24.7.2009 | 15:45
Skin og skúrir í föstudagsleikjum
A-liðið byrjaði Víkingsdaginn á ReyCup í leik gegn FH Framvellinum. Skemmst er frá að segja að Hafnfirðingarnir reyndust ofjarlar okkar manna og hurfu heim með stigin þrjú eftir að hafa skorað í þrígang án þess að Víkingar næðu að svara fyrir sig. FH var einu marki yfir í hálfleik og herti svo tök sín í síðari hálfleik. Hafnfirðingar voru númeri of stórir fyrir Víking í þetta sinn.
C-liðið glímdi líka við FH í eina leik þess í dag, kl. 13:00 á Valbjarnarvelli. Þar ríkti meira jafnræði en hjá A-strákum sömu félaga, Víkingur var öllu sprækari en það dugði ekki til að taka af skarið. Markalaust jafntefli varð því niðurstaðan og Víkingar luku keppni í riðlinum með fjögur stig af níu mögulegum.
B-liðið mætti Fylki í lokaleiknum í sínum riðli kl. 14:00 á Valbjarnarvelli. Víkingarnir voru byrjaðir að hita upp þegar Fylkisstrákar gengu fylktu liði inn á svæðið og sungu sigursöngva hástöfum. Þeir héldu því áfram í upphituninni sem skilaði greinilega ekki öðru en því að kveikja hressilegabaráttuanda í andstæðingnunum, þ.e.a.s. Víkingum!. Víkingar komu til leiks í miklum ham og skoruðu strax í upphafi. Agnar Darri skaut, Fylkismarkvörðurinn kom lúkum á boltann en missti jafnvægið og flaut sjálfur aftur á bak inn í markið og tuðran með. Fylkisþjálfarinn varð snælduvitlaus á hliðarlínunni og hélt þvi fram að stjakað hefði verið við markverðinum. Báðir dómararnir sáu hins vegar atvikið vel og voru vissir um að engin snerting hefði átt sér stað. Ágúst skoraði annað mark Víkings nokkru síðar og þegar leið á fyrri hálfleikinn átti Agnar Darri eitraðra fyrirgjöf sem Lalli smurði inn í Fylkismarkið út við fjærstöng. Staðan í leikhléi því 3-0 fyrir Víking. Fylkir minnkaði muninn í síðari hálfleik en Einar Sig. kláraði dæmið með fínu marki og sendi Árbæinga heim með 4-1 tap á bakinu.
Þetta var tvímælalaust langbesti Víkingsleikurinn hingað til á ReyCup. B-liðið spilaði glimrandi vel, einkum í fyrri hálfleik þegar Fylkir sá aldrei til sólar þrátt fyrir heiðan himinn yfir Laugardal. Hlutur Agnars Darra skal nefndur sérstaklega til sögunnar. Sá drengur fór hreinlega á kostum í leiknum með mikla yfirferð á vellinum, síógnandi hraða og leikgleði sem smitaði félaga hans í liðinu. Það var ekki leiðinlegt að vera Víkingur á hliðarlínunni en Fylkismenn skemmtu sér ekki alveg jafn vel og sungu ögn minna við brottför en við komuna inn á svæðið fyrir leik. Víkingur fer áfram upp úr riðlinum með sjö stig af níu mögulegum.
A-liðið lauk föstudagsprógrammi Víkings með leik við Þrótt á TBR-velli kl. 18:00. Þar kom að því að okkar menn fengju eitthvað fyrir snúð sinn. Robbi skoraði eina mark leiksins með skalla í fyrri hálfleik og síðan var um að gera að hanga á fengnum hlut, sem tókst. Sóknir Þróttara þyngdust þegar leið á síðari hálfleikinn og Víkingar þurftu að taka á honum stóra sínum til að afstýra jöfnunarmarki þegar pressan var sem mest. Það tókst sum sé. A-liðið lauk riðlakeppninni með þrjú stig en skildi Þróttara eftir í botnsætinu með eitt stig frá jafntefli þeirra við Gammel Dansk frá Esbjerg.Ekkert má gagnvart dómurum í fótbolta. Óli Ægir, þessi prúði og orðvari piltur, var á Víkingsbekknum og vék hrósyrðum að öðrum dómara Þróttarleiksins - að því er honum fannst. Dómarinn skildi ummælin þveröfugt og dró upp rautt spjald! Dómaranum til heiðurs birtum við mynd af honum/henni með fréttinni.
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar