Leita í fréttum mbl.is

Öruggur sigur á Ægi/Hamri

A-liðið sigraði Ægi/Hamar, sameiginlegt lið stráka úr Hveragerði og Þorlákshöfn, örugglega í fyrsta leik útslitarimmu Íslandsmótsins með fimm mörkum gegn tveimur á aðalvellinum í Víkinni. Í leikhléi var staðan 2-0 Víkingi í vil. Óli Pétur skoraði fyrsta markið eftir furðulegan og ótrúlegan vandræðagang og klúður í vörn andstæðinganna. Það gerðist strax á 7. mínútu. Undir lok fyrri hálfleiks bætti Aron Elís við flottu marki með skalla eftir klassafyrirgjöf Patriks. Aron bjó til annað mark í byrjun síðari hálfleiks þegar hann lék á hvern andstæðinginn á fætur öðrum og Davíð Örn rak svo endahnútinn. Davíð skoraði svo tvö mörk í viðbót í hálfleiknum og þar með voru Víkingsmörkin orðin alls fimm talsins. Ægir/Hamar lagaði stöðu sína á 41. mínútu síðari hálfleik og enn frekar á 56. mínútu þegar dæmt var víti á Víking og úr varð mark.

Víkingar höfðu undirtökin í þessum leik frá upphafi til enda og engin spurning hverjar lyktir yrðu. Mikilvægt er hins vegar að draga ekki ályktanir umfram tilefni af úrslitunum í dag því ætla má að Ægir/Hamar sé slakasta liðið í keppninni. HK og Fjölnir verða vafalaust mun erfiðari andstæðingar og Víkingar verða því að spila miklu betur í næstu leikjum til að eiga möguleika á að komast í sjálfan úrslitaleikinn á föstudaginn kemur. 

  • Leikur Víkings og HK verður í Fagralundi í Kópavogi á morgun, laugardag, kl. 15:00 og sá þriðji og síðasti í Víkinni gegn Fjölni á sunnudaginn kl. 14:00.

Áfram Víkingur!


Úrslitastundin nálgast - fyrsti leikur kl. 16:30, ekki 17:00!

Bæði A- og B-lið Víkings taka þátt í úrslitarimmu Íslandsmóts 4. flokks núna í september. B-liðið lagði Fjölni frækilega á föstudaginn var á útivelli 2-4 og hirti þar með efsta sætið í riðlinum af Þrótti. Önnur B-lið í úrslitum eru Fjölnir, KR og Þór á Akureyri. Þessi lið takast á 12.-14. september.  B-lið Víkings og Þróttar enduðu jöfn að stigum í riðlinum en okkar menn höfðu efsta sætið á betra markahlutfalli. Í lokaleiknum gegn Fjölni skoraði Viktor í tvígang, Siggi skoraði einn og Röggi eitt.

Í úrslitum A-liða spila Víkingur, HK, Fjölnir og Hamar/Ægir úr Þorlákshöfn hér syðra um næstu helgi en Breiðablik, Völsungur, Haukar og Þór á Norðurlandi á sama tíma. Sigurvegar á hvorum stað mætast síðan í úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn föstudaginn 12. september.

Víkingar halda sig í Fossvogsdal í öllum leikjunum, tvisvar í eigin ranni en einu sinni hjá grönnunum Kópavogsmegin:

  • Víkingur-Ægir/Hamar: Víkin, föstudaginn 5. september kl. 16:30. Ath. breyttan leiktíma!!).
  • HK-Víkingur: Fagralundur, laugardaginn 6. september kl. 15:00.
  • Víkingur-Fjölnir: Víkin, sunnudaginn 7. september kl. 14:00.

 Í úrslitarimmu B-liða viku síðar eiga Víkingar líka tvo heimaleiki og einn leik í Grafarvogi:

  • Víkingur-KR: Víkin, föstudaginn 12. september kl. 17:00.
  • Fjölnir-Víkingur: Fjölnisvöllur, laugardaginn 13. september kl. 14:00.
  • Víkingur-Þór: Víkin, sunnudaginn 14. september kl. 12:00.

Hafnarfjarðarbrandari í B-moll

IMG 6865B-liðið bjargaði andliti Víkings í leikjum dagsins við Hauka og það svo um munaði. Hafnfirðingarnir voru einu sæti ofan við Víkingana á stigatöflunni fyrir leik en þeir fóru heim úr Fossvoginum með 11 mörk á bakinu og þurftu að láta Víkingi eftir annað sæti í riðlinum. Nú stendur B-liðinu til boða að fara í úrslitakeppnina í september en eini þröskuldurinn á þeirri leið er Fjölnir 2 og úrslit ráðast á Fjölnisvelli næstkomandi föstudag kl. 17:00. Spili B-liðið þá eitthvað í líkingu við það sem það gerði í dag verður Fjölnir engin fyrirstaða því strákarnir fóru hreint á kostum í dag og augljóst að Hafnfirðingarnir voru engan veginn búnir undir að lenda í slíkri hakkavél í Víkinni. Fyrstu mínúturnar voru upphitun fyrir það sem koma skyldi: tvö dauðafæri Víkings sem fóru forgörðum og skot í stöng. Svo byrjaði ballið með því að Haukur Jóns þrumaði á Haukamarkið af löngu færi, markvörðurinn varði en missti blautan, sleipan boltann yfir sig og í netið. Svo röðuðu Víkingarnir inn mörkum á færibandi og í leikhléi var staðan 6-0. Eftir hlé bættu þeir fimm mörkum í safnið og Haukarnir voru þeirri stundu fegnastir þegar dómarinn blés til merkis um að heimsókninni í Fossvog væri lokið.

Ólafur Andri, Röggi og Viktor skoruðu sína þrennuna hver, Haukur Jóns setti sem fyrr segir eitt og Lalli eitt. Og nú er ekkert sem heitir: Víkingur B SKAL í úrslitakeppnina með sigri á Fjölni 2 á föstudaginn!

A-lið Víkings tryggði sig inn í úrslitakeppnina í Garðinum síðastliðinn laugardag og hafði því ekki að öðru að keppa en heiðrinum og því að koma í veg fyrir að Haukar færu í gegnum riðilinn með fullt hús stiga. En Hafnfirðingarnir sýndu það að þeir eru vel að toppsæti riðilsins komnir, öflugir og vel spilandi. Víkingar voru reyndar afar rausnarlegir við gestina í fyrri hálfleik og auðvitað þiggja menn úr öðrum héruðum ódýr mörk þegar þau bjóðast. Staðan var 0-2 í hálfleik en í síðari hluta síðari hálfleiks fóru Víkingar loks að þjarma að gestunum. Aron Elís náði þá að skora laglegt mark, stöngin inn, en lengra náðu þeir ekki þrátt fyrir mikla pressu á Haukamarkið á síðustu mínútunum. Víkingar höfðu áður skorað í tvígang en hvorugt markið fékk náð fyrir augum dómarans vegna rangstöðu. Þá  bjargaði Eyþór á línu í síðari hálfleik. Leiknum lyktaði sum sé með einu marki gegn tveimur og verður að segjast að Hafnfirðingar unnu fyrir stigunum sínum. A-lið Víkings horfir hins vegar fram á veginn og á í vændum erfiða leiki í úrslitum Íslandsmótsins í september. B-liðið verður vonandi í sömu stöðu eftir föstudagsleikinn við Fjölni 2. Áfram Víkingur!


Óli Ægir á öðrum fæti

IMG 6886Ólafur Ægir var fjarri góðu gamni í leiknum við Hauka, hoppandi um á öðrum fæti við hliðarlínuna með hækjur sér til halds og trausts. Hann hefur búið við bilað hné í sumar en látið sig hafa að spila hvern leikinn á fætur öðrum með tilheyrandi verkjum og þrautum. Nú hafar læknar lýðveldisins krukkað í auma hnéð hans Óla og hann mun því ekki sjást meira í leikjum tímabilsins. Koma tímar og koma leikir. Láttu þér batna, strákur.


Komnir í úrslitakeppni Íslandsmótsins

A-liðið burstaði Víði/Reyni í dag með níu mörkum gegn engu og tryggði sér þar með annað sæti í riðlinum og rétt til að taka þátt í úrslitarimmu Íslandsmótsins í haust. Leikið var í slagveðursrigningu á Garðsvelli og aðstæður voru í samræmi við það. Engu að síður var það gestunum úr höfuðstaðnum heiður að spila á þessum velli sem á sinn sess í sögu Víkings því einmitt á Garðsvelli tryggðu Víkingar sér Íslandsmeistaratitil í knattspyrnu árið 1991 með 1-2 sigri. Og það var sjálfur Björn Bjartmarz sem kom inn á og skoraði sigurmarkið, verðandi þjálfari Víkingsstrákanna sem voru þarna á ferð í dag.

Leikurinn fór allur fram á vallarhelmingi heimamanna. Markverðir Víkings snertu boltann einu sinni í fyrri hálfleik og tvisvar í þeim síðari, í öll skiptin eftir sendingar frá samherjum. Heimamenn buðu ekki upp á aðra dómgæslu en þá að þjálfari andstæðinga okkar sæi um þá hlið mála og sá flautaði leikinn af þremur mínútum áður en leiktíminn átti raunverulega að renna út. Sennilega hefur hann ekki viljað senda lærisveina sína heim með tveggja stafa markatölu á bakinu. Hann bætir svo um betur, blessaður karlinn, með því að snuða Víking um eitt mark í leikskýrslunni til KSÍ. Þar kemur fram að mörkin hafi einungis verið átta en þau voru sannarlega níu, skráð samviskusamlega niður í skýli Víkings og tímasetningar sömuleiðis.

Markaskorunin í dag dreifðist á sjö leikmenn. Agnar Darri og Davíð Örn skoruðu tvö hvor, öll í fyrri hálfleik. Í síðari hálfleik skoruðu Óli Pétur, Sverrir, Arnar Sölvi, Robbi og Villi hver sitt markið og sum hver býsna lagleg, ekki síst neglan frá Arnari Sölva sem hann kom réttu megin við fjærstöng úr þröngu færi nálægt endamörkum.

Lokaverkefni A-liðsins í riðlinum er heimaleikur við Hauka á miðvikudaginn kemur, 27. ágúst kl. 17:00. Hafnfirðingarnir hafa farið glæsilega í gegnum Íslandsmótið og sigrað í öllum tíu leikjum sínum. Þeir ætla sér að sjálfsögðu að klára riðilinn með fullu húsi stiga en Víkingar vilja á hinn bóginn rjúfa skarð í þá gleði í Víkinni á miðvikudaginn.

Víkingar hafa skorað langflest mörk allra liðanna í riðlinum, að Haukum meðtöldum, og hafa hagstæðasta markahlutfallið. Sigur á Haukum í lokaleiknum yrði góður endur á riðlakeppninni og ágætis upphitun fyrir úrslitakeppnina.

IMG 6757

FH-ingar hafa ráðið danskennara úr Fossvogi til starfa í vetur. Sá  tók fáein sýnisspor í leikhléi í Garði við misjafnar undirtektir. Sumir áhorfendur kusu að lýsa hughrifum sínum með því að rífa í hár sér af skelfingu.


Stigalausir Leiknismenn og þjálfarinn með rautt spjald

Víkingar áttu góðar stundir á heimavelli sínum í Fossvogi í dag þegar Leiknismenn komu í heimsókn til að spila A- og B-leiki í Íslandsmótinu. Víkingsliðin skiluðu öllum stigum úr viðureignunum heim í hús og styrktu þannig stöðu sína í toppbaráttunni í riðlum sínum.

A-leikurinn endaði 5-2 (staðan 4-0 í leikhléi). Ólafur Ægir skoraði úr aukaspyrnu strax á upphafsmínútunum, Robbi bætti marki við og Davíð Örn setti síðan tvö í röð fyrir hlé. Leiknismenn skoruðu fljótlega í síðari hálfleik og löguðu síðan stöðu sína enn frekar með marki úr vítaspyrnu. Lengra komust þeir ekki og Patrik kvaddi þá síðan með fimmta og síðasta markinu áður en yfir lauk.

Til tíðinda dró í síðari hálfleik þegar þjálfari Leiknis fór á límingunum og heimtaði að dómarinn vísaði markverði Víkings af velli fyrir brot. Dómarinn virti þá ósk að vettugi. Edspaðist þá þjálfarinn og spurði dómarann hvort hann væri þroskaheftur! Slíkur bjánagangur á auðvitað hvorki heima innan vallar né utan og dómarinn svaraði dómgreindarbrestinum snarlega með því að draga upp rauða spjaldið og reka þjálfarann af vettvangi.

B-leikurinn var sjötíu mínútna einstefnuakstur að Leiknismarkinu. Í hálfleik höfðu Víkingar skorað fimm mörk gegn engu og bættu svo fjórum við eftir hlé. Lokatölur því 9-0 og sá munur var síst of stór miðað við gang mála.

Viktor karlinn var í banastuði og skoraði fimm sinnum, það er að segja meira en helming Víkingsmarkanna! Siggi skoraði tvö, Agnar Darri eitt og Ólafur Andri eitt.

  • Nú sígur á síðari hluta Íslandsmótsins og liðin eiga þar einungis tvo leiki eftir. Á laugardaginn kemur, 23. ágúst fer A-liðið suður á Reykjanes og mætir liði Víðis/Reynis á Garðsvelli kl. 14:00. Síðasti leikurinn í mótinu er svo gegn Haukum í Víkinni kl. 17:00 miðvikudaginn 27. ágúst. Það verður rosaleg rimma enda Haukarnir efstir í riðlinum og hafa unnið alla leiki sína til þessa. Víkingar ætlar að setja skarð í þá gleði Hafnfirðinga í lokaviðureigninni.
  • B-liðið á líka síðasta leik Íslandsmótsins í Víkinni 27. ágúst, gegn Haukum kl. 18:30. Með sigri þar setja Víkingar Hafnfirðingana væntanlega örugglega aftur fyrir sig á stigatöflunni.

Mosfellingar teknir í kennslustund

Víkingsliðin rúlluðu yfir Aftureldingu í báðum leikjum Íslandsmótsins í dag. Úrslit A-leiksins urðu 1-7 en 1-9 í B-leiknum! Nú verður ekkert gefið eftir, bæði liðin ætla sér í úrslitakeppnina í haust. Fyrirfram var búist við jöfnum hörkuleik og fyrstu...

Öruggur markasúpusigur í Grindavík

A-liðið sótti þrjú stig til Grindavíkur í dag og þurfti að hafa nokkuð fyrir þeim framan af. Leikið var á aðalkeppnisvelli bæjarins við bestu hugsanlegu aðstæður. Sjálfur völlurinn er skínandi góður og flottur, sólin skein og varla hreyfði vind. Aron...

Leiknisleik frestað til 20. ágúst - Grindavík næst hjá A-liði

Næsta verkefni A-liðsins í Íslandsmótinu er leikur við Grindvíkinga á heimavelli þeirra á morgun, þriðjudaginn 12. ágúst, kl. 17:00. Skammt er stórra högga á milli því strax á föstudaginn kemur, 15. ágúst, eiga bæði liðin útileiki gegn Aftureldingu í...

Nú lágu Danir í því

Víkingur 1 hirti bronsverðlaunin í A-liðum 4. flokks á ReyCup eftir að sigrað danska liðið Herfölge sannfærandi með tveimur mörkum gegn einu. Víkingur varð þar með efst íslenskra A-liða á mótinu í 4. flokki og kom í veg fyrir að útlend lið einokuðu...

« Fyrri síða | Næsta síða »

vikingarnir.blog.is

Frjálst og óháð blogg
Frjálst og óháð blogg
Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband