17.4.2009 | 23:24
Einars dagur Sigurðssonar
Einar Sig. kom við sögu í þremur Víkingsmörkum af fjórum í leikjum kvöldsins við Fjölni á gervigrasinu við Egilshöll á Reykjavíkurmótinu. Hann átti því drjúgan hlut í stigunum sem A- og B-liðið höfðu með sér heim í Fossvoginn.
Einar kom inn á í síðari hálfleik A-liðanna og skallaði í netið í fyrstu snertingu við tuðruna. Nokkru síðar náði hann boltanum út við endamörk og sendi inn í teiginn þar sem Viktor Jóns yngri kláraði dæmið. Þar með voru mörkin upptalin; úrslitin 0-2 fyrir Víking og það fyllilega verðskuldað.
Í B-leiknum náðu Fjölnismenn að skora strax á 3. mínútu og Víkingar þurftu að bíða fram á 28. mínútu eftir jöfnunarmarkinu þegar Davíð Örn vippaði laglega yfir markvörðinn. Þjálfari Fjölnis sendi dómara tóninn vegna meintrar rangstöðu og var enn að ströggla í því máli að leik loknum en hafði að sjálfsögðu ekkert upp úr því krafsi.
Staðan sum sé 1-1 í leikhléi. Á 12. mínútu síðari hálfleiks komst Fjölnir yfir þvert gegn gangi leiksins. Víkingar höfðu haft undirtökin á vellinum fram að því í hálfleiknum og létu markið slá sig býsna hressilega út af laginu lengi vel. Það var svo Röggi sem jafnaði metin með því að skora með föstu og flottu skoti upp úr aukaspyrnu sem títtnefndur Einar Sig. tók með glæsibrag á 28. mínútu. Jafntefli varð því niðurstaðan í uppgjöfinu við Fjölni.
Það verður samt að segjast að Víkingar fóru ágætlega sáttir með eitt stig af vettvangi úr því sem komið var. Víkingar voru betur spilandi en Fjölnir en vantaði aftur og aftur þennan umtalaða endahnút til að skora. Fjölnismenn áttu hins vegar tvö dauðafæri í fyrri hálfleik og þá varði Halldór. Í síðara skiptið náði hann að blaka boltanum yfir slána með blágómunum og munaði því að hann hafði ekki klippt neglur í nokkra daga. Annars hefði boltinn lekið inn. Í seinni hálfleik komst Fjölnismaður einn inn fyrir Víkingsvörnina en skaut himinhátt yfir á nánast yfirnáttúrulegan hátt.
Til hamingju með stigin fjögur Víkingar!
- A-liðin: staðan í Reykjavíkurmótinu
- B-liðin: staðan í Reykjavíkurmótinu
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar