25.7.2009 | 09:37
Laugardagsleikirnir
A-liðið átti fyrsta leik Víkingsliða á sólríkum laugardagsmorgni gegn Fylki á TBR-velli kl. 8:00 og varð að játa sig sigrað.Fyrri hálfleikurinn var í járnum en Fylkir náði að pota inn markinu sem skildi liðin að í hálfleik. Það mark hefði átt að dæma af vegna rangstöðu en dómari var á öðru máli og hann ræður. Eftir hlé tóku Víkingar völdin á vellinum, sóttu án aflátsog sköpuðu sér dauðafæri í tvígang og fleiri færi sem hægt hefði verið að vinna með á góðum degi en gæfan var bara ekki með þeim. Fylkismenn sneru taflinu hins vegar við sér í hag með sókn sem leit sakleysislega út framan af en lyktaði með góðu skoti af löngu færi og boltinn sleikti stöngina innanverða. Óverjandi og úrslitin ráðin, 2-0 fyrir Fylki. Markið var köld gusa framan í Víkinga enda gjörsamlega gegn gangi leiksins en svona er lífið á stundum. Talsverð harka hljóp í Fylkisstrákana í seinni hálfleik þegar þeir höfðu misst tök á leiknum og Víkingar voru á þeim buxum að jafna.Dómari sveiflaði gulu spjaldi í tvígang og hefði sannarlega átt að taka frekar upp það rauða í annað skiptið, svo gróf var tæklingin. Þjálfari Fylkis má þó eiga það að hann tók leikmanninn út af sem grófastur var því hann lét sér ekki segjast eftir gula spjaldið og viðbótartiltal dómarans.
Berin voru því súr fyrir A-liðið okkar og hliðarlínufólk úr Víkingi en skárra var samt að falla eftir að Fylkir skoraði alvörumark. Það hefði verið skelfing blóðugt ef bullandi rangstöðumark hefði ráðið þarna úrslitum.
Þrumufleygur Jökuls Rolfs gegn Þrótti
C-liðið fór stigalaust af velli eftir viðureign við Þrótt á Framvelli kl. 10:00 en því tókst með seiglu í seinni hálfleik að setja skrekk í Þróttarana og ekki verður af Víkingum tekið að hafa skorað mark leiksins og þó víðar væri leitað. Jöll Rolfsson smellhitti boltann utan við vítateigshornið og þrumaði í fjærhornið. Markvörðurinn átti ekki séns.
Þróttarar skoruðu strax í byrjun og bættu við öðru marki með vítaspyrnu. Þá minnkaði Jökull muninn en Þróttur svaraði að bragði. Fjórða markið var sjálfsmark og Þróttur bætti því fimmta við fyrir hlé. Seinni hálfleikurinn var hins vegar Víkings. Tómast skoraði fínt mark og nokkru síðar komst Sjonni í gegn og bætti við þriðja marki Víkings. Þróttarar urðu býsna stressaðir yfir því hvernig leikurinn þróaðist en þeir lönduðu sigri 5-3.
B-liðið í undanúrslit
B-liðið hitti FH-inga fyrir á Framvelli kl. 11:00 og landaði þar sannfærandi sigri með kraftmikilli spilamennsku sem Hafnfirðingar áttu ekki svar við. Dómarinn var tæplega búinn að blása til leiks þegar tuðran lá í neti FH. Þar voru að verki félagarnir Viktor Jóns yngri og Agnar Darri, sem spiluðu Hafnfirðinga sundur og saman hvað eftir annað til leiksloka. Viktor laumaði boltanum á Agnar sem kláraði dæmið. Staðan í hálfleik var 1-0 og Víkingar höfðu býsna góð tök á atburðarásinni. FH-ingar komu ákafir í seinni hálfleikinn, sem fyrst í stað fór að mestu fram á vallarhelmingi Víkings en vörn okkar manna vann vel fyrir kaupinu sínu og pirringur fór vaxandi í heilabúi Hafnfirðinga - sem og innbyrðis skammir og glósur sem gengu þar manna á milli. Víkingar rifu sig upp og Agnar Darri braust í gegn og lagði boltann ískaldur fram hjá markverðinum eftir að hafa hlaupið varnarmenn FH af sér. Viktor afgreiddi FH svo alveg út af borðinu með þriðja markinu og þar með var draumur Hafnarfjarðar úti.
Víkingarnir fylgdu þannig eftir glæsilegum sigri á Fylki í gær og í báðum þessum leikjum hefur verið áberandi hve gaman strákarnir hafa af því sem þeir eru að gera á vellinum. Þeir eru í rífandi stuði og Hörður hefur sitt að segja með því að hvetja félaga sína stöðugt til dáða á sinn jákvæða hátt.
Stjarnan hrapaði
Vikingur 1 uppskar góðan sigur á Stjörnunni á Valbjarnarvelli kl. 15:00 og leikur því um 5. sæti A-liða á morgun. Óli Pétur skallaði boltanní netið í fyrri hálfleik eftir sendingu frá Patrik og staðan var 1-0 fyrir Víking í leikhléi. Sanngjörn staða og líklegra að Víkingar bættu við frekar en hitt. Það sannaðist fljótlega í seinni hálfleik þegar tveir Víkingar komust skyndilega einir upp að Stjörnumarkinu, varnarmennirnir úti á túni og marksmaðurinn kom engum vörnum við þegar Óli Pétur rúllaði boltanum fram hjá honum í netið. Róbert og Davíð Örn stútuðu svo Stjörnunni tll fulls með langskoti Robba í slá. Boltinn hrökk út á völlinn og Davíð var fljótari að hugsa og framkvæmda en varnarmenn Stjörnunnar og mokaði boltanum í netið. Úrslitin þar með ráðin, 3-0 fyrir Víking og sá sigur var í hæsta máta verðskuldaður. Óli Pétur skoraði mörkin sem settu Stjörnuhrapið í gang og vann vel í þessum leik. Þá skal nefndur til sögunnar Jón Reyr, sem átti enn einn stórleikinn og var í sigursælum návígjum við Stjörnumenn um allan völl frá upphafi til enda leiks. Væri sá drengur klónaður til útflutnings gæti þjóðin borgað Icesave-reikningana með glans fyrir tekjur af afleggjurunum og látið búa til gapastokka fyrir útrásarvíkinga að auki. Þetta eru sum sé gratís efnahagsheilræði fyrir stjórnvöld á þrengingartímum.
Ekki er hægt að skilja við þennan leik án þess að víkja orðum að hegðun Stjörnumanna á fótboltavellinum. Sjaldgæft er að verða vitni að knattspyrnuliði nánast leysast upp í frumeindir sínar á velllinum í innbyrðis nöldri, röfli, skömmum og leiðindum. Eftir því sem Víkingar hertu tök sín á leiknum versnaði mórallinn í Stjörnuliðinu og þegar Robbi og Davíð Örn settu þriðja markið trompaðist Stjörnumarkvörðurinn alveg, óð út á völlinn og hellti sér yfir samherja sína með munnsöfnuði sem ekki er prenthæfur. Sérkennileg uppákoma.
Hamar/Ægir kom Víkingi 2 niður á jörðina
Víkingur 2 leikur um þriðja sæti B-liða á morgun eftir 1-3 tap á móti liði Hamars/Ægis úr Hveragerði og Þorláksshöfn. Víkingar komust yfir í leiknum með vítaspyrnu sem Einar Sig. skoraði úr en eftir það áttu þeir í vök að verjast stóran hluta leiksins. Sunnlendingar jöfnuðu með langbombu og komust síðan yfir fyrir leikhlé. Þeir bættu svo þriðja markinu við í síðari hálfleik og lokastaðan var 3-1 fyrir Hamar/Ægi. Þetta lið var í það minnsta hálfu númeri of stórt fyrir Víkingana og leikurinn var nánast endurtekið efni frá því í riðlakeppninni á miðvikudaginn. Þá mættust þessi sömu lið og Sunnlendingar unnu 3-2. Víkingarnir voru ekki eins rífandi fjörugir og ákafir á vellinum eins og gegn FH fyrr í dag og gegn Fylki í gær. Þá gáfu þeir allt í leikina og uppskáru í samræmi við það. Þreyta var greinilega farin að gera vart við sig og skal nú engan undra. Andstæðingurinn af Suðurlandi var líka talsvert erfiðari en Fylkir og FH. Hamar/Ægir er með A-lið í B-keppninni, líkt og Fjarðabyggð og Álftanes. Víkingarnir mæta Þrótti í baráttu um 3. sætið eftir að Þróttur steinlá fyrir Fjarðabyggð nú síðdegis. Þátttaka Fjarðabyggðarliðsins í B-keppninni er hreinn brandari, það er reyndar með nokkrum ólíkindum að mótshaldarar skuli bjóða öðrum B-liðum í keppninni upp á að býsna sterk A-lið skuli ríða þar röftum.
B-liðsmenn Víkings stóðu fyrir sínu og munu örugglega mæta dýrvitlausir í leikinn við Þrótt. Þriðja sætið er innan seilingar....
Víkingur 3 lagði Fylki
Víkingur 3 mætti Fylki 2 á vellinum við Suðurlandsbraut kl. 17:00. Okkar menn sigruðu Árbæinga 2-1 í vítaspyrnukeppni og spila við FH 3 á morgun um 5. sæti B-liða! Markalaust var að loknum venjulegum leiktíma og vítaspyrnukeppnin byrjaði ekki vel fyrir Viking. Fyrsta spyrna fór forgörðum en Fylkismenn klúðruðu líka og Arnar Sölvi og Sjonni skoruðu síðan mörkin sem komu Víkingi áfram.
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar