Leita í fréttum mbl.is

Dramatík í B-moll

Skúrir og skin voru í Reykjaneshöllinni á meðan heimsókn Víkinga stóð yfir í kvöld. Heimamenn gáfu gestunum  ekki færi á sér í leik A-liðanna á Íslandsmótinu en í B-leiknum þurftu heimamenn hins vegar að játa sig sigraða. Víkingar tylltu sér um leið í toppsæti riðils síns.

B-liðin buðu upp á flesta þá dramaþætti sem þarf til að gera fótboltaleik skemmtilegan áhorfs: hraða, spennu, flottar leikrispur, dýr mörk, ódýr mörk og rautt spjald.

A-leikurinn endaði með sex marka sigri Keflvíkinga gegn engu og úrslitin segja það sem segja þarf. Heimamenn voru komnir í 2-0 eftir átta mínútur og í hléi var staðan 4-0, verðskuldað. Í síðari hálfleik bættu Keflvíkingarnir við tveimur mörkum og det var det. Suðurnesjamennirnir voru einfaldlega sterkari og vörn Víkings átti dapran dag, einkum í fyrri hálfleik. 

 Strax varð ljóst í B-leiknum að hann yrði ekki endurtekið efni í sögubókum Keflvíkinga. Víkingar byrjuðu með látum og strax á 4. mínútu skoraði Aron Elís þriðjunginn af þrennunni sinni. Viktor Jóns bætti við öðru marki á 17. mínútu með neglu langt utan vítateigs hægra megin í stöng og inn. Aron Elís kom á ný við sögu á 21. mínútu með aronska bombu sem Keflavíkurmarkvörðurinn réði ekkert við.

Eftir þetta var eins og Víkingarnir teldu sér fært að slappa af en það varð auðvitað einungis til að hleypa Keflavíkurliðinu inn á gafl hjá sér. Heimamenn skoruðu á 24. mínútu en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Aðeins mínútu síðar lá boltinn hins vegar löglega í Víkingsmarkinu og staðan í hálfleik var 1-3.

Víkingar juku muninn á 13. mínútu síðari hálfleiks með hraðri og gullfallegri sókn. Einar Sig byrjaði og skipti yfir á Viktor sem lagði fyrir Aron og Elísinn fullkomnaði þrennuna sína.

Nú fór í hönd nýtt slökunar- og kæruleysistímabil Víkings, sem Keflvíkingar nýttu sér eins og þeir framast gátu og lái þeim hver sem vill. Þeir skoruðu á 23. mínútu og aftur á 25. mínútu. Mörkin tvö töldust ekki einu sinni voru gjafavara, Víkingar borguðu ríflega með þeim báðum.

Allt í einu var staðan orðin 3-4 og Keflvíkingar gerðu fleiri árásir á Víkingsmarkið en höfðu ekki árangur sem erfiði að jafna. Svo kom að því að Viktor tætti sig lausan á 71. mínútu og braust í gegn. Hann var rifinn niður utan teigs, Keflvíkingurinn brotlegi var rekinn út af en Víkingar fengu ekkert út úr aukaspyrnunni. Keflvíkingar misstu greinilega nokkurn mátt um stund við þetta áfall en reyndu að kóra í bakkann manni færri. Það voru hins vegar Víkingar sem gerðu út um leikinn með fínu marki Hlyns þremur mínútum áður en leiktíminn rann á enda.

Þetta var þrælskemmtilegur leikur en trúlega hefur ekki verið alveg eins gaman fyrir Keflvíkinga að horfa á hann og gesti úr prestakalli síra Pálma í höfuðstaðnum.  Víkingar áttu sigurinn virkilega skilið en Keflavíkurliðið var samt sterkt og til alls líklegt. Það segir ákveðna sögu að meirihluti fyrri hálfleiks fór fram á vallarhelmingi Víkings þrátt fyrir að markatalan í leikhléi gæti bent til hins gagnstæða.

Einkennilegt var það nú annars að spila innandyra á Suðurnesjum þá sjaldan er logn og blíða þar um slóðir + glampandi kvöldsól......

Sem sagt: Kvöldið byrjaði illa en endaði vel. Amen og halleljúja. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

vikingarnir.blog.is

Frjálst og óháð blogg
Frjálst og óháð blogg
Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband