Leita í fréttum mbl.is

Sætur sigur A, súrt tap B

A-lið Víkings vann Fjölni með stæl í Grafarvogi í kvöld með marki sem kom á elleftu stundu eða nánar til tekið á 83. mínútu. Patrik bjargaði þá heiðri okkar manna og þremur stigum í hús með góðu marki. Víkingar gengu sigurreifir til búningsherbergja en heimamenn niðurlútir, efsta lið riðilsins eftir síðustu umferð Íslandsmótsins. Til hamingju með sigurinn, strákar!

B-leikurinn varð hins vegar ekki óskastund fyrir Víking. Liðið byrjaði illa en hresstist verulega við þegar leið á fyrri hálfleikinn og var þá til alls líklegt. Markalaust var í hálfleik.

í síðari hálfleik náðu Fjölnismenn undirtökunum og héldu þeim allan tímann. Þeir skoruðu í tvígang og unnu verðskuldað 2-0. Víkingar áttu þarna óvenju dapran dag í leik sem var afar mikilvægur í toppbaráttu B-riðils en það kemur leikur eftir þennan leik og nú er um að gera að láta gremjuna bitna á Akureyringum á sunnudaginn....

  • Leið A- og B-liða Víkings liggur næst til Akureyrar þar sem þeim er ætlað að mæta Þór síðdegis á sunnudag.  Skemmst er frá að segja að ekki er meira vitað á þessari stundu en það að strákarnir eiga að spila nyrðra. Líklegt er að fenginn verði undir þá rúta til ferðarinnar en það skýrist ekki fyrr en á morgun. Gerum því ráð fyrir að tilhögun ferðarinnar verði tilkynnt á fimmtudagsæfingunni og vonandi hér á heimasíðunni líka, ef umsjónarmanni gefst tóm til símtala við þjálfara vorn og tölvusamskipta við umheiminn á milli sjóskíðaæfinga  á hinu undurfagra Hálslóni.

Fjölnisleikirnir á Íslandsmótinu

Víkingar mæta Fjölnismönnum núna í vikunni í öllum riðlum 3. flokks á Íslandsmótinu. A- og B-liðin spila á morgun, miðvikudag, á Fjölnisvelli en C-liðið á föstudaginn kemur, einnig á Fjölnisvelli.

A-liðið
Mæting á Fjölnisvelli miðvikudaginn 24. júní kl. 17:00
, leikur hefst kl. 18:00.

Kári, Jón Bragi, Aron, Ólafur Ægir, Villi, Jón Reyr, Róbert, Patrik, Óli Pétur, Aron Elís, Viktor Jóns yngri, Einar, Agnar, Rúnar, Rögnvaldur og Hörður.


B-liðið
Mæting á Fjölnisvelli miðvikudaginn 24. júní kl. 18:30
, leikur hefst kl. 19:45.

Halldór, Rúnar, Hörður, Eyþór, Hrafnkell, Rögnvaldur, Haukur Jónsson, Ágúst, Hlynur, Einar, Agnar, Sverrir, Leifur,  Ólafur Geir og Daníel.


C-liðið
Mæting á Fjölnisvelli föstudaginn 26. júní kl. 17:00
, leikur hefst kl. 18:00.

Guðmundur, Konráð, Daníel, Þórarinn, Aron Aust., Magnús, Leifur, Óli Geir, Lárus, Sverrir, Arnar, Tommi, Óli Þór, Sigurður Davíð, Egill og Guðlaugur Helgi.

 


Ólafur Andri fótbrotnaði í bikarleik

Ólafur Andri í leik við KRÓlafur Andri Þórarinsson varð fyrir þvi óláni að fótbrotna í fótboltaleik um helgina. Hann var einn þriggja stráka úr 3. flokki sem spiluðu með 2. flokki í bikarleik gegn Þrótti. Liðsmaður Þróttar tæklaði okkar mann svona líka svakalega að báðar pípur í hægri fótlegg hrukku í sundur.

Þetta er auðvitað mikið áfall fyrir Ólaf Andra og Víkinga því hann hefur sannarlega staðið fyrir sínu í leik eftir leik í þriðja flokki. Nú er þar skarð fyrir skildi en aðalatriðið er auðvitað að hann nái fyrri styrk og heilsu fljótt og vel.

Við sendum Óla Andra baráttukveðjur með ósk um góðan bata og væntum þess að sjá hann hressan á vellinum  þegar hann er orðinn heill heilsu á nýjan leik.

 

Ástæða er til þess að nota tækifærið og segja líka góða frétt af heilsufarinu í 3. flokki. Arnar Sölvi Arnmundsson er nefnilega mættur til leiks eftir átta mánaða fjarveru vegna meiðsla og veri hann hjartanlega velkominn! Hann spilaði fyrsta leikinn eftir þetta langa hlé gegn FH í C-leiknum á Íslandsmótinu á dögunum. Þar fóru Víkingar á kostum og veltu Hafnfirðingum upp úr tjöru og fiðri. Arnar Sölvi var þar góður liðsauki eins og hans er von og vísa.

Ólafur Andri vorið 2009


Davíð Örn kafsigldi Fimleikafélagið

C-lið Víkings krækti í kvöld í fyrstu stigin sín á Íslandsmótinu og það sem stæl. Víkingar tóku FH-inga í bakaríið í Víkinni með sjö mörkum gegn einu og hefðu fyrirhafnarlítið getað sett nokkur í viðbót. Heimamenn klúðruðu nefnilega dauðafærum og markvörður FH, langbesti maður Hafnarfjarðarliðsins, varði nokkrum sinnum mjög vel þrátt fyrir að úrslitin bendi til annars.

Víkingarnir mættu ákveðnir til leiks og spiluðu á köflum skínandi góðan fótbolta. Davíð Örn var í feiknastuði og fór á þvílíkum kostum að þegar komið var fram í síðari hálfleik fóru varnarmenn FH að gjóa augum til himins í hvert sinn sem boltinn barst til Dabba í von um að himnafaðirinn tæki til varna með þeim. En eins og Megas veit manna best býr Guð í garðslöngunni, mamma, og er því frekar á bandi Hauka en FH ef hann þá á annað borð spáir eitthvað í fótbolta í Hafnarfirði.

Davíð Örn skoraði sex af alls sjö mörkum Víkings í leiknum! Hann fór hratt yfir, hafði mikla yfirferð og var klókur og sókndjarfur. FH-ingar réðu hreinlega ekkert við hann. Sverrir Hjaltested náði að komast á blað með því að skora fjórða mark Víkings. Þegar staðan var orðin 7-0 slökuðu Víkingar eilítið á og á lokakaflanum skoruðu Hafnfirðingar flott skallamark upp úr hornspyrnu og þar með voru úrslit ráðin.

Það hefur fátt fallið með C-liði Víkings fram að þessu í Íslandsmótinu og það hefur ekki uppskorið á stundum eins og til var sáð. Í kvöld vann liðið vel fyrir sigrinum sýndi vel hvað í því býr.

C-leikurinn var sá eini sem endaði með Víkingssigri í viðureign við FH-inga á Íslandsmótinu. Hafnfirðingar sigruðu Víkinga 0-5 í leik A-liðanna á þriðjudagskvöldið en leik B-liðanna lauk með jafntefli, 1-1. Gestirnir í Víkinni skoruðu á 17. mínútu en það var ekki fyrr en á 59. mínútu að Víkingum tókst að jafna eftir að hafa vaðið í færum í öllum regnbogans litum.

Næstu leikir Íslandsmótsins eru við Fjölni sem er í efsta sæti í öllum riðlum þriðja flokks. Viðureign B-liðanna er þar einna örlagaríkust því Víkingar eru í öðru sæti riðilsins, einu stigi á eftir Fjölni.


Æfingarnar í dag og um helgina

Næstu æfingar verða sem hér segir:

  1.  Í dag, fimmtudag, kl. 17:30. 
    • Þeir sem spiluðu mest í gær í Keflavík, mæti með hlaupaskó og innanhússkó.
    • Markverðir og þeir sem spiluðu lítið eða ekki neitt mæti með fótboltaskó og hanska. 
    • Þeir sem þetta sjá láti tíðindin berast til annarra í flokknum!
  2. Laugardagur: æfing kl. 10:30.
  3. Sunnudagur: æfing kl. 18:00.

 


Dramatík í B-moll

Skúrir og skin voru í Reykjaneshöllinni á meðan heimsókn Víkinga stóð yfir í kvöld. Heimamenn gáfu gestunum  ekki færi á sér í leik A-liðanna á Íslandsmótinu en í B-leiknum þurftu heimamenn hins vegar að játa sig sigraða. Víkingar tylltu sér um leið í toppsæti riðils síns.

B-liðin buðu upp á flesta þá dramaþætti sem þarf til að gera fótboltaleik skemmtilegan áhorfs: hraða, spennu, flottar leikrispur, dýr mörk, ódýr mörk og rautt spjald.

A-leikurinn endaði með sex marka sigri Keflvíkinga gegn engu og úrslitin segja það sem segja þarf. Heimamenn voru komnir í 2-0 eftir átta mínútur og í hléi var staðan 4-0, verðskuldað. Í síðari hálfleik bættu Keflvíkingarnir við tveimur mörkum og det var det. Suðurnesjamennirnir voru einfaldlega sterkari og vörn Víkings átti dapran dag, einkum í fyrri hálfleik. 

 Strax varð ljóst í B-leiknum að hann yrði ekki endurtekið efni í sögubókum Keflvíkinga. Víkingar byrjuðu með látum og strax á 4. mínútu skoraði Aron Elís þriðjunginn af þrennunni sinni. Viktor Jóns bætti við öðru marki á 17. mínútu með neglu langt utan vítateigs hægra megin í stöng og inn. Aron Elís kom á ný við sögu á 21. mínútu með aronska bombu sem Keflavíkurmarkvörðurinn réði ekkert við.

Eftir þetta var eins og Víkingarnir teldu sér fært að slappa af en það varð auðvitað einungis til að hleypa Keflavíkurliðinu inn á gafl hjá sér. Heimamenn skoruðu á 24. mínútu en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Aðeins mínútu síðar lá boltinn hins vegar löglega í Víkingsmarkinu og staðan í hálfleik var 1-3.

Víkingar juku muninn á 13. mínútu síðari hálfleiks með hraðri og gullfallegri sókn. Einar Sig byrjaði og skipti yfir á Viktor sem lagði fyrir Aron og Elísinn fullkomnaði þrennuna sína.

Nú fór í hönd nýtt slökunar- og kæruleysistímabil Víkings, sem Keflvíkingar nýttu sér eins og þeir framast gátu og lái þeim hver sem vill. Þeir skoruðu á 23. mínútu og aftur á 25. mínútu. Mörkin tvö töldust ekki einu sinni voru gjafavara, Víkingar borguðu ríflega með þeim báðum.

Allt í einu var staðan orðin 3-4 og Keflvíkingar gerðu fleiri árásir á Víkingsmarkið en höfðu ekki árangur sem erfiði að jafna. Svo kom að því að Viktor tætti sig lausan á 71. mínútu og braust í gegn. Hann var rifinn niður utan teigs, Keflvíkingurinn brotlegi var rekinn út af en Víkingar fengu ekkert út úr aukaspyrnunni. Keflvíkingar misstu greinilega nokkurn mátt um stund við þetta áfall en reyndu að kóra í bakkann manni færri. Það voru hins vegar Víkingar sem gerðu út um leikinn með fínu marki Hlyns þremur mínútum áður en leiktíminn rann á enda.

Þetta var þrælskemmtilegur leikur en trúlega hefur ekki verið alveg eins gaman fyrir Keflvíkinga að horfa á hann og gesti úr prestakalli síra Pálma í höfuðstaðnum.  Víkingar áttu sigurinn virkilega skilið en Keflavíkurliðið var samt sterkt og til alls líklegt. Það segir ákveðna sögu að meirihluti fyrri hálfleiks fór fram á vallarhelmingi Víkings þrátt fyrir að markatalan í leikhléi gæti bent til hins gagnstæða.

Einkennilegt var það nú annars að spila innandyra á Suðurnesjum þá sjaldan er logn og blíða þar um slóðir + glampandi kvöldsól......

Sem sagt: Kvöldið byrjaði illa en endaði vel. Amen og halleljúja. 


Leikir A og B í Keflavík

Leikir A- og B-liða Víkings og Keflvíkinga verða í Reykjaneshöll annað kvöld, miðvikudaginn 10. júní. Þessir leikir í Íslandsmótinu voru á dagskrá en var frestað að ósk heimamanna. Gert er ráð fyrir að strákarnir leggi af stað í rútu til Keflavíkur kl....

Hópmynd frá leik Víkings og KR

Réttsýnn og góður dómari í leik C-liða Víkings og KR núna í vikunni, Guðmundur K. Sigurgeirsson, var svo elskulegur að senda heimasíðunni myndir sem Davíð Örn Atlason tók á vélina hans áður en blásið var til leiks. Við kunnum honum að sjálfsögðu bestu...

Víkingsærunni bjargað með fyrsta markinu í tapleik

C-lið Víkings varð fyrst liða félagsins til að keppa á nýja gervigrasvellinum í Víkinni og Einar Sig. skoraði fyrsta markið í leik á vellinum, gegn KR. Víkingar töpuðu hins vegar þessum sögulega leik en Einar bjargaði æru félagsins með því að vera...

Kíkt yfir öxl andstæðinga

Andstæðingar okkar á Íslandsmótinu í sumar halda flestir úti bloggsíðum á Vefnum og tenglar þar að lútandi eru komnir til vinstri hér á síðuna. Stórveldið Breiðablik í Kópavogi hefur sérstöðu. Enga bloggsíðu er að finna í fljótu bragði fyrir 3. flokk...

« Fyrri síða | Næsta síða »

vikingarnir.blog.is

Frjálst og óháð blogg
Frjálst og óháð blogg
Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband