13.7.2010 | 00:27
Víkingar hefndu ófaranna í bikarleiknum
Víkingar þökkuðu Keflvíkingum kærlega fyrir síðast í Víkinni í kvöld, ekki einu sinni heldur tvisvar. Á föstudagskvöldið stálu Suðurnesjamenn sigri í bikarleik við A-lið Víkings á lokaandartökum framlengingar. Þegar sömu lið mættust í Íslandsmótinu í kvöld var ljóst frá fyrstu mínútu að Víkingar buðu ekki upp á endurtekið efni frá Keflavíkurvelli. Eftir einungis þriggja mínútna leik A-liðanna skoraði Róbert og ekki leið á löngu þar til Keflvíkingar þurftu að hirða boltann aftur úr netinu. Patrík komst þá í gegn, lék laglega á markvörðinn og læddi svo tuðrunni í mannlaust markið.
Staðan 2-0 í hálfleik og í síðari hálfleik bættu Víkingar þriðja og síðasta marki sínu við þegar Viktor vippaði yfir markvörð Suðurnesjamanna. Úrslitin voru þar með ráðin, 3-0, fyllilega sanngjörn.
Keflvíkingar kunnu mótlætinu illa og létu ágæta dómgæslu fara óskaplega í pirrurnar á sér. Nokkrir leikmenn þeirra fengu gul spjöld og þjálfarinn líka. Þegar leið á leikinn hljóp okkar mönnum líka nokkurt kapp í kinn og einn leikmaður og þjálfarinn fengu að að líta gult. Aðstoðarþjálfari Vikings hélt hins vegar ró sinni og tileinkaði sér kynþokkafulla andlitsdrætti á bekknum, sbr. meðfylgjandi mynd.
Leikur B-liðanna var rétt rúmlega hafinn þegar dæmt var víti á Keflvíkinga og Óli Ægir skoraði. Vikingar fengu því óskabyrjun og Agnar Darri styrkti stöðu heimamanna með öðru marki í fyrri hálfleik. Í síðari hálfleik hertu Víkingar skrúfurnar. Þórarinn skallaði yfir markvörð Keflvíkinga og fjórða Víkingsmarkið lagði Agnar Darri upp en Óli Þór kláraði. Þá var staðan orðin 4-0 og skammt til leiksloka. Það fór samt svo að gestirnir komust á blað á elleftu stundu og skoruðu mark sem rangstöðuóþef lagði af en látum þá eiga það í nafni gestrisninnar.
Samanlagt unnu Víkingar því með sjö mörkum gegn einu í þessari umferð Íslandsmótsins og sá munur var síst of mikill. Víkingar hafa oft átt í basli með Keflvíkinga en í þetta sinn mættu bæði Víkingsliðin til leiks í bardagaskapi með blóðugar vígtennur og afgreiddu gestina af Suðurnesjum á fyrstu mínútum beggja leikja.
12.7.2010 | 10:16
Keflavíkurleikir dagsins
Víkingar taka á móti Keflvíkingum í heimaleikjum Íslandsmótsins í dag. Það fer reyndar að flokkast undir daglegt líf eða vanahegðun að spila við Suðurnesjastrákana því á föstudaginn var mættust A-lið Keflavíkur og Víkings í bikarleik í Keflavík og úrslitin voru þess eðlis að Víkingar hafa harma að hefna í dag.
Okkar menn mættu seint í leikinn í huganum og fengu á sig tvö mörk á fyrstu átta mínútunum. Staðan í hálfleik var 2-0 en í seinni hálfleik segir þjálfari vor að hafi verið allt annar bragur á Víkingum. Þeir voru miklu betra liðið og jöfnuðu. Leikurinn var því framlengdur og Víkingar voru mun líklegri til að gera út um leikinn. Samt höfðu heimamenn gæfuna með sér og potuðu boltanum í netið upp úr hornspyrnu alveg í blálokin. Svo fór nú það en tækifæri gefst strax í dag til að þakka Keflvíkingum fyrir síðast.
- A-leikurinn hefst kl. 18:00 í Víkinni, mæting kl. 16:45.
- Hlynur, Villi, Rögnvaldur, Hörður, Sverrir, Patrik, Jón Reyr, Róbert, Davíð, Aron Elís, Viktor, Agnar, Magnús, Ólafur Ægir, Eyþór og Ólafur Andri.
- B-leikurinn hefst kl. 19:45 í Víkinni, mæting kl. 18:45.
- Halldór, Bjössi, Óli Þór, Fjölnir, Bjarki, Jóhann, Gunnar, Emil, Adrian og Steinar.
8.7.2010 | 14:00
Keflavíkurdagar og æfingar
Æfing í Víkinni í dag, fimmtudag, kl. 16:00 og á sunnudaginn verður æfing kl. 12:00 - sú síðasta fyrir leiki við Keflvíkinga í Íslandsmótinu á mánudagskvöld.
Á morgun, föstudaginn 9. júlí, verður hins vegar bikarleikur við Keflvíkinga á heimavelli þeirra, æfingasvæðinu. Bannað að spila á grastökkum.
- Bikarleikur í Keflavík 9. júlí. Rútuferð úr Víkinni, mæting kl. 15:45.
- Hlynur, Villi, Rögnvaldur, Hörður, Sverrir, Patrik, Róbert, Aron Elís, Davíð, Ólafur Ægir, Viktor, Jón Reyr, Agnar, Eyþór, Ólafur Andri, Bjarki.
- Íslandsmótið -Víkin mánudaginn 12. júlí.
- A-leikurinn hefst kl. 18:00 - liðsskipan tilkynnt síðar.
- B-leikurinn hefst kl. 19:45 - liðsskipan tilkynnt síðar.
3.7.2010 | 03:16
Víkingar á heimasíðu Norway Cup
Víkingar í 3. flokki Víkings senda tvö lið á Norway Cup-mótið í Osló í byrjun ágúst, fyrsta og stærsta fótboltamót sinnar tegundar í veröldinni. Víkingur hefur ekki áður tekið þátt í mótinu, eins og kemur fram í frétt á heimasíðu þess. Sindri á Hornafirði er reyndar það félag á Íslandi sem mesta reynslu hefur af Norway Cup og tekur þátt í mótinu í ár. Sömuleiðis senda Grótta og Afturelding lið til Oslóar í ár.
Sjá frétt um þátttöku Víkings á heimasíðu Norway Cup og nú geta Oslóarfarar byrjað á að spreyta sig á norskunni....
2.7.2010 | 22:47
Skin og skúraleiðingar í Garðabæ
Víkingar komu þremur stigum ríkari úr för sinni á Stjörnuvöll í Garðabæí kvöld, A-liðið færði þá björg í búið en B-liðið varð að játa sig sigrað. A-leikurinn endaði 0-3 en B-leikurinn 1-0. Úrslitin voru sanngjörn í báðum tilvikum.
A-liðið hafði yfir í hálfleik 1-0, eftir að Aron Elís hafði leikið á hvern Stjörnumanninn á fætur öðrum, gefið frá sér boltann og Sverrir Hjaltested komið honum (altsvo boltanum) aftur fyrir fætur Arons sem kláraði dæmið.
Eftir hlé var ljóst að Víkingar ætluðu alls ekki að fara tómhentir heim heldur bæta við og það gerðu þeir með bravúr. Viktor Jóns skoraði víðáttuglæsilegt mark af löngu færi og Villi bætti um betur undir leikslok með skoti, líka af löngu færi, þar sem boltinn hátt í boga í átt að Stjörnumarkinu og datt undir slána og inn. Ekkert markanna var ódýrt, þvert á móti. Þau voru öll merkjavara og dýr eftir því.
B-liðið var vængbrotið á Stjörnuvellinum. Í það vantaði stráka sem voru fjarverandi vegna meiðsla eða sumarleyfisferða. Þjálfari vor sat löngum stundum í dag og tók af afboðunum sem að lokum urðu til þess að leita varð til Milosar þjálfara í fjórða flokki til að fá liðsauka og fylla í skörð. Þaðan komu þrír vaskir strákar, Viktor Hugi, Bjarni Páll og Aron Jakobs (þessi röð frá vinstri á meðfylgjandi mynd!) sem spiluðu með liðinu og stóðu sig mjög vel. Milos Milojevic þjálfari mætti meira að segja líka og tók þátt í að stjórna leiknum við þessar sérstæðu aðstæður. Það er ekkert grín að stökkva inn í lið og spila með því án þess að hafa æft svo mikið sem mínútu með því. Þökk sé fjórmenningunum fyrir að við gátum yfirleitt spilað B-leikinn, svo einfalt er það!
Stjarnan var sterkara liðið á vellinum í B-leiknum, engum blöðum um það að fletta, en skoraði samt eitt einasta mark rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. Eftir miðjan síðari hálfleik fóru Garðbæingar að slaka aðeins á en Víkingar að sama skapi að herða sig upp í að sækja og reyna að skora. Þeir voru nálægt því að jafna en tókst ekki. Að tapa 0-1 telst vel sloppið því sóknir Stjörnunnar voru margar og þungar í leiknum og færin eftir því en vörnin hélt og Víkingsmarkvörðurinn var í stuði.
Þrátt fyrir tapið í B-leiknum er niðurstaðan sum sé sú að Víkingur hafi gert það bara býsna gott í Garðabænum! A-liðið er í toppslag í sínum riðli og Víkingar mæta væntanlega sem villidýr á blóðslóð í næsta leik.
30.6.2010 | 15:24
Stjörnuleikir dagsins
Vonandi liggur fyrir Víkingum að gera strandhögg í Garðabæ í dag, í leikjum við Stjörnuna í Íslandsmótinu. Þessum leikjum átti samkvæmt bókinni að vera lokið en var frestað á sínum tíma vegna öskuryks frá Eyjafjallajökli sem lagðist yfir höfuðborgarsvæðið með tilheyrandi afleiðingum fyrir þvott á snúrum og öndunarfæri.
- A-leikurinn hefst á Stjörnuvelli kl. 17:00. Þeir sem mæta kl. 15:45 eru
- Hlynur, Villi, Rögnvaldur, Hörður, Sverrir, Patrik, Róbert, Jón Reyr, Davíð, Aron Elís, Viktor, Ólafur Andri, Ólafur Ægir, Bjarki, Eyþór og Bjössi.
- B-leikurinn hefst á Stjörnuvelli kl. 18:45. Þeir sem mæta kl. 17:45 eru
- Halldór, Daníel, Egill, Fjölnir, Magnús, Agnar, Gunnar, Þórarinn, Adrian, Ólafur Þór og Emil.
18.6.2010 | 22:20
Davíð Örn með fernu gegn Hafnfirðingum
18.6.2010 | 10:29
Leikirnir við FH í kvöld og æfingatímar í sumar
11.6.2010 | 10:42
Með eitt stig heim úr Egilshöll
10.6.2010 | 10:44
Liðin í Fjölnisleikjum kvöldsins
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar