20.7.2009 | 21:53
Heim úr Frostaskjóli með 4 stig
Víkingar áttu góðan dag í Vesturbænum í kvöld þegar A- og B-liðin heimsóttu KR-inga í leikjum Íslandsmótsins. A-liðið vann þar frækinn og verðskuldaðan sigur 1-2 en B-liðin skildu jöfn, 2-2, og verður að segjast að Víkingar máttu teljast heppnir að tölta af velli með stig úr þeim leik.
Óli Pétur kom A-liðinu yfir í fyrri hálfleik eftir að Víkingar spiluðu sig í gegn í fínni sókn þar sem Aron Elís og Patrik komu við sögu í aðdraganda marksins. Víkingar höfðu góð tök á leiknum fram að hléi og bættu við öðru marki fljótlega í síðari hálfleik. Þar var að verki Aron Björn með skalla. Inn á í KR-liðið kom í síðari hálfleik Ingólfur nokkur, mikið fótboltaefni í Vesturbænum. Sá spilar með 2. flokki og er í æfingahópi meistaraflokks KR. KR-liðið sótti nokkuð í sig veðrið við komu Ingólfs. Hann minnkaði muninn með þrumuskoti af miðjum vallarhelmingi Víkings og átti annað hættulegt langskot skömmu síðar sem fór fram hjá. Víkingar þéttu hins vegar raðir sínar og héldu vel út. Þeir fóru með sigur af hólmi og eiga hól skilið fyrir baráttuna og sigurviljann.
Leikur A-liðanna fór fram á aðalleikvangi KR í Frostaskjóli og það þykir nú ekki dónalegt að leggja heimamennina einmitt þar.
KR-ingar komust yfir í B-leiknum en Víkingar svöruðu fyrir sig á sömu mínútunni með skallamarki Hlyns. Staðan 1-1 í leikhléi en í síðari hálfleik komust KR-ingar yfir á nýjan leik, í samræmi við gang mála á vellinum. Það var svo Viktor eldri Jónsson sem jafnaði fyrir Víking þegar langt var liðið á leikinn. Markið var sérlega skrautlegt en gerði vissulega sitt gagn - fyrir gestina. Viktor lét vaða á markið af löngu færi en KR-markvörðurinn misreiknaði stefnu boltans illilega og hreyfði hvorki legg né lið. Tuðran sigldi beint í netið við fagnaðarlæti Víkinga í þess að sneiða fram hjá stönginni eins og markvörðurinn taldi öruggt að myndi gerast. Þar með var annað stigið í höfn og Víkingar máttu þakka fyrir það.
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar