25.9.2008 | 19:45
Viggó Briem kvaddur með virktum
Viggó Davíð Briem, þjálfari 4. flokks Víkings 2007 og 2008, var kvaddur með tárum og trega á samkomu í Víkinni í kvöld. Þangað fjölmenntu iðkendur og foreldrar til að þakka honum frábært samstarf og samveru innan og utan vallar.
Viggó hefur verið ráðinn þjálfari hjá FH í Hafnarfirði. Honum fylgja innilegar óskir um farsæld og frama í Kaplakrika - í von um að við fáum að sjá hann sem fyrst aftur ,,heima" í Víkinni!
Þjálfarar koma og fara en þessi vistaskipti Viggós marka vissulega ákveðin kaflaskil hjá Víkingi. Hann 26 ára gamall, fæddur og uppalinn Víkingur og hefur verið viðloðandi þjálfun hjá félaginu í 13 ár - helming ævi sinnar! Þannig hefur kappinn snuddað í kringum strákana í 1994-árgangnum í átta ár, þar af tvö hin síðustu sem aðalþjálfari þeirra.
Viggó er drengur góður og vinsæll eftir því. Hann var leystur út með gjöfum, hlýjum orðum og faðmlögum á kveðjusamkomunni.
Bjartmar Bjarnason, drifkraftur í foreldraráði 4. flokks af hálfu foreldra strákanna úr '94-árgangnum, hafði frumkvæði að samkomunnni í kvöld og verðskuldar miklar þakkir fyrir það og starf sitt yfirleitt í þágu 4. flokks. Bjartmar tilkynnti í kvöld að hann gæfi ekki kost á sér til setu í foreldraráði á næsta tímabili.
Strákarnir úr 1994-árgangi flytjast nú upp í 3. flokk en 1995-strákarnir verða í ,,eldri deild" flokksins og upp í 4. flokk kemur stór árgangur stráka úr 1996-árgangnum.
Munnmælasögur ganga um að ráðinn hafi verið þjálfari fyrir 4. flokk en það fæst ekki staðfest á æðri stöðum. Þjálfaralaust er enn í 3. flokki, eftir því sem næst verður komist.
Systa afhenti Viggó körfu með ýmsu fínerí frá foreldrum og iðkendum. Hér eru þau með strákunum úr 4. flokki sem mættu á samkomuna í kvöld.
- Fleiri kveðjumyndir Ath. að smella á þær tvisvar til að stækka almennilega!
21.9.2008 | 19:19
Sparktíðarlok 4. flokks fimmtudaginn 25. september!
Lokasamkoma 4. flokks verður í Víkinni á fimmtudaginn kemur, 25. september, kl. 18:00-19:00!
Við ætlum einfaldlega að koma saman stundarkorn til að gleðjast og líta um öxl í tilefni af því að nú verður stokkað upp í yngri flokkum knattspyrnudeildar Víkings. Strákarnir í 1994-árgangnum færast upp í 3. flokk á vit nýrra ævintýra á næsta ári og 1995-árgangurinn færist upp í eldri deild í nýjum 4. flokki.
Síðast en ekki síst komum við saman til að kasta kveðju á þjálfarann ástæla, Viggó Davíð Briem, sem fann sér nýjan starfsvettvang í Kaplakrika í Hafnarfirði. Hann hefur komið við sögu margra stráka úr 4. flokki nánast frá því þeir byrjuðu að sparka tuðru á stubbaárum sínum og þjálfaði auðvitað fjölda annarra stráka í Víkingi.
Mikilvægt er því að foreldrar og iðkendur mæti í Víkina á fimmtudaginn til stuttrar en laggóðrar samkomu fyrir kvöldmatinn á heimilunum!
Við gengum út frá því að Viggó karlinn yrði kvaddur með virktum og viðurkenningu á lokasamkomu barna- og unglingaráðs Víkings og/eða á sjálfri uppskeruhátíð knattspyrnudeildar Víkings um nýliðna helgi. Það var ekki gert og er mjög miður. Fjórði flokkur ætlar hins vegar ekki að klikka á því sem telst siðaðra manna háttur.
18.9.2008 | 16:40
Fótboltaveisla í Víkinni
Uppskeruhátíð knattspyrnudeildar Víkings verður í Víkinni á laugardaginn kemur, 20. september. Þá lýkur sparktíð yngri flokkanna og meistaraflokkur mætir Fjarðabyggð í lokaleik sínum í 1. deild í ár. Á laugardagskvöld verður svo foreldradjamm í Víkinni.
Dagskráin er annars sem hér segir:
- Kl. 11:15 Kynning á starfsemi barna- og unglingaráði knattspyrnudeildar 2008.
- Kl. 12:00 Viðurkenningar.
- Kl. 12:30 Skemmtiatriði.
- Kl. 13:00 Spjall & léttar veitingar.
- Kl. 14:00 Víkingur-Fjarðabyggð.
- Kl. 21:00 Foreldradjamm.
15.9.2008 | 11:28
Silfurborgaraveisla við Steinagerði
Strákarnir í B-liðinu fögnuðu silfrinu á Íslandsmótinu í mikilli veislu sem Guðrún, Bjartmar og Konráð Logi buðu til í Steinagerðinu í gærkvöld. Grillaðir voru hamborgarar eins og hver gat í sig látið með öllu tilheyrandi og horfðu menn á bíómynd. Húsráðendur bættu svo enn um betur með dýrindins súkkulaðikökum og rjóma í lokin.
Guðmundur Hjaltason mætti í garðinn að góðra granna sið og ávann sér seturétt í hófinu með því að færa grillmeisturum og veisluhöldurum rautt í glas. Og granninn góði leysti að auki Viggó út með flösku af freyðandi góðmeti í viðurkenningarskyni fyrir gustukaverk sín í 4. flokki.
Veislan var afar velheppnuð og húsráðendum í Steinagerði til mikils sóma. Ljómandi góður og viðeigandi endir á góðum degi.
Einhvern næstu daga lýkur sparktíðinni formlega með samkomu 4. flokks í Víkinni og síðan tekur við þriðja flokks tilvera með nýjum þjálfara, hver svo sem það verður. Legið hefur í loftinu um skeið að Björn Bjartmarz myndi þjálfa áfram 3. flokk karla en um helgina spurðist út að hann færi upp í 2. flokk. Fyrir lægi því að fylla þjálfaraskarð í 3. flokki.
14.9.2008 | 14:06
B-liðið með silfur á Íslandsmótinu
Fjölnir fagnaði Íslandsmeistaratitli B-liða 4. flokks eftir að hafa lagt KR 1-4 í Frostaskjóli í dag. Á sama tíma sigruðu Víkingar Þór frá Akureyri örugglega 6-0 í Víkinni og uppskáru silfurverðlaun á Íslandsmótinu frá fulltrúa KSÍ að leik loknum. Til hamingju með daginn, strákar!
Víkingar sýndu Akureyringum mikla gestrisni í dag. Heimamenn réðu lögum og lofum á vellinum frá upphafi til enda, óðu í færum en skoruðu samt ,,aðeins" sex mörk.
Viktor og Siggi skoruðu í fyrri hálfleik sitt markið hvor, Viktor bætti við þriðja markinu fljótlega eftir hlé, síðan skoruðu Þórsarar glæsilegt sjálfsmark, þá kom mark dagsins frá Rögga: þrumuskot langt utan af velli sem markvörður Þórs átti ekki möguleika verja og Ólafur Andri átti svo sjötta og síðasta Víkingsmarkið.
Úrslitakeppnin varð uppgjör Fjölnis og Víkings, hvorki KR né Þór áttu þar möguleika á að nálgast toppinn. Úrslit réðust því í raun í gær, í leik Fjölnis og Víkings í Grafarvogi og þar höfðu heimamenn betur, 5-3.
13.9.2008 | 16:16
Fjölnir með bikarinn innan seilingar
Fjölnir fór langleiðina með að tryggja sér Íslandsbikar B-liða í 4. flokki með því að sigra Víking með fimm mörkum gegn þremur í Grafarvogi í dag. Í hálfleik var jafnt á komið með liðunum, 2-2. Fjölnir komst yfir snemma leiks með marki beint út aukaspyrnu. Víkingar voru í önnum við að stilla upp varnarvegg þegar dómarinn flautaði og Fjölnismaður þrumaði í netið án þess að Víkingar fengu rönd við reist. Víkingar jafnaði stundarkorni síðar með marki af ódýrari gerðinni. Saklaus bolti rúllaði frá Sigga að Fjölnismarkinu og markvörður hugðist hreinsa frá en hitti ekki og þurfti að horfa á eftir tuðrunni skoppa yfir marklínuna. Fjölnir komst yfir á nýjan leik nokkru síðar en Viktor jafnaði með glæsilegu skoti af löngu færi í blálok hálfleiksins.
Viktor kom aftur við sögu í byrjun síðari hálfleiks þegar hann skoraði eftir sendingu frá Óla og fínt samspil Víkings upp völlinn. Gleðin var hins vegar skammvinn því rétt eftir þetta komst Fjölnismaður einn í gegn, Halldór Víkingsmarkmaður kastaði sér fyrir fætur hans og fékk dæmt á sig víti. Fjölnir jafnaði í 3-3 úr vítaspyrnunni. Eftir þetta var eins og slokknaði á Víkingsliðinu og Fjölnir gekk á lagið, splundraði vörninni aftur og aftur og uppskar tvö mörk til viðbótar. Niðurstaðan því 5-3 fyrir Fjölni og sanngjarn sigur þegar á heildina er litið.
Víkingar léku undan vindi í fyrri hálfleik en notfærðu sér ekki þá stöðu sem skyldi. Fremstu menn léku of aftarlega og náðu lítið að nýta sér sendingar fram á völlinn. Fjölnismenn voru hins vegar mun glúrnari við að nýta sér meðvindinn í síðari hálfleik. Fjölnir var þar að auki einfaldlega sprækari en Víkingur í síðari hálfleik og uppskar í samræmi við það.
Konráð Logi var borinn af leikvelli í síðari hálfleik og er væntanlega til skoðunar og meðferðar á slysadeild þegar þetta er skrifað. Hann varð fyrir grófri árás Fjölnismanns alveg út við hliðarlínu á miðjum vellinum. Hvorki dómari né línuvörður sáu hins vegar atvikið og árásarmaðurinn rölti því óáreittur og ligeglad inn á völlinn aftur á meðan stumrað var yfir Konna. Verulega ljótt brot og árásarmanninum til vansæmdar.
- Síðasti leikur Víkings í úrslitahrinunni er við Þór frá Akureyri í Víkinni kl. 12:00 á morgun, sunnudag. Þór og tapaði fyrir Fjölni í gær 0-7 og gerði jafntefli við KR í dag 1-1.
13.9.2008 | 01:41
Haukar Íslandsmeistar A-liða
12.9.2008 | 19:46
KR lagt í fyrsta B-úrslitaleiknum
7.9.2008 | 15:59
Fjölnisdagur í Víkinni
6.9.2008 | 17:19
Tap fyrir HK og draumurinn (nánast) úti
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar