Leita í fréttum mbl.is

B-liðið með titil í sjónmáli eftir sigur dagsins

A- og B-liðin söfnuðu stigum í sarpinn í viðureignum sínum við Fjölni á Reykjavíkurmótinu í dag. B2-liðið var hins vegar að játa sig sigrað í leik við KR.


A-lið Víkings og Fjölnis skildu jöfn 2-2 eftir að Fjölnir hafði verið yfir í hálfleik, 2-1. Fjölnismenn töpuðu þar með dýrmætum stigum í baráttu við Fram um meistaratitilinn og voru svekktir að leikslokum. Víkingar komust yfir í leiknum með marki Ólafs Ægis upp úr aukaspyrnu. Fjölnir jafnaði þegar vel var liðið á hálfleikinn og komst yfir fyrir hlé þegar Víkingar fengu dæmda á sig vítaspyrnu sem skilaði andstæðingnum marki. Minnstu munaði að Fjölnir bætti þriðja markinu við í blálok hálfleiksins þegar einn gulklæddur komst í gegnum Víkingsvörnina en skaut fram hjá.

Óli Pétur náði síðan að jafna með laglegum snúningi framan við Fjölnismarkið í síðari hálfleik og þar með voru úrslitin ráðin. Fjölnismenn reyndu án afláts að knýja fram sigur og oft skall hurð nærri hælum við Víkingsmarkið en jafnteflið var staðreynd. Víkingar fögnuðu vel og máttu vel una við jafnteflið eftir gangi leiksins.


Í B-leiknum komust Víkingar yfir strax á 5. mínútu þegar boltinn barst til Einars Sig út við vítateigshornið vinstra megin og drengur þrumaði viðstöðulaust í fjærhornið svo söng í neti Fjölnismarksins. Hreint gull af marki. Víkingar áttu mun meira í fyrri hálfleiknum og ekki útlit fyrir annað en það yrði tiltölulega þægilegt fyrir þá að landa sigrinum.

Fjölnismenn hertu sig hins vegar upp í seinni hálfleik og Víkingar slökuðu að sama skapi óþægilega mikið á. Lengi framan af seinni hálfleiknum taldist það hreinlega til tíðinda að boltinn bærist yfir á vallarhelming Fjölnis, atgangurinn var allur Víkingsmegin á vellinum. Fjölnir uppskar samt ekki  mark og þjálfari þeirra fór á límingunum á hliðarlínunni. Það var hins vegar Viktor yngri sem bætti við öðru marki fyrir Víking á 69. mínútu leiksins eftir góðan undirbúning Einars Sig. Viktor pressaði markvörð Fjölnis í úthlaupi, komst fram hjá honum og renndi boltanum í mannlaust markið.  Hann hafði fyrr í hálfleiknum komist einn inn fyrir en markvörðurinn náði þá að ota fingurgómunum í boltann og beina honum rétt út fyrir stöng. Í seinna skiptið hafði Viktor betur gegn markmanninum og úrslitin urðu 2-0. 

Sanngjarn sigur Víkings en Fjölnir hefði hæglega geta sett skarð í gleðina. Þannig var dæmd vítaspyrna á Víking á 57. mínútu en sá gulklæddi skaut yfir markið. Á 79. mínútu átti Fjölnir tvö stangarskot í sömu sókninni en inn vildi ekki tuðran. Þá voru hornspyrnur sem Fjölnir fékk í seinni hálfleik álíka margar og hólarnir í Vatnsdal og heimadómari Fjölnis skammtaði sínum mönnum vel af vafasömum aukaspyrnum en hvorki gekk né rak hjá þeim gulu.

Eftir Fjölnisleikinn er B-liðið efst í sínum riðli og í þægilegri stöðu á lokaspretti Reykjavíkurmótsins.

B2-lið Víkings og KR áttust svo við í Frostaskjólinu í dag og þar sigruðu heimamenn 5-2 eftir að vera yfir  2-1 í hálfleik. Agnar Darri skoraði mörk Víkinga. Víkingar mættu ofjörlum sínum í Vesturbænum en munurinn á liðunum var samt ekki sá sem markatölur gefa til kynna. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

vikingarnir.blog.is

Frjálst og óháð blogg
Frjálst og óháð blogg
Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband