Leita í fréttum mbl.is

Öruggur Víkingssigur í fyrsta leik

A-lið Víkings sigraði Flisa úr Heiðmerkurfylki í Noregi sannfærandi og örugglega í fyrsta leik sínum á Norway Cup með þremur mörkum gegn einu. Sú markatala segir samt aðeins hálfa sögu og tæplega það.


Okkar menn höfðu undirtökin mestallan tímann og stjórnuðu leiknum. Samt voru það Norðmenn sem voru fyrri til að skora en í loftinu lá að þeir ættu að fara sparlega með fagnaðarlætin. Það réttist rétt vera því á nokkurra mínútna kafla jafnaði Viktor eftir fyrirgjöf frá Jóni Rey og andartökum síðar fékk  Patrik sendingu frá Davíð Erni, vippaði laglega yfir markvörð Flisa og kom Víkingi í 2-1. Sú var staðan í hálfleik.


Í seinni hálfleik áttu Víkingar leikinn en bættu samt aðeins einu marki við. Það var líka mark í lagi: klassasending frá Óla Ægi milli varnarmanna Flisa til Davíðs Arnar og sá þrumaði boltanum í netið. Þar við sat, 3-1.


Vallaraðstæður í dag eru kapítuli út af fyrir sig. Spilað var á gervigrasi í öðrum bæjarhverfi en aðalmótssvæðið er. Þetta gervigras er nýtt en undir það vantar gúmmílag og sand, sem ætti þar að vera að öllu eðlilegu. Iðkendur beggja liða hrösuðu og duttu aftur og aftur á vellinum, svo augljóst var frá upphafi að aðstæður voru ekki sem skyldi. Markið sem Norðmenn skoruðu skrifast til dæmis miklu frekar á völlinn en frammistöðu okkar manna til varnar norsku sókninni.


Stjórnarmaður í íþróttafélaginu í þessu umrædda hverfi, Abildsö idrettslag, var á hliðarlínunni í morgun og sagði við skrifara þessa pistils að engum væri bjóðandi að spila á þessum velli og hann baðst hreinlega afsökunar fyrir hönd heimamanna! Alvarleg mistök hefðu átt sér stað við að leggja gervigrasið og þarna hefðu slasast iðkendur, beinlíns vegna aðstæðna. Meira að segja hefði dómari í leik fyrr í sumar misst fótanna og meiðst. Á daginn kom svo að þetta vonda gervigras hafði farið illa með takka á skóm nokkurra Víkinga og víst er að við viljum eindregið losna við að spila meira á þessum velli.


Sól skín í Osló og heitt er eftir því. B-liðið á að spila kl. 19:30 í kvöld að norskum tíma og sól verður þá vonandi gengin niður. Mikill hiti og sólskin er nefnilega ekki óskaveður  okkar manna í fótboltaleikjum. Ósköp er hins vegar notalegt að vera á hliðarlínunni í hlutverki áhorfanda þegar blessuð sólin bakar belgi.


Bláu beddarnir urðu gleðigjafar dagsins

IMG_5941„Fara ekki beddarnir að koma?“ spurðu okkar menn í sífellu síðdegis þegar við höfum burðast með farangurinn frá rútunni upp á aðra hæð Bekkelaget skole. Beddar sáust hvergi og þá gátu sumir ekki leynt svekkelsi sínu. Það var ekki fyrr en eftir kvöldmatinn að rannsókn leiddi í ljós að húsvörður skólans lúrði á beddum Víkinga eins og ormur á gulli. Þvílík unaðsstund þegar þessar umtöluðu erlendu fjárfestingar drengja úr Bústaðahverfinu voru bornar inn á gólf. Sumum fjárfestum gekk að vísu brösuglega að standsetja húsgagnið en aðrir gerðu sig svefnklára á innan við einni mínútu og lögðust strax fyrir til prufu. Eintóm hamingja og þægindi. Svo höfðu menn orð á að beddarnir væru léttir en afar traustbyggðir og blái liturinn gæti gengið við flest í innbúum heima fyrir. Margir hyggjast nefnilega tjalda beddunum til fleiri nátta en þessara sem framundan eru í norskri fótboltasælu. Enn er ótalið að beddinn kemur samanbrotinn í ferðatösku með burðaról og fer ekki mikið meira fyrir honum í farangri en stærstu maðkaboxum laxveiðigreifa. Þegar við gengum heim í skólann, eftir kvöldmatinn, mættum við af og til liðsmönnum fótboltaliða héðan og þaðan úr veröldinni ráfandi í átt að náttstöðum sínum með beddabox á öxlinni. Við kinkuðum kolli og gáfum sigurmerki. Þarna fóru okkar menn. Bláir beddar sameina lönd og þjóðir, kannski duga þeir betur til slíks en Sameinuðu þjóðirnar.


Flugferðin til Noregs gekk eins og í sögu í dag. Vélin var á áætlun og tveimur klukkustundum síðar vorum við á áfangastað í Bekkelaget skole. Á flugvellinum tók á móti okkur Guðni Ölversson, íþróttakennari hér í borg og reglulegur spjallari um norsk málefni í morgunþætti Rásar tvö. Hann verður íslensku liðunum á Norway Cup innan handar á mótinu. Sömuleiðis dúkkaði upp norsk stelpa í skólanum, sem sömuleiðis hafði fengið það verkefni að leiðsegja Víkingum um Osló og vera okkur til halds og trausts í blíðu jafnt sem stríðu. Kom reyndar á daginn að Lotta hin norska er íþróttamaður mikill og hvorki meira né minna en Evrópumeistari í fyrirbæri sem Cheerleading heitir upp á ensku og er sambland af fimleikum, dansi, hoppi og híi til að kynda upp stemningu áhorfenda á kappleikjum. Klappstýrur eru  þær víst kallaðar á okkar ylhýra en Lotta vill eindregið meina að sem keppnisgrein sé klappstjórn mun meira mál en við sjáum t.d. í hléi bandarískra körfuboltaleikja í sjónvarpinu. Kannski fáum við Lottu til að klappstýra stuðningi við Víkingana á morgun. Hún ætlar að fylgja okkur til vallar kl. 10 að staðartíma þar sem Víkingur 1 mætir liði frá Flisa, bæjarfélagi hér í Heiðmerkurfylki.


Norðmenn skammast sín fyrir veðrið en við kvörtum ekki. Það var hlýtt í dag og hlýtt er í kvöld en skýjað og dropar féllu úr lofti. Fínasta fótboltaveður en það mun trúlega rigna eitthvað á okkur í vikunni.


Mótssvæðið er í göngufæri frá Bekkelaget skole og hópurinn fékk sér fyrsta göngutúrinn þangað til að fá sér kvöldmat. Hægt var að velja um kjötbollur í sósu eða kjúklingarétt með hrísgrjónum + salat. Ágætis matur og vel útilátinn. Það var hollt ráð sem Óli Jóh. landsliðsþjálfari gaf strákunum á æfingu í Víkinni á fimmtudaginn: Borðið einfaldlega matinn sem í boði er og verið ekkert að röfla um hvort hann er góður eða slæmur. Öllu máli að spila fótbolta og njóta samveru í góðum hópi frekar en að heilu fótboltaferðirnar fari í að fimbulfamb um matinn!


Í kvöld var setningarsamkoma mótsins á Ekebergsléttunni en þar var fátt um Víkinga. Strákarnir voru greinilega dasaðir og vildu frekar halda kyrru fyrir í skólanum. Hugsanlega hafði sitt að setja að þegar nýbakaðir beddaeigendur lögðust á annað borð fyrir var erfitt að rísa úr rekkju á nýjan leik – þrátt fyrir að klukkan væri einungis hálf sjö að norskum tíma, hálf fimm að íslenskum!
Húsvörður skólans hafði orð á því að norskir KFUM-strákar færu snemma í háttinn en hann hafði aldrei kynnst jafn snemmbúinni rekkjugöngu og hjá þessum íslensku KFUM-Víkingum. Það stefnir því í að Víkingar verði bærilega útsofnir fyrir leiki morgundagsins.


Annars misstu okkar menn af ágætis rokktónleikum á sléttunni þar sem þúsundir manna dilluðu sér í rökkrinu. Flott músik og mikið stuð. Það þarf greinilega mun meira en framlínumenn í norskum rokkbransa til að draga íslenska Víkinga úr bláu fleti.+


Landsliðsþjálfarinn pískaði strákana áfram á lokaæfingu fyrir Norway Cup

Landsliðsþjálfari í boltaregniÓlafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari karlalandsliðsins í fótbolta, stjórnaði í dag lokaæfingu strákanna í 3. flokki fyrir Oslóarferðinaá Norway Cup. Í tilefni dagsins var æfingin á aðalvellilnum í Víkinni en þar fás strákarnir annars ekki einu sinni að spila, hvað þá æfa, svona hvunndags.

Hugmyndin að æfilngunni  kviknaði í samtali Óla Jóh. og Gunnars Arnar, þjálfara 3. flokks,  á þjálfaranámskeiði í vor en það var ekki fyrr en nú að landsliðsþjálfarinn kom því við að mæta. Tímasetningin var reyndar mjög fín, rétt fyrir mótið í Osló og lokauppgjörið á Íslandsmótinu.

Landsliðsþjálfarinn messaði yfir hópnum góða stund í upphafi æfingar og lagði strákunum góðar lífreglur um ástundun, stundvísi, áhuga, mataræði, svefn og hvíld, þrautseigju, vímuefni og fleira. Síðan  tóku við æfingar með bolta og lokum var hópnum skipt í fjögur lið sem spiluðu hraðan bolta á mörk á stuttum velli. Þar var mottóið að snerta einu sinni eða tvisvar, hugsa hratt og búmm.

Óli sagði að æfingin í heild væri sýnishorn af því sem hann hefði látið liðin sín gera á æfingum dag eftir dag á þjálfaraferlinum. Og þá vita Víkingsstrákarnir það.

Góð heimsókn og krydd í tilveruna fyrir Víkinga + fínt veganesti til Noregs. Þjálfurunum Óla og Gunnari Erni sé þökk fyrir það.


Tvöfalt Stjörnuhrap í Fossvogsdal

Víkingar sýndu Garðabæingum litla gestrisni í Víkinni og sigruðu þá sannfærandi í báðum leikjum kvöldsins. A-leikurinn endaði 5-2 og B-leikurinn 4-1. Strákarnir unnu vel fyrir stigunum sínum og yfirspiluðu gesti sína á köflum bæði í A- og B-leiknum.

Aron Elís, Röggi og Davíð Örn skoruðu fyrir Víking í fyrri hluta A-leiksins og Viktor bætti fjórða markinu við í síðari hálfleik. Þá tók við kafli þar sem Stjörnumenn komust ögn inn í leikinn og skoruðu í tvígang en Agnar Darri slökkti vonir þeirra um að ná lengra með því að skora fimmta og síðasta markið.

Agnar Darri kom Víkingum yfir fljótlega yfir í B-leiknum og Ólafur Andri bætti öðru við eftir góðan undirbúning Emils Sölva, sem var nýkominn inn á. Staðan var 2-0 í hálfleik en í síðari hálfleik tókst Stjörnumönnum að minnka muninn með fínu marki en lengra komust þeir ekki. Ólafur Ægir skallaði í netið upp úr hornspyrnu og Steinar Ísaks kláraði dæmið með glæsilegu marki, þrumuskoti langt utan af velli sem Stjörnumarkvörðurinn átti ekki möguleika að verja. 

Vel gert og ekkert nema hamingja. A-liðið áfram í toppbaráttu, með jafnmörg stig og Breiðablik en óhagstæðara markahlutfall. Blikar rúlluðu yfir Keflvíkinga, 5-0, á sama tíma og Víkingar spiluðu við Stjörnuna.  B-liðið styrkti stöðu sína og vert er að gefa því auga að liðið sem það lagði nú, Stjarnan er í efsta sæti í B-riðli. Það segir sitt. Og síðast en ekki síst: Viktor Jóns gefur ekkert eftir í baráttunni um markakóngstitilinn. Hallelúja.


Leikirnir við Stjörnuna

Stjarnan úr Garðabæ kemur í Víkina til að spila í seinni umferð Íslandsmótsins við okkar menn. Á KSÍ-vefnum eru þessir leikir enn skráðir á þriðjudaginn 27. júlí en samkomulag er um að flýta þeim um sólarhring. Knattspyrnusambandið er bara ekki með á nótunum og rifjast þá upp karl í Svarfaðardal sem var nokkuð sérlundaður og hvefsinn í háttum. Granni hans skýrði það sem svo karlinn hefði fæðst fyrir tímann og aldrei aftur komist á réttan tíma í tilverunni ævina á enda.

A-leikurinn hefst í Víkinni kl. 18:00 mánudaginn 26. júlí. Mæting kl. 16:45:

  • Hlynur, Villi, Röggi, Hörður, Sverrir, Patrik, Róbert, Jón Reyr, Davíð, Aron Elís, Viktor, Bjarki, Ólafur Andri, Ólafur Ægir, Eyþór, Agnar.
B-leikurinn hefst í Víkinni kl. 19:45 mánudaginn 26. júlí. Mæting kl. 18:45:
  • Halldór, Gunnar, Daníel, Fjölnir, Steinar, Óli Þór, Björn, Sigurður, Þórarinn, Emil, Jóhann og Lárus.


Tilþrif á æfingu í Víkinni

IMG_6863Strákarnir í þriðja flokki tóku vel á því á æfingu í Víkinni í dag. Veðrið var dásamlegt og tilþrifin eftir því.  Næsta verkefni er Stjarnan í Íslandsmótinu í Fossvogsdal á mánudagakvöld. Eftir það Norway Cup í Osló og Norðurlandamótí Helsinki. Fáeinar myndir frá æfingunni í dag í ónefndu fjölskyldualbúmi.


Aron Elís með unglingalandsliðinu til Finnlands

Aron Elís var í dag valinn í unglingalandsliðið U17, sem tekur þátt í Norðurlandameistaramóti í Finnlandi í fyrstu viku ágústmánaðar. Liðið heldur utan 1. ágúst og kemur heim 9. ágúst. Það er í riðli með Dönum, Finnum og Englendingum (hinir síðastnefndu...

Viktor Jóns markaskorari A-deildar

Viktor okkar Jóns er sem stendur markahæstur í A-deild þriðja flokks. Hann hefur skorað átta sinnum í sjö leikjum eða eitt mark í leik að meðaltali og rúmlega það. Á lista yfir 14 helstu markaskorara A-deildar er Davíð Örn í fjórða sæti með fimm mörk í...

Með stigin öll heim úr Árbænum

Víkingsliðin létu við kvurn sinn fingur á Árbæjarvelli og sigruðu Fylki í báðum leikjum kvöldsins. Víkingum hefur gengið upp og niður á þessum slóðum en í þetta sinn var Víkingssigur í A-leiknum verðskuldaður og sannfærandi en tæpt stóð að halda fengnum...

Fylkisleikir kvöldsins

Fylkismenn eru næstu andstæðingar vorir í Íslandsmótinu. Við hittum þá fyrir á Árbæjarvelli í dag og það verður spilað á ósköp venjulegu grasi. Okkur vegnaði vel síðast, gegn Keflvíkingum í Víkinni. Það viðfangsefni er að baki og nú er um að gera að taka...

« Fyrri síða | Næsta síða »

vikingarnir.blog.is

Frjálst og óháð blogg
Frjálst og óháð blogg
Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband