18.5.2008 | 15:37
Reykjavíkurmeistarar 2008!
Strákarnir í A-liðinu gerðu eins og fyrir þá var lagt og vörðu Reykjavíkurmeistaratitilinn frá í fyrra með glæsibrag á Fylkisvelli með fjórum mörkum gegn engu. Leikurinn var erfiður en Patrik afgreiddi Árbæingana í raun með tveimur mörkum í fyrri hálfleik. Eftir hlé skoraði Viktor og Davíð fullkomnaði veisluna með fjórða markinu. Fylkismenn hættu snemma leiks að trúa því að þeir hefðu eitthvað í andstæðingana að gera og gerðu í staðinn út á gul spjöld með dómaratuði og kjaftbrúki. Dómarinn hafði um hríð nóg að gera í slíku bókhaldi í síðari hálfleik. Víkingar eiga hrós skilið fyrir að vinna vel allan tímann og gefa Fylki aldrei færi á að komast inn í leikinn. Það er auðvitað sérlega flott að leggja helsta keppinautinn í riðlinum með fjórum mörkum og halda eigin marki hreinu á sama tíma! Til hamingju, meistarar Reykjavíkur!
17.5.2008 | 08:49
Ögurstund í Árbæ
Öll Víkingsliðin ljúka Reykjavíkurmótinu á Fylkisvellinum á morgun, sunnudag, og fara þangað auðvitað með fyrirheit um að skilja helst engin stig eftir í Árbæjarhverfi við heimför. B- og C-liðin eru bæði nálægt miðjum riðlum og á lygnum sjó. A-liðið á hins vegar góða möguleika á að verja Reykjavíkurmeistaratitil sinn, á sama velli og það sigraði í Reykjavíkurmótinu í fyrravor. Víkingum dugir jafntefli - í boði Vals - eftir óvæntustu úrslit mótsins í leik Fylkis og Valsmanna í næstsíðustu umferðinni. Víkingar höfðu fyrr á mótinu sigrað Val 11:0 og fyrir fram var búist við að Fylkir ætti vís þrjú stig gegn Völsurum. En Valur skoraði snemma leiks og Fylkir rétt marði jafntefli undir lok leiks. Þar með er Víkingur stigi ofan við Fylki.
Viðureignin á morgun er sem sagt úrslitaleikur um meistaratitil A-liða. Víkingar ætla sér auðvitað ekkert minna en að leggja Fylki og taka dolluna með stæl. Ekki verður í boði að ganga til leiks og halda að það sé formsatriði að hirða stigin sem til þarf. Fylkir brenndi sig illa á slíku gagnvart Val og meistaraflokkur Víkings gerði sig sekan um slíkt vanmat líka þegar liðið var steinsofandi og úti á þekju tímunum saman gegn Selfyssingum um hvítasunnuna.
Haft er við orð á Hlíðarenda að almáttugur guð hafi stofnað Val á sínum tíma í gegnum KFUM og séra Friðrik. Sé svo hlýtur himnafaðirinn að hafa peppað sína menn upp gegn Fylki. Hann vill með öðrum orðum sjá það gerast í Árbæ á morgun að Reykjavíkurmeistaratitilinn verði áfram í Fossvogi. Það viljum við líka. Áfram Víkingar á Fylkisvelli!
6.5.2008 | 20:39
Viktor með samanlagða þrennu í Þróttarleikjum dagsins
A-liðið lagði Þrótt í dag með fjórum mörkum gegn engu í næstsíðasta leik Reykjavíkurmótsins og verður nú að treysta á eigin gæfu og gjörvileika gegn Fylki í lokaumferðinni. Fylki dugar jafntefli á heimavelli sínum en Víkingar ætla sér hins vegar að sækja öll stigin í Árbæinn og verja í leiðinni heiður sinn og Reykjavíkurtitil. Þetta verður hrein úrslitarimma á Fylkisvelli sunnudaginn 18. maí og ef Víkingar spila þá eins og í síðari hálfleik gegn Þrótti í dag verður fátt um veisluhöld í Árbæjarhverfi. B-lið Víkings og Þróttar deildu stigum í sínum leik í Laugardalnum í dag. Úrslitin urðu 3-3 og Víkingar voru giska súrir yfir að hirða ekki öll stigin þrátt fyrir að hafa hafa lent tveimur mörkum undir. Þeir sóttu linnulítið, jöfnuðu og áttu ein þrjú skot í stöng. Viktor skoraði tvö Víkingsmarkanna, annað þeirra úr vítaspyrnu. Haukur Jónsson átti þriðja mark liðsins. Viktor uppskar þar með þrennu í samanlögðum viðureignum við Þrótt í dag því hann kom inn á eftir markalausan fyrri hálfleik A-liðanna og braut ísinn fyrir Víking með laglegu marki eftir lúmskt innkast frá Villa. Markvörður Þróttar átti engan veginn von á að fá bombu á búrið sitt beint upp úr þessu tiltölulega sakleysislega innkasti á miðjum vallarhelmingi Þróttar og var hreyfingarlausari en vaxmynd í safni Madame Tussaud's í Lundúnum þegar boltinn hvein fram hjá honum áleiðis í netið. Þetta mark kveikti sannarlega í Víkingunum og skömmu síðar skoraði Davíð Örn eftir frábæra sendingu Robba. Aron bætti við þriðja markinu á aronskan hátt og því fjórða í blálokin með þessum líka fína skalla. Þróttarar komust aldrei í færi í síðari hálfleik og fengu reyndar eitt einasta færi í öllum leiknum svo heitið gæti. Þá varði Halldór. Víkingar áttu meira í fyrri hálfleiknum en komumst samt einungis einu sinni í gott færi. Þá tókst Þrótturum að bjarga sér á ögurstundu. Viggó þjálfari messaði rækilega yfir liðinu í leikhléi og Víkingarnir komu í vígahug til síðari hálfleiks. Eftir það sá Þróttur ekki til sólar.
- Getraun dagsins. Myndin var tekin af tveimur vaxbrúðum í Tussaud's í september 1977. Til vinstri er Maó formaður í maójakka. Spurt er: hver er fylgdarsveinn leiðtogans?
4.5.2008 | 21:36
Sigur á Fram, jafnt gegn Fjölni2
A-liðið okkar sigraði Fram léttilega 11-2 í Egilshöll í dag og hefur sett sér það markmið að hirða öll stigin í báðum leikjunum sem eftir eru í Reykjavíkurmótinu, fyrst gegn Þrótti á þriðjudaginn kemur og svo gegn Fylki í lokaumferðinni, sunnudaginn 18. maí. Það er líka eina færa leiðin fyrir strákana til að landa Reykjavíkurtitlinum! Víkingar höfðu reyndar enn meiri yfirburði á vellinum en markatalan bendir til. Okkar menn gengu nefnilega hvað eftir annað í rangstöðugildrur og uppskáru því ekki sem skyldi úr mörgum sóknum sem lofuðu góðu. C-liðið mætti svo Fjölni2 í Egilshöll í dag og varð að láta sér jafntefli lynda, 6-6. Grafarholtsmenn jöfnuðu með marki sem ekki hefði átt að standa vegna augljósrar, bullandi rangstöðu. B-liðið sat hjá í þessari umferð mótsins af því Fjölnir dró annað lið sitt í riðlinum úr keppni. B- og C-liðin eiga eftir að spila við Þrótt og Fylki, líkt og A-liðið. Ákveðið er að Þróttarleikirnir verði næstkomandi þriðjudag, 6. maí, á gerfigrasinu í Laugardal. A-leikurinn hefst kl. 16:00 og B-leikurinn strax að honum loknum. Þessi lið bæði hafa örlög sín í eigin höndum og þurfa á öllu að halda til að ná toppnum! Hugsanlegt er að C-leikurinn verði líka á þriðjudaginn en það hefur ekki verið ákveðið þegar þetta er skrifað.
4.5.2008 | 18:47
Okkar menn í Reykjavíkurúrvalinu
Aron Elís, Ólafur Ægir og Óli Pétur eru fulltrúar Víkings í úrvalsliði stráka úr 1994-árgangnum í Reykjavíkurfélögunum sem fer á norrænt höfuðborgarmót í Kaupmannahöfn undir lok maímánaðar í boði Reykjavíkurborgar. Höfuðborgir Norðurlanda standa árlega að knattspyrnumóti úrvalsliða 14 ára stráka og halda það til skiptis í Kaupmannahöfn, Osló, Stokkhólmi, Helsinki og Reykjavík. Í ár er vettvangurinn sum sé Köben og keppt verður í síðustu viku maímánaðar. Danmerkurförin hefur áhrif á upphaf Íslandsmótsins í 4. flokki og því er öruggt að leikirnir við Þrótt 26. maí og við Blika 29. maí verða færðir til. Við óskum okkar mönnum að sjálfsögðu til hamingju með sætin í borgarliðinu og segjum: Áfram Reykjavík!
4.5.2008 | 18:47
La Manga handan við hornið
Innan við mánuður er eftir þar til lagt verður í'ann til La Manga á Spáni til æfinga í 10 daga. Spenna fer vaxandi í samræmi við það, bæði í hópi iðkenda og samfylgdarmanna. Skipuleggjendur úr foreldrahópi hafa í mörg horn að líta við undirbúning og strákarnir eru margir hverjir komnir vel á veg með að safna fyrir ferðakostnaðinum með fjáröflunarstarfsemi af ýmsu tagi. Nokkrir eru reyndar þegar búnir að landa farseðlinum en aðrir hafa næstu vikur til að herða róður í tekjuöfluninni. Það hlýtur enn að auka á stemninguna á Spáni að Evrópumeistarakeppnin í knattspyrnu hefst 7. júní, daginn eftir að við komum þangað, og fjöldi leikja verður á dagskrá þar á völlum í Austurríki og Sviss á meðan á dvölin varir. Eðli máls samkvæmt hljótum vér að horfa sérstaklega til D-riðils þar sem gestgjafar vorir, Spánverjar, spila. Í D-riðli er líka að finna Grikki, sem urðu Evrópumeistarar 2004 og hafa því titil að verja. Enn má nefna úr þessum sama riðli Svíana, einu norrænu þjóðina á EM. Og svo mætti lengi telja. La Manga verður mikil fótboltaveisla, hvernig sem á málið er litið.
4.5.2008 | 18:46
Fylgt úr hlaði
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar