Leita í fréttum mbl.is

Glæsilegur A-sigur en B-tap í skrautlegum leik

A-lið Víkings sendi Fylkisdrengi heim stigalausa og svekkta eftir afar sannfærandi og glæsilegan sigur, 3-1, í Víkinni í kvöld. Víkingarnir þökkuðu Árbæingum þannig kærlega fyrir síðast, á Árbæjarvelli í maímánuði í fyrsta leik Íslandsmótsins. Þá sigraði Fylkir 2-0 en mætti hins vegar ofjörlum sínum í kvöld.

Aron Elís kom Víkingum fljótlega yfir og Óli Pétur bætti öðru marki við skömmu síðar. Eftir það slökuðu Víkingar nokkuð á en Árbæingar gengu á lagið og náðu að minnka muninn þegar hálftími var liðinn af leiknum. Heimamenn léku sér þá að eldinum með því að hreinsa ekki frá eigin marki og var refsað fyrir.

Staðan sem sagt 2-1 í hálfleik. Eftir hlé komu heimamenn hressir í bragði til leiks og Óli Pétur skoraði þriðja  Víkingsmarkið þegar hálfleikurinn var einungis fjögurra mínútna gamall. Úrslitin voru þar með ráðin og Víkingar höfðu einfaldlega undirtökin allt til loka. Þeir léku skínandi vel og áttu síðari hálfleikinn óskiptan. Fylkir komst hvorki lönd né strönd.

Fyrri hálfleikur B-liðanna var nær samfellt þóf og fátt gerðist þar markvert sem tekur að nefna annað en þá það að Víkingar voru tvímælalaust sterkari á vellinum þótt ekkert uppskæru þeir markið.

Í síðari hálfleik dró til tíðinda. Víkingar áttu áfram mun meira í leiknum en skoruðu ekki. Það voru hins vegar Fylkismenn sem náðu að skora upp úr hornspyrnu, þvert gegn gangi leiksins.

Þegar komið var fram yfir miðjan hálfleikinn kom að þætti dómarans úr Val. Fylkismenn á hliðarlínunni höfðu nokkru áður sent honum tóninn í tilefni af aukaspyrnu- og rangstöðudómum sem þeim mislíkaði. Kallað var inn á völlinn að Fylkisstrákar ættu að halda haus þrátt fyrir að tólf Víkingar væru á inn á (kallari bætti sum sé dómaranum í Víkingsliðið í tilefni dagsins - reyndar algjörlega óverðskuldað!). Hvort sem þetta hefur nú haft áhrif á dómarann eður ei gerðist það andartaki síðar að hann dæmdi víti á Víking og sá dómur var út úr kú. Varnarmaður Víkings gaf á eigin markvörð sem hreinsaði út á kant en Fylkismaðurhljóp á varnarmanninn boltalausan og uppskar víti! Halldór Víkingsmarkvörður varði vítaspyrnuna en dómarinn úrskurðaði þá að spyrnan skyldi endurtekin af því markvörðurinn hefði verið kominn hálfan annan metra út úr markinu þegar spyrnt var. Hafi það verið rétt hefði Víkingsmarkvörðurinn þurft að skutla sér bæði aftur á bak og út að stöng í sömu sveiflunni því hann lá rétt framan við marklínuna eftir að hafa varið.

Margt er Víkingum til lista lagt en ekki það að geta siglt í hlykkjum um loftin eftir boltum líkt og þeir séu með upp á vasann æðstu prófgráðu úr kínverskum loftfimleikaháskóla. Nei, því miður fyrir vin vorn úr Val. Vítaspyrnudómurinn sjálfur átti ekki rétt á sér og úrskurðurinn um að endurtaka spyrnuna var í besta falli harkalegur og ósanngjarn, í versta falli rugl. Sindri aðstoðarþjálfari var mótmælti dómnum af hliðarlínunni og uppskar rauttt spjald og brottrekstur. 

Þetta var leikur hinna mörgu en glötuðu tækifæra fyrir Víkingsstráka og þeir geta ekki kennt öðrum en sjálfum sér um að hafa ekki nýtt þau. Dómarinn hafði hins vegar áhrif á gang leiksins með þessum vítaspyrnuæfingum sínum og það er blóðugt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

vikingarnir.blog.is

Frjálst og óháð blogg
Frjálst og óháð blogg
Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband