar gefa til kynna. Myndirnar hér að neðan voru teknar af spekingslegum Víkingum á bekknum þegar leikurinn við ÍR stóð yfir.
B2-lið Víkings fékk enn verri skell í Frostaskjóli á fimmtudaginn var þegar það tapaði fyrir KR 7-2 í haustmótsleik.
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar