19.6.2009 | 00:48
Davíð Örn kafsigldi Fimleikafélagið
C-lið Víkings krækti í kvöld í fyrstu stigin sín á Íslandsmótinu og það sem stæl. Víkingar tóku FH-inga í bakaríið í Víkinni með sjö mörkum gegn einu og hefðu fyrirhafnarlítið getað sett nokkur í viðbót. Heimamenn klúðruðu nefnilega dauðafærum og markvörður FH, langbesti maður Hafnarfjarðarliðsins, varði nokkrum sinnum mjög vel þrátt fyrir að úrslitin bendi til annars.
Víkingarnir mættu ákveðnir til leiks og spiluðu á köflum skínandi góðan fótbolta. Davíð Örn var í feiknastuði og fór á þvílíkum kostum að þegar komið var fram í síðari hálfleik fóru varnarmenn FH að gjóa augum til himins í hvert sinn sem boltinn barst til Dabba í von um að himnafaðirinn tæki til varna með þeim. En eins og Megas veit manna best býr Guð í garðslöngunni, mamma, og er því frekar á bandi Hauka en FH ef hann þá á annað borð spáir eitthvað í fótbolta í Hafnarfirði.
Davíð Örn skoraði sex af alls sjö mörkum Víkings í leiknum! Hann fór hratt yfir, hafði mikla yfirferð og var klókur og sókndjarfur. FH-ingar réðu hreinlega ekkert við hann. Sverrir Hjaltested náði að komast á blað með því að skora fjórða mark Víkings. Þegar staðan var orðin 7-0 slökuðu Víkingar eilítið á og á lokakaflanum skoruðu Hafnfirðingar flott skallamark upp úr hornspyrnu og þar með voru úrslit ráðin.
Það hefur fátt fallið með C-liði Víkings fram að þessu í Íslandsmótinu og það hefur ekki uppskorið á stundum eins og til var sáð. Í kvöld vann liðið vel fyrir sigrinum sýndi vel hvað í því býr.
C-leikurinn var sá eini sem endaði með Víkingssigri í viðureign við FH-inga á Íslandsmótinu. Hafnfirðingar sigruðu Víkinga 0-5 í leik A-liðanna á þriðjudagskvöldið en leik B-liðanna lauk með jafntefli, 1-1. Gestirnir í Víkinni skoruðu á 17. mínútu en það var ekki fyrr en á 59. mínútu að Víkingum tókst að jafna eftir að hafa vaðið í færum í öllum regnbogans litum.
Næstu leikir Íslandsmótsins eru við Fjölni sem er í efsta sæti í öllum riðlum þriðja flokks. Viðureign B-liðanna er þar einna örlagaríkust því Víkingar eru í öðru sæti riðilsins, einu stigi á eftir Fjölni.
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar