16.4.2009 | 22:43
Leikjum við Fjölni flýtt til föstudagskvölds
A- og B-liðin spila við Fjölni í Reykjavíkurmótinu í Egilshöll annað kvöld, föstudag 17. apríl. Athugið breyttan stað og stund því á heimasíðu KSÍ eru leikirnir skráðir á Fjölnisvelli á sunnudaginn kemur en Fjölnismenn óskuðu eftir að leikjunum yrði flýtt og það varð úr.
- A-liðið mætir í Egilshöll kl. 18:00 og leikur þess hefst kl. 19:00.
- B-liðið mætir í Egilshöll kl. 19:30 og leikur þess hefst kl. 20:30.
Fjölnisliðin eru efst á stigatöflum beggja riðla en þar er samt ekki allt sem sýnist, einkum varðandi B-riðilinn.
Í A-riðli hefur Fjölnir 12 stig á toppnum eftir fimm leiki en Vikingur hefur 4 stig eftir fjóra leiki.
Í B-riðli hefur Fjölnir 11 stig á toppnum að loknum fimm leikjum, Þróttur kemur næstur með 10 stig að loknum fjórum leikjum og Víkingur er með 9 stig að loknum þremur leikjum. Víkingar eru með öðrum orðum með fullt hús stiga og geta að sjálfsögðu styrkt stöðu sína í toppbaráttunni með því að góðum úrsllitum gegn Fjölni.
Áfram Víkingar!
6.4.2009 | 21:17
Æfing í hádeginu á miðvikudaginn
Síðasta æfing 3. flokks fyrir páska verður í Víkinni í hádeginu á miðvikudaginn kemur, 8. apríl. Þetta verður hlaupaæfing eins venjulega á miðvikudögum en bara á öðrum tíma. Mæting kl. 12 á hádegi!
Svo hefst páskafríið langþráða...
Gleðílega páskahátíð, Víkingar góðir!
5.4.2009 | 15:59
Valsarar sendir heim sigraðir
Strákarnir í A-liði Víkings hirtu öll stigin sem í boði voru í leiknum við Val í Reykjavíkurmótinu í dag. Víkingarnir gerðu sér þetta erfiðara en efni stóðu til framan af og fóru illa með tvö dauðafæri í fyrri hálfleik. Að sama skapi klúðruðu eina færinu sem þeir fengu í fyrri hálfleik. Hálfleikurinn var annars tíðindalítill og þófkenndur en þegar einungis ein mínúta var til hlés skoraði Davíð Örn laglegt mark staðan því 0-1 fyrir Víking í hálfleik. Liðnar voru 5 mínútur af seinni hálfleik þegar Hrafnkell skallaði glæsilega í netið, Davíð Örn bætti þriðja markinu við á 33. mínútu síðari hálfleiks og Einar Sig skoraði fjórða og síðasta mark leiksins tveimur mínútum síðar. Úrslitin voru því 0-4 og Víkingar hefðu reyndar getað gert enn betur því þeir klúðruðu einum þremur dauðafærum í seinni hálfleiiknum.
Víkingsliðið vann vel í þessum leik og uppskar í samræmi við það. Öll mörkin voru flott og sérstaklega ber að nefna seinna markið sem Davíð Örn skoraði með skalla. Það var ekkert minna en stórglæsilegt og hefði verið endursýnt að minnsta kosti fimm sinnum á Sky Sport. Vandinn var bara sá að Sky Sport var ekki á vettvangi til að koma þessum tilþrifum Davíðs á spjöld sögunnar.
- Æfingar verða eins og venjulega í kvöld (sunnudag) í Víkinni og á morgun. Þeir sem spiluðu við Val í dag mæta í kvöld ef þeir hafa þrek og nennu til.
- Gunnar Örn gerir sömuleiðis ráð fyrir æfingu á miðvikudaginn fyrir páska en í loftinu liggur að hún verði fyrr en venjulega af því páskar eru að bresta á. Nákvæm tímasetning verður birt hér á síðunni þegar boð berast frá þjálfaranum.
3.4.2009 | 16:39
Leikurinn við Val á sunnudaginn, 5. apríl
A-liðið spilar við Val í Egilshöll á sunnudaginn kemur, mæting þar kl. 12 á hádegi. Athugið breyttan stað því á KSÍ-vefnum er Hlíðarendi nefndur til sögunnar en Egilshöll er það heillin.
Þeir sem boðaðir eru á vettvang: Kári, Vilhjálmur, Jón Bragi, Aron, Rúnar, Ólafur Ægir, Patrik, Jón Reyr, Róbert, Aron Elís, Davíð, Einar Sig., Halldór, Hrafnkell, Leifur og Hörður.
Æfing verður á venjulegum tíma á sunndagskvöldið.
Innbyrðis leik B-liða Víkings er frestað. Það eru svo margir á förum í páskafrí um helgina og verða út um allar trissur, hérlendis og erlendis. Leiknum er sum sé frestað vegna velmegunar í Fossvogi....
23.3.2009 | 17:21
Leiðin að silfrinu í Beijing
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari karlalandsliðsins í handbolta, flytur fyrirlestur um árangursrík markmið og uppbyggingu liðsheildar í hátíðarsalnum í Vikinni mánudagskvöldið 30. mars, kl. 20:00.
Hann fer jafnframt yfir undirbúning landsliðsins og þau lykilatriði sem öðru fremur leiddu til þess að það náði þeim árangri á Ólympíuleikunum í Beijing sumarið 2008 að leika til úrslita og vinna silfurverðlaun.
Sýnt verður margumtalað hvatningarmyndband, sem þjálfarinn notaði til að skapa þá stemningu í landsliðshópnum sem dugði til að sigra Spánverja á Ólympíuleikunum og komast í úrslitaleikinn.
Í lokin verður svo sýnt myndbandsupptaka frá móttöku þjóðarinnar er liðið kom heim frá Kína.
- Fyrirlesturinn ætti að gagnast öllu íþróttafólki,15 ára og eldri.
- Allir Víkingar eru hvattir til að mæta!
15.3.2009 | 17:39
Aron Elís sökkti KR-ingum
Uppskeran á gervigrasinu í Frostaskjóli var tap A-liðsins og sigur B-liðsins í viðureignum dagsins við KR-inga í Reykjavíkurmótinu.
Jafnræði var með A-liðunum og jafntefli hefði þar verið sanngjörn úrslit miðað við gang leiksins. Dómarinn færði hins vegar Vesturbæingum sigurinn á silfurfati með því að gefa þeim aukaspyrnu. Boltinn lenti í varnarmanni Víkings, í handlegg niður með síðunni og út á það gaf dómarinn KR víti sem úr varð sigurmarkið. Úrslitin því 1-0. Þessi leikur verður annars minnisstæður um stund vegna hegðunar leikmanns númer átta í KR-liðinu. Orðbragð og látbragð hanser sem betur fer sjaldgæfur kostur og undarlegt að þjálfari skuli ekki grípa í taumana.
B-liðið okkar fékk á sig mark strax á upphafsmínútunum og var nokkuð vankað næstu mínúturnar þar á eftir. Síðan tók það leikinn að mestu í sínar hendur og sótti býsna stíft en það sem upp á vantaði var að skora! Staðan í hálfleik var sem sagt 1-0 fyrir KR og eftir hlé sóttu Víkingar áfram af krafti. Mark lá í loftinu og það var Viktor Jónsson yngri sem var réttur maður á réttum stað í teignum þegar boltinn rann fyrir fætur honum og drengur mokaði tuðrunni í netið. Nokkru síðar af Jón Reyr felldur í vítateig KR og dómarinn dæmdi umsvifalaust víti. Aron Elís skoraði örugglega og kom Víkingum yfir. Gamlir taktar tóku sig síðan upp á Aroni. Hann skoraði þriðja mark Víkings strax eftir vítið og fullkomnaði þrennuna þegar langt var liðið á leikinn.
Úrslitin urðu 1-4 fyrir Víking og markatalan segir aðeins hálfa söguna um gang mála á vellinum, Víkingssigurinn hefði klárlega getið verið stærri. Strákarnir unnu mjög vel og héldu KR-ingum í skefjum. B-liðið hefur þar með sigrað í þremur fyrstu leikjunum í Reykjavíkurmótinu og er í toppbaráttunni í sínum riðli.
15.3.2009 | 03:34
Leikir við KR
20.2.2009 | 20:34
Leikirnir við ÍR og KR á sunnudaginn
15.2.2009 | 19:10
Sigur, jafntefli og tap í sunnudagsleikjum
14.2.2009 | 18:04
Sunnudagsleikir við Fylki og ÍR
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar