Leita í fréttum mbl.is

ReyCup-fimmtudagsleikir

C-liðið hélt uppi merkinu í fyrstu leikjum þriðja flokks Víkings á ReyCup. Strákarnir spiluðu við Álftnesinga strax kl. 8:00 og skoruðu eina markið í leiknum. Það sem skildi liðin að var bomba a la Stefán Dagbjarts. Álftnesingar tefldu í raun fram A-liði sínu í þessum riðli. Þeir voru býsna drjúgir með sig á hliðarlínunni fyrir leik og töluðu stundarhátt sín á milli um að ,,klára þetta C-lið frá Víkingi á fyrstu mínútunum". Sá hló hins vegar best sem síðast hló. Álftnesingar sóttu að vísu stíft og fengu færi en nýttu þau ekki. Víkingar vörðust vel og gerðu svo það eina sem máli skiptir í fótbolta, að skora. Leikurinn var því svanasöngur Alftnesinga og þrjú góð stig komin í hús Víkinga.

A-liðið hitti fyrir danskt lið frá Esbjerg kl. 10:00, vel spilandi og skipulagt. Danirnir skoruðu í fyrri hálfleik og aftur í þeim síðari. Úrslitin 2-0 fyrir Dani voru fyllilega sanngjörn. Víkingar áttu fremur slaka stund á vellinum, sérstaklega var eftirtektarvert hve sendinga þeirra skiluðu sér illa á samherja hvað eftir annað.

B-liðið mætti liði Hamars/Ægis kl. 12 á hádegi, þ.e. strákum úr Hveragerði og Þorlákshöfn. Sama sagan var hér og með Álftanes í C-leiknum, þetta er A-lið í B-keppni. Að minnsta kosti einn leikmaður liðsins spilar með meistaraflokki Hamars!  Víkingar lentu undir fljótlega í leiknum og áttu á brattann að sækja. Viktor Jóns yngri jafnaði samt eftir fína sendingu frá Einari Sig. en sú gleði var skammvinn því Hamar/Ægir bætti strax við öðru marki og staðan í hléi var 2-1 fyrir Sunnlendingana. Víkingar fengu vítaspyrnu í síðari hálfleik og Viktor Jóns eldri jafnaði en sagan endurtók sig. Hamar/Ægir skoraði sigurmarkið með firnaföstu skoti af löngu færi og niðurstaðan varð 3-2 Sunnlendingum í vil. Við þeim úrslitum geta Víkingar lítið sagt eins og leikurinn þróaðist.

B-liðið mætti Stjörnunni á Framvelli kl. 16:00 og halaði inn þrjú góð stig í dulítið undarlegum leik. Víkingar áttu fyrri hálfleikinn gjörsamlega og færin sem þeir fengu voru fleiri en eyjarnar á Breiðafirði en skoruðu einungis úr tveimur þeirra. Viktor Jóns yngri var þar að verki í bæði skiptin og varð þar með samanlagður þrennukarl í leikjum dagsins. Stjörnustrákar komust einu sinni fram fyrir miðju í öllum hálfleiknum og skoruðu! Þetta var ótrúlegt en satt. Síðari hálfleikur var ögn jafnari, ef á annað borð er hægt að tala um jafnræði. Víkingar höfðu undirtökin frá upphafi til enda en bættu aðeins einu marki við. Úrslitin urðu því 3-1 og óhætt er að segja að sigurinn hafi verið öruggur, reyndar svo save upp á enska tungu að hann var næstum því Icesave.

Síðasti Víkingsleikur dagsins hófst á Valbjarnarvelli kl. 18:00 og þar hitti C-liðið Fjarðabyggð fyrir. Rökstuddur grunur um að Austfirðingarnir væru smyglgóss í þessum riðli var fljótlega staðfestur og C-liðsmenn lentu því annað sinn í dag í að leika við A-lið í B-liðsgæru. Fjarðabyggðardæmið var bara enn svakalegra en það sem kennt er við álftir og nes. Austfirðingar skoruðu strax,  héldu uppi einstefnu á Víkingsmarkið allan fyrri hálfleikinn og bættu við fjórum mörkum, þar af einu úr víti. Staðan í hálfleik 5-0 fyrir Fjarðabyggð. Víkingar eiga miklar þakkir skildar fyrir að herðast við mótlætið og þeir náðum nokkrum sóknum í seinni hálfleik sem með heppi og hörku hefðu skilað marki eða mörkum. Austfirðingar skoruðu hins vegar í tvígang, þar af var annað úr vítaspyrnu. Útslitin því 7-0 og Fjarðabyggðungar fögnuðu að sjálfsögðu innilega glæstum sigri.

Í fullri alvöru: Er það ekki  lyginni líkast að svona gott lið sem Fjarðabyggð virkilega er skuli ekki hafa metnað til að etja kappi við andstæðinga í riðli þar sem það á heima? Guð má vita hvernig á því stendur að Fjarðabyggð þykist vera í styrkleika B á ReyCup. Kannski hafa mótshaldarar sett sér göfug markmið um byggðastefnu sem svona birtist, kannski vilja Fjarðabyggðarstrákar bara fara léttu leiðina ljúfu í gegnum ReyCup og fá medalíu að launum. Rifjast þá upp Shellmótið í Eyjum forðum daga þegar Njarðvíkingar voru allra liða frægastir fyrir að smygla A-liði í annan styrkleikaflokk en það átti heima ár eftir ár. Nú er kannski komið að Fjarðabyggð að afla sér frægðar á sambærilegum nótum í ReyCup?!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

vikingarnir.blog.is

Frjálst og óháð blogg
Frjálst og óháð blogg
Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband