8.6.2008 | 00:38
Á fimmtugu dýpi í Cartagena
Strákunum okkar var kastað í djúpu laugina í dag (laugardag) þegar þeir tóku þátt í alþjóðlegu fótboltamóti í Cartagena, um 300 þúsund íbúa borg skammt frá La Manga-hreppi. Við fórum þangað í rútu og vorum ríflega hálftíma á leiðinni. Þarna voru nokkur heimalið frá Cartagena en einnig Charlton frá Bretlandi, Benfica frá Portúgal og svo Víkingur. Staðarblaðið sló því upp í fyrirsögn um mótið að þessi þrjú evrópsku úrvalslið sæktu Cartagena heim! Gaman var líka að sjá veggblöð út um allt + boli sem starfsmenn mótsins klæddust þar sem Víkingsmerkið blasti við gestum og gangandi.
Okkar menn spiluðu eingöngu við Spánverja og töpuðu öllum leikjum en aldrei stórt. B-liðið tapaði 0-1, 0-2 og 0-1. A-liðið tapaði 0-3 og 0-1. Þjálfarinn góðkunni, Bjössi Bjartmars, sagði í rútunni á heimleiðinni að hann hefði tjáð Viggó fyrir mót að allir leikir myndu trúlega tapast en að barátta Víkinga hefði verið allrar aðdáunar verð. Þeir gáfust nefnilega aldrei upp og stríddu andstæðíngum sínum verulega á köflum. Og svo vitnað sé í Bjartmars enn og aftur þá benti hann á að B-liðið okkar hefði spilað við A-lið og A-liðið við eldri stráka (úr árgöngum 1993 og '92).
Það var því brekka fyrir Víkinga í dag en frammistaða þeirra lofsverð og það er sagt fullri meiningu en ekki kurteisi! Til dæmis var seinni leikur A-liðsins við Spánverja spennandi og tvísýnn, mikill hasar og barátta. Víkingar vörðust afar vel og hefðu með heppni og örlítið meiri frekju geta náð jafntefli. Það sló Víkingana hins vegar talsvert út af laginu að í fyrri leiknum lenti Óli Pétur í samstuði og varð að fara af velli, laskaður á læri. Félögum hans var brugðið og þeir fengu á sig mark í kjölfarið. Skömmu síðar skoruðu Spánverjar aftur en boltinn lenti áður í hönd Spánverja og markið hefði því aldrei átt að teljast gilt. Dómarar voru annars mikið fyrir kvennalistafótbolta og flautuðu sumir hverjir í tíma og ótíma við minnstu snertingu manna á vellinum. Þetta flautuspil fór réttilega í taugar Vikinga en Charlton-liðar hinir bresku, sem vildu láta finna dálítið fyrir sér, lentu þá í dómurum sem vernduðu Spanjólana eins og þar færu maddömur á peysufötum á leið í síðdegisteboð.
Mótið var spilað við aðstæður sem var frekar andsnúið okkar mönnum en hitt. Völlurinn var lagður einhvers konar leirblandaðri möl og hitinn hafði sitt að segja. B-liðið spilaði auk þess 9 manna bolta, sem var því auðvitað býsna framandi. En svo lærir sem lifir og mótlætið í dag mun í staðinn bitna harkalega á andstæðingum Víkings í næstu leikjum í Íslandsmótinu.....
Heimaliðið Nueva Cartagena sá um mótshaldið og foreldrar úr því seldu mat, drykk og minjagripi til fjárföflunar, eins og við eigum að venjast að heiman. Hins vegar var veitingaramminn öllu víðari en gengur og gerist heima. Þarna voru til dæmis steiktar sardínur beint upp úr sjó og tálgaðar skinkutjásur af svínabógum ofan í gesti. Drykkir voru í öllum regnbogans litum og afgreiðslufólk drakk gjarnan úr tveimur baukum fyrir hvern einn sem það seldi. Þessir viðskiptahættir sköpuðu vissulega ákveðna stemningu á svæðinu og íslensk vitni voru að því er gengið undir einum afgreiðslumanni af vettvangi undir kvöld. Sá hafði selt svo marga ölbauka í dag að sölulaunin sem hann skammtaði sér fyrir vel unnin störf yfirbuguðu hann að lokum.
Það var síðan til að kóróna samkomuna að flugeldum var skotið ótt og títt á loft í hverfinu þegar A-liðið spilaði seinni leikinn og viðureignin átti sér stað í dramatísku sprengjuregni í rökkrinu. Vel að merkja, tímaramminn sprakk gjörsamlega, enda Spanjólar ekki þekktir fyrir að hafa áhyggjur af tímasetningum og stundvísi. Atli og Systa gætu gert það gott á Spáni að kenna mótshöldurum skipulagningu fótboltamóta a la KFC-mótið góða ár eftir ár þar sem tímasetningar leikja standa svo vel að hægt er að stilla klukkur eftir þeim.
Þegar öllu er á botninn hvolft er útilokað að finna íslenska hliðstæðu við þessa samkomu. Hún var í það minnsta allt í senn Reycup, Fiskidagurinn mikli á Dalvík og ball með Trúbroti í Húnaveri um verslunarmannahelgina 1971. Á síðastnefnda skrallinu þurftu allir stuðning til að komast leiðar sinnar eins og baukamaðurinn í daga: gestir, hljómsveitin og dyraverðirnir.
Drengirnir voru þreyttir bæði og slæptir í kvöld. Þeir sofnuðu fljótt og verða að vakna hressir í fyrramálið því þá blasir við þeim erfitt æfingaprógramm. Ekkert er gefið eftir.
- Hér til hliðar eru myndir frá Cartagena í sérhólfi og í hinu hólfinu eru myndir frá slökunarstund Víkingshópsins alls við helstu sundlaug hverfisins okkar og La Manga-hrepps yfirleitt.
7.6.2008 | 10:56
Innrás Víkinga í La Manga-hrepp
Sól og heiður himinn blasti við Víkingum við rismál í La Manga-hreppi í dag. Bændur komnir í fjós og út á akra og hreppsnefndin hafði á neyðarfundi aukið viðbúnað almannavarna í héraðinu á hæsta stig þegar spurðist út að þessi senjor Hjaltested af Íslandi væri kominn aftur og nú með yfir 120 skjaldsveina og -meyjar með sér. Hingað komum við á þriðja tímanum í nótt, þreyttur en glaður hópur. Fararstjórar leyfðu strákunum að sofa klukkustund lengur í morgun en ella, vegna seinkunar á flugi í gær, en svo tók alvaran við og núna eru menn á fyrstu æfingunni. Aðstæður allar eru þannig að hlýtur að minna helst á Undraland. Vantar bara Lísu. Og aðbúnaður í íbúðunum er framúrskarandi á alla lund. Hér verður mikil sæla næstu daga og fótbolti hvert sem litið er. Menn eru þannig vel meðvitaðir um veisluhöldin sem hefjast í þeim efnum í Sviss og Austurríki í dag og kaupa inn í samræmi við það.... Þetta er nú bara til að staðfesta að við erum mætt og björt á brún. Meira síðar í dag og vonandi myndir af síðdegisæfingu strákanna.
Ath.: fáeinar myndir í safninu til hægri á síðunni!
Póstur til ritstjóra heimasíðunnar: atlirunar@strik.is
5.6.2008 | 19:18
Markaregn gegn Njarðvík
Víkingar léku við hvurn sinn fingur gegn Njarðvíkingum í fyrsta leik Íslandsmóts A-liða í Egilshöll í dag. Innan við 30 sekúndum eftir að dómarinn flautaði til leiks horfði Suðurnesjamarkvörðurinn á eftir boltanum í netið eftir fyrstu sókn Víkinga og að leikslokum höfðu okkar menn raðað þrettán mörkum á Njarðvíkurmarkið gegn einu frá þeim í seinni hálfleik. Staðan í leikhléi var 8-0 og þarf raunar ekki að hafa öllu fleiri orð um málið. Víkingar höfðu yfirburði á öllum sviðum og mörkin hefðu auðveldlega orðið fleiri okkar megin. Óli Pétur skoraði fimm sinnum, Davíð var með þrennu og Patrik setti tvö og var auk þess afar drjúgur í fínum fyrirgjöfum sem gáfu mörk. Aron Elís, Jón Reyr og Röggi skoruðu eitt mark hver.
Leikurinn var ágætis upphitun fyrir æfingaferðina til Spánar. Víkingar eiga að mæta á flugvöllinn á morgun, föstudag, kl. 13:00. Framundan er sól og sæla í La Manga-hreppi. Ef Spánverjar eru ekki þeim mun aftar á merinni í Veraldarvefsmálum og nettengingum látum við frá okkur heyra af og til hér á heimasíðunni. Fylgist með, spennan fer vaxandi suður þar.
4.6.2008 | 07:54
Njarðvík fyrst á dagskrá A-liðsins
30.5.2008 | 11:41
Stokkhólmur sigraði á móti norrænna höfuðborga
Lið Reykjavíkur varð að játa sig sigrað á knattspyrnumóti stráka úr árgangi 1994 í norrænu höfuðborgunum sem fram fór í Kaupmannahöfn núna í vikunni. Reykvíkingarnir töpuðu öllum leikjum sínum, fengu á sig tíu mörk en skoruðu tvö - bæði gegn Finnum. Stokkhólmur sigraði með fullt hús stiga, því næst kom Kaupmannahöfn, þá Osló, Helsinki og Reykjavík.
Lið Reykjavíkur í sólinni í Köben!
30.5.2008 | 08:58
Jafntefli hjá B-liðum Þróttar og Víkings
Þróttarar og Víkingar gerðu jafntefli i fyrsta leik B-liða fjórða flokks í Íslandsmótinu í ár, 3-3. Lárus Örn skoraði strax á upphafsmínútunum og Víkingur var yfir í leikhléi. Síðan hallaði á ógæfuhliðina hjá okkar mönnum eftir hlé þegar Þróttur raðaði inn þremur mörkum á átta mínútum og staðan var allt í einu orðin 3-1 okkur í óhag. Víkingsseiglan er hins vegar söm við sig. Ólafur Andri minnkaði muninn og markahrókurinn Viktor jafnaði sjö mínútum mínútum síðar. Jafntefli þar með staðreynd og stig úr leiknum kærkomið úr því sem komið var.
Fyrsta leik A-liðsins í Íslandsmótinu var frestað vegna höfuðborgarmóts Norðurlanda í Kaupmannahöfn núna í vikunni.
28.5.2008 | 11:48
Reykjavík tapaði fyrir Kaupmannahöfn
23.5.2008 | 15:12
Æft á Orkuveituvelli í Elliðaárdal
19.5.2008 | 08:48
Uppskeran á Reykjavíkurmótinu
18.5.2008 | 18:44
C-liðið sigraði, B-liðið tapaði
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar