Leita í fréttum mbl.is

Foreldrafundur & ferð á Snæfellsnes

Flokksráð 3. flokks boðar til foreldrafundar í Víkinni á miðvikudaginn kemur, 13. maí, kl. 18:00. Megintilefnið er fyrirhuguð vor- og æfingaferð strákanna til Ólafsvíkur um næstu helgi. Ætlunin er að þeir fari vestur í rútu undir kvöld á föstudag, gisti í grunnskólanum í Ólafsvík í tvær nætur og komi heim á sunnudag. Þjálfarar verða með í för og liðsstjórar úr hópi foreldra líka – sjálfb oðaliðar óskast!


Við gerum ráð fyrir æfingum vestra og leik eða leikjum við heimamenn. Svo verður væntanlega farið í sund og fleira sér til gamans gert – að ógleymdu Evrópusöngvakvöldinu á laugardaginn sem við gerum að sjálfsögðu ráð fyrir að strákarnir muni geta fylgst með.


Áætlaður kostnaður á mann er 10.000 krónur,  innifalið er fargjald með rútunni og matur. Margir eiga fyrir ferðinni í sjóði að nokkru eða jafnvel öllu leyti. Nánar um fyrirkomulagið á foreldrafundinum og í framhaldi af honum.


Fyrirvari þessarar ferðar er vissulega skammur en ástæðan er sú að það blasti við fyrirvaralítið að unnt yrði að færa leiki í Reykjavíkurmótinu um næstu helgi og gera ferðina þannig mögulega yfirleitt.
Á foreldrafundinum gefst sömuleiðis tóm til að spjalla um sparktíð sumarsins: Íslandsmótið og ReyCup. Þetta verður stuttur og snaggaralegur fundur – í það minnsta er það meiningin að teygja ekki lopann heldur afgreiða dagskrármálin meira en góðu hófi gegnir!


Meistaradeildarsamkoma í Víkinni á þriðjudagskvöldið

Allir sem æfa fótbolta í 3. og 4. flokki Víkings eru boðnir velkomnir í Víkina á þriðjudagskvöldið kemur, 5. maí, til að fylgjast með seinni leik Arsenal og Manchester United í Meistaradeild Evrópu. Útsending hefst kl. 18:30. Pítsur og gosdrykkir verða seldir á lágmarksverði. Foreldrar einnig velkomnir!

ManJún hafði betur í fyrri leiknum 1-0 en nú er spurningin hvort Arsenal bítur frá sér í útslitaviðureigninni. Horfum saman á stórleikinn og sköpum sannkallaða Meistaradeildarstemningu í Víkingsheimilinu!

 


B-liðið með titil í sjónmáli eftir sigur dagsins

A- og B-liðin söfnuðu stigum í sarpinn í viðureignum sínum við Fjölni á Reykjavíkurmótinu í dag. B2-liðið var hins vegar að játa sig sigrað í leik við KR.


A-lið Víkings og Fjölnis skildu jöfn 2-2 eftir að Fjölnir hafði verið yfir í hálfleik, 2-1. Fjölnismenn töpuðu þar með dýrmætum stigum í baráttu við Fram um meistaratitilinn og voru svekktir að leikslokum. Víkingar komust yfir í leiknum með marki Ólafs Ægis upp úr aukaspyrnu. Fjölnir jafnaði þegar vel var liðið á hálfleikinn og komst yfir fyrir hlé þegar Víkingar fengu dæmda á sig vítaspyrnu sem skilaði andstæðingnum marki. Minnstu munaði að Fjölnir bætti þriðja markinu við í blálok hálfleiksins þegar einn gulklæddur komst í gegnum Víkingsvörnina en skaut fram hjá.

Óli Pétur náði síðan að jafna með laglegum snúningi framan við Fjölnismarkið í síðari hálfleik og þar með voru úrslitin ráðin. Fjölnismenn reyndu án afláts að knýja fram sigur og oft skall hurð nærri hælum við Víkingsmarkið en jafnteflið var staðreynd. Víkingar fögnuðu vel og máttu vel una við jafnteflið eftir gangi leiksins.


Í B-leiknum komust Víkingar yfir strax á 5. mínútu þegar boltinn barst til Einars Sig út við vítateigshornið vinstra megin og drengur þrumaði viðstöðulaust í fjærhornið svo söng í neti Fjölnismarksins. Hreint gull af marki. Víkingar áttu mun meira í fyrri hálfleiknum og ekki útlit fyrir annað en það yrði tiltölulega þægilegt fyrir þá að landa sigrinum.

Fjölnismenn hertu sig hins vegar upp í seinni hálfleik og Víkingar slökuðu að sama skapi óþægilega mikið á. Lengi framan af seinni hálfleiknum taldist það hreinlega til tíðinda að boltinn bærist yfir á vallarhelming Fjölnis, atgangurinn var allur Víkingsmegin á vellinum. Fjölnir uppskar samt ekki  mark og þjálfari þeirra fór á límingunum á hliðarlínunni. Það var hins vegar Viktor yngri sem bætti við öðru marki fyrir Víking á 69. mínútu leiksins eftir góðan undirbúning Einars Sig. Viktor pressaði markvörð Fjölnis í úthlaupi, komst fram hjá honum og renndi boltanum í mannlaust markið.  Hann hafði fyrr í hálfleiknum komist einn inn fyrir en markvörðurinn náði þá að ota fingurgómunum í boltann og beina honum rétt út fyrir stöng. Í seinna skiptið hafði Viktor betur gegn markmanninum og úrslitin urðu 2-0. 

Sanngjarn sigur Víkings en Fjölnir hefði hæglega geta sett skarð í gleðina. Þannig var dæmd vítaspyrna á Víking á 57. mínútu en sá gulklæddi skaut yfir markið. Á 79. mínútu átti Fjölnir tvö stangarskot í sömu sókninni en inn vildi ekki tuðran. Þá voru hornspyrnur sem Fjölnir fékk í seinni hálfleik álíka margar og hólarnir í Vatnsdal og heimadómari Fjölnis skammtaði sínum mönnum vel af vafasömum aukaspyrnum en hvorki gekk né rak hjá þeim gulu.

Eftir Fjölnisleikinn er B-liðið efst í sínum riðli og í þægilegri stöðu á lokaspretti Reykjavíkurmótsins.

B2-lið Víkings og KR áttust svo við í Frostaskjólinu í dag og þar sigruðu heimamenn 5-2 eftir að vera yfir  2-1 í hálfleik. Agnar Darri skoraði mörk Víkinga. Víkingar mættu ofjörlum sínum í Vesturbænum en munurinn á liðunum var samt ekki sá sem markatölur gefa til kynna. 

 


Leikirnir við Fjölni og KR á morgun

Öll Víkingsliðin eiga leiki í Reykjavíkurmótinu á morgun, laugardaginn 2. maí. A- og B-liðin mæta Fjölni á gervigrasinu við Egilshöll en B2-liðið mætir KR í Frostaskjóli.

  • A-liðið mætir kl. 12:00 á hádegi og byrjar að spila kl. 13:00

Kári, Villi, Jón Bragi, Aron Bj., Rúnar, Jón Reyr, Rögnvaldur, Patrik, Aron E., Óli P., Davíð, Óli Æ., Viktor J. yngri og Einar.

  • B-liðið mætir kl. 13:30 byrjar að spila kl. 14:30

Halldór, Leifur, Hörður, Eyþór, Hrafnkell, Haukur J., Sverrir, Óli A., Óli G. og Tómas.

  • B2-liðið mætir kl. 12:00 á hádegi og byrjar að spila kl. 13:00

Gummi, Konráð, Friðrik, Ágúst, Magnús, Fjölnir, Agnar, Sigurður D., Aron A., Bjarki Þórðar, Lárus, Gulli, Þórarinn, Jón Dan, Egill, Jakob og Haukur I.


Þróttarar lagðir í tvígang í Egilshöll

A- og B-liðin hirtu öll stigin sem í boði voru í leikjunum við Þrótt á Reykjavíkurmótinu í dag en þurftu að hafa umtalsvert fyrir því, einkum í A-leiknum. Víkingar komust þar yfir fljótlega í fyrrihálfleik með góðu marki Patriks eftir góða sendingu frá Robba. Þróttarar jöfnuðu nokkru síðar eftir að Kári varði aukaspyrnu og sló boltann út í teig en Þróttari sem þar var fyrir náði að skalla í netið. Þróttari fékk síðan dauðafæri fyrir hlé en skaut yfir. Eftir hlé skoraði Röggi laglega eftir hornspyrnu Patriks og Robbi átti síðan þátt í þriðja Víkingsmarkinu með sendingu sem Davíð Örn afgreiddi í Þróttarmarkið. í millitíðinni hafði Kári reyndar komið í veg fyrir jöfnunarmark Þróttar með því að verja með stæl  firnafast skot úr aukaspyrnu. Víkingur fékk tækifæri til að komast í 4-1 þegar dæmd var vítaspyrna á Þrótt en markvörðurinn varði spyrnu Robba. Til tíðinda dró síðan þegar Þróttari braut á Víkingi og fékk gult spjald fyrir. Það var hann ósáttur við og missti vald á talfærum sínum. Dómarinn kunni ekki að meta kjaftháttinn og sendi strák af velli með annað gult og þar með rautt. Einum færri náðu Þróttarar svo að minnka muninn í 3-2 með marki sem skrifast á mistök og kæruleysi Víkingsvarnarinnar. Þar með var leikurinn blásinn af og þrjú stig í húsi hjá Víkingi.

Víkingar höfðu undirtökin frá upphafi til enda í B-leiknum. Haukur Jóns skoraði glæsilegt mark af löngu færi rétt fyrir miðjan fyrri hálfleik og þegar átta mínútur voru liðnar af þeim síðari skallaði Ólafur Andri boltann í netið. Nokkrum mínútum síðar skoraði Óli Pétur eftir góðan undirbúning Hauks og þá voru úrslitin í raun ráðin. Þróttarar náðu samt að klóra í bakkann með marki á 68. mínútu og úrslitin urðu 3-1. Sá munur hefði með smáheppni getað orðið meiri því Víkingar fengu dauðafæri í báðum hálfleikjum en skutu fram hjá eða yfir. Eina færi Þróttar í öllum leiknum var hins vegar þegar þeir skoruðu.

Síðasti leikur dagsins var viðureign  Víkings B2 og Fjölnis í Egilshöll. Þar lentu okkar menn undir í fyrri hálfleik og staðan var 0-1 fyrir Fjölni í hléi en okkar menn allt eins líklegir til að bíta frá sér í framhaldinu. Í síðari hálfleik seig hins vegar á ógæfuhliðina og Fjölnismenn bættu við þremur mörkum áður en yfir lauk. Útslitin því 0-4 og gangur leiksins á margan hátt svipaður því og gerðist gegn Þrótti í Laugardal um fyrri helgi.

A-liðið er einhvers staðar um miðbik riðilsins, staðan skýrist þegar úrslit úr leikjum umferðarinnar hafa verið færð inn á KSÍ-síðuna. Fyrir leikinn í dag var Þróttur í efsta sæti í B-riðli en Víkingar eru komnir með jafnmörg stig og Þróttarar með sigrinum í dag og eiga leik til góða - innbyrðis leik Víkingsliðanna tveggja. Víkingur B2 eru því miður áfram án stiga.


Leikirnir við Þrótt og Fjölni

Víkingar leika við Þrótt og Fjölni í Reykjavíkurmótinu á morgun, sunnudaginn 26. apríl, í Egilshöll.

A-liðið mætir kl. 12:00 og leikurinn hefst kl. 13:00:

Kári, Villi, Jón Bragi, Aron Bj. Rúnar, Róbert, Rögnvaldur, Patrik, Ólafur Ægir, Aron Elís, Davíð, Viktor J. Yngri, Einar, Jón Reyr.

 

B-liðið mætir kl. 13:30 og leikurinn hefst kl. 14:30

Halldór, Leifur, Hörður, Eyþór, Hrafnkell, Haukur Jónsson, Hlynur, Óli Pétur, Ólafur Andri, Bjarki Phu, Óli Geir.

 

B2-liðið mætir kl. 14:30 og leikurinn hefst kl. 15:30: 

Rúnar, Konráð, Friðrik, Daníel, Ágúst, Viktor J.eldri, Aron Austmann, Fjölnir, Magnús, Lárus, Sigurður Davíð, Tómas, Guðlaugur, Agnar Darri, Sverrir og Þórarinn.

Gott væri ef Sverrir hefði samband við þá sem ekki fylgdust með boðun hér á síðunni fyrir síðasta leik.


Fimmtudagsæfingunni flýtt

Fimmtudagsæfingin annað kvöld hefst kl. 19:30 á Framvellinum. Hún er með öðrum orðum einum klukkutíma fyrr en venjulega, í tilefni af sumarkomunni.....

Meiri þróttur í Þrótti

Þróttur stóð undir nafni gegn B2-liði Víkings í Laugardalnum í gærkvöld. Heimamenn voru áberandi þróttmeiri á vellinum, einkum þó í síðari hálfleik og uppskáru 3-1 sigur. Markalaust var í leikhléi og síðari hálfleikur lofaði góðu framan af. Víkingur fékk...

Einars dagur Sigurðssonar

Einar Sig. kom við sögu í þremur Víkingsmörkum af fjórum í leikjum kvöldsins við Fjölni á gervigrasinu við Egilshöll á Reykjavíkurmótinu. Hann átti því drjúgan hlut í stigunum sem A- og B-liðið höfðu með sér heim í Fossvoginn. Einar kom inn á í síðari...

B2-leikur gegn Þrótti laugardaginn 18. apríl

Víkingar og Þróttarar eigast við í B2-leik í Reykjavíkurmótinu í Laugardal á morgun, laugardaginn 18. aprí. Mæting kl. 17:30 og leikurinn hefst kl. 18:30. Liðið: Halldór, Þórarinn, Daníel, Magnús Árni, Sverrir, Óli Geir, Lárus Örn, Hlynur, Aron Austmann,...

« Fyrri síða | Næsta síða »

vikingarnir.blog.is

Frjálst og óháð blogg
Frjálst og óháð blogg
Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband