14.8.2009 | 17:36
Grindavík, svínaflensa og vatnsbrúsar
Víkingspjakkar góðir:
Grindavíkurliðið í úrvalsdeild í fótbolta karla liggur nánast eins og það leggur sig í bælinu í inflúensu sem kennd er við þá góðu skepnu svín. Í Fréttablaðinu í dag, 14. ágúst, er haft eftir einum úr liðinu, Óla Stefáni Flóventssyni, að hann hafi líkast til verið orðinn veikur (án þess að vita af því) á æfingu fyrir viku og verið hóstandi þar. Svo bætir hann við: ,,Við vorum líka allir að drekka úr sömu vatnsbrúsunum og annað slíkt".
Ég var nokkuð hugsi í Hafnarfirði í gærkvöld þegar ég sá sömu vatnsbrúsana ganga á milli ykkar - sem hefur verið sjálfsagður hlutur hingað til en á ekki að vera það lengur! Ef einn eða tveir úr hópnum hafa verið komnir með þessa flensu í gær, án þess að vita af því, eru yfirgnæfandi líkur á að fjöldinn allur úr hópnum sé smitaður nú. Alveg eins og gerðist í Grindavík!
Þessi inflúensa er ofboðslega smitandi og óþarfi að gera beinlínis með því til dæmis að vera með sameiginlega vatnsbrúsa.
- Ég legg því til að þið hafið hver sinn brúsa á æfingum og í leikjum hér eftir. Það er einfalt í framkvæmd og mjög heilsusamlegt, sérstaklega þegar þessi veiki herjar á landsmenn.
- Pappírsþurrkur í vasanum til að hósta og hnerra í (og setja svo í ruslafötu) er líka einfalt mál í framkvæmd.
- Handþvottur er líka einfalt mál í framkvæmd og raunar besta vörnin gagnvart inflúensusmiti.
Ef Grindavíkurliðið hefði fylgt þessum ráðum væri það ekki í bælinu!
Hvers vegna er ég með þetta nudd í ykkur?
Stutta svarið er: Ég vil að þið verðið frískir og haldið inflúensunni sem lengst frá ykkur næstu daga og vikur.
Lengra viðbótarsvar: Ég er í samráðshópi á vegum sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra vegna inflúensufaraldurs og hef verið frá því í maímánuði. Þess vegna hefi ég séð og heyrt margt um þessa veiki og hve alvarleg hún kann að verða á Íslandi í vetur.
Sjálfur hefi ég breytt lífstílnum á þann veg að ganga með pappírsklúta í vasanum til að hósta í og ég þvæ mér oftar um hendur en áður. Ég myndi aldrei koma nálægt vatnsbrúsa sem gengi á milli manna þótt þyrstur væri.
Þar með er ekki sagt að ég fái ekki flensuna, því ef til dæmis einhver smitaður hóstar nálægt mér er fátt til varna. Hins vegar er sjálfsagt mál að gera einfaldar ráðstafanir til að reyna að koma í veg fyrir að veikjast og fyrsta boðorðið ykkar ætti að vera það að vera með eigin vatnsbrúsa í boltanum og hleypa engum öðrum munni nálægt honum.
Lifi Víkingur á flensutímum sem annars!
-ARH
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar