26.7.2008 | 21:23
Vonandi kl. 12:00; alla vega Baunar
Hálsar góðir, það eru bullandi misvísandi upplýsingar nú síðla laugardalskvölds á heimasíðu ReyCup varðandi leikinn um bronsið í A-liðum. Það virðist samhljóða álit mótshaldara að leikurinn sé kl. 12 á hádegi við Suðurlandsbraut (ekki kl. 13:00 eins og fyrr var talað um). Hins vegar er ekki nokkur leið að átta sig á hvort Víkingar eigi að spila við FIF/1909 eða Herfölge frá Danmörku. Það er svo sem ekkert úrslitamál en þegar laugardagskvöldið líður yfir mótshaldara sjá þeir lítinn mun á dönsku liðunum. Frá okkar bæjardyrum séð eru andstæðingarnir hins vegar Baunar og við mætum til að bauna á þá....
Mótið sem slíkt er flott og fínt en upplýsingamiðlunin varðandi leiki og úrslit er hreinn skandall. Mótshaldarar ættu að fara á námskeið hjá KA á Akureyri vegna N1-mótsins. Þar eru hlutir á hreinu, fljótt og vel. Þetta sem ReyCup-haldarar bjóða upp á er ekki boðlegt.
26.7.2008 | 16:44
Víkingur 1 mætir FIF/1909 á nýjan leik - í baráttu um bronsið!
Víkingur 1 játaði sig sigraðan í undanúrslitaleik við Hansa Rostock frá Þýskalandi í dag og spilar við FIF/1909 frá Óðinsvéum um þriðja sætið kl. 12:00 á morgun, sunnudag, á vellinum við Suðurlandsbraut. Víkingar töpuðu fyrir þessu danska liði í gær 0-3 og eiga því harma að hefna. FIF/1909 tapaði í dag 1-4 fyrir löndum sínum frá Herfölge í hinum undanúrslitaleik A-liðanna. Hansa Rostock og Herfölge keppa því til úrslita á morgun en Víkingur og FIF/1909 um bronsið.
Víkingur 2 tapaði fyrir Val í átta liða úrslitum í morgun. Víkingur 3 vann hins vegar í tvígang í dag. Úrslit laugardagsleikjanna urðu því sem hér segir:
- Víkingur 1 - ÍBV: 2-0
- Víkingur 1 - Hansa Rostock: 3-4.
- Víkingur 2 - Valur: 1-2.
- Víkingur 3 - Breiðablik: 6-1.
- Víkingur 3 - ÍA: 3-1.
Óhætt er að segja að Valsmenn hafi sett Víking 2 í kalda morgunsturtu því þeir skoruðu í tvígang í fyrri hálfleik án þess að okkar menn svöruðu fyrir sig. Markaskorarinn í seinna skiptið var reyndar kolrangstæður en dómarinn virtist ekki hafa rangstöðureglur í fótbolta á hreinu og lét markið standa. Haukur Jóns skoraði eina markið í seinni hálfleik og þvílíkt mark! Hann lét vaða utan vítateigs og skotið var svo fast að boltinn þandi út netmöskvana og sat þar sekúndubrot áður en hann féll til jarðar. Það verður að segjast með sanni að betra liðið tapaði í þetta sinn en það er víst ekki nóg að stjórna leiknum, mörkin telja og ekkert annað!
Víkingur 3 hefur heldur betur komist á sigurbraut á ReyCup eftir slaka byrjunarleiki. Í dag byrjaði liðið á því að taka Blika í nefið og lögðu síðan Skagamenn sannfærandi. Markaskorarar í fyrri leiknum voru Andri (2 mörk), Hörður, Pétur, Jökull Starri og Ási. Andri og Ási sáu svo um að skjóta Skagamenn í kaf með tveimur mörkum Andra og einu frá Ása. Flottur dagur hjá strákunum.
Víkingur 1 komst í fjögurra liða úrslitin með því að sigra Eyjamenn í morgun. Liðið þurfti að hafa talsvert fyrir sigrinum og var þar aðallega að glíma við sjálft sig frekar en andstæðinginn. Það var morgundoði yfir drengjunum lengst af í leiknum en þeir skiluðu því sem máli skiptir, sigri. Robbi skoraði í fyrri hálfleik og Óli Ægir í þeim síðari.
Víkingur 1 er eina íslenska A-liðið í fjögurra liða úrslitum, ásamt tveimur dönskum liðum og einu þýsku. Hansa Rostock hafði farið í gegnum mótið með stórum og auðveldum sigrum í hverjum leik en þeir þurftu verulega að hafa fyrir hlutunum í viðureigninni við Víking og reyndar höfðu okkar menn undirtökin drjúgar stundir í leiknum. Þjóðverjarnir byrjuðu með látum og skoruðu strax með þrumuskoti af löngu færi. Aron Elís jafnaði nokkru síðar og Davíð kom Víkingum síðan yfir. Þjóðverjar náðu að jafna þegar langt var liðið á hálfleikinn en Víkingur fékk dæma á sig vítaspyrnu á lokasekúndunum og Óli Ægir kom liðinu í 3-2. Eftir hlé vörðust Vikingar vel framan af og gáfu ekkert eftir. Þjóðverjar gáfu hins vegar ekkert eftir og uppskáru í samræmi við það. Þeir jöfnuðu og skoruðu svo sigurmarkið beint úr aukaspyrnu við vítateigslínuna í blálokin. Aukaspyrnudómurinn var í meira lagi vafasamur og Þjóðverjarnir hljóta að senda dómaranum í það minnsta jólakort fyrir það góðverk í sinn garð.
Leikirnir við Dani í gær og Þjóðverja í dag eru auðvitað góð búbót í reynslusarp Víkinga en sýna það jafnframt að liðið getur fyllilega staðið í góðum, erlendum liðum úr þessum aldursflokki og meira en það. Þjóðverjarnir sluppu með skrekkinn í dag og Danir hlakka ekki til að mæta Víkingum í annað sinn á morgun.
25.7.2008 | 16:34
Tvö Víkingsliðanna í úrslitakeppni ReyCup
Tvö Víkingslið af þremur fara í úrslitakeppni á ReyCup, Víkingur 1 og Víkingur 2. Hið fyrrnefnda með sex stig af níu mögulegum en hið síðarnefnda með fullt hús stiga, tólf alls og samanlagða markatölu 25-6 í leikjum sínum!
Úrslit dagsins:
- Þór-Víkingur 1: 1-4.
- Víkingur 1-FIF/1909 frá Óðisvéum: 0-3.
- Víkingur 2-ÍA: 8-3.
- FH-Víkingur 2: 0-7.
- Víkingur 3-Hamar/Ægir: 0-1.
- Þór-Víkingur: 3-1.
Gæðum lífsins var misskipt í fyrstu Víkingsleikjum dagsins kl. 8:00. Á Valbjarnarvelli rúllaði Víkingur 2 Skagamönnum upp en skammt þar frá varð Víkingur 3 að játa sig sigraða eftir að hafa fengið á sig eina mark leiksins mínútu eftir að leiknum átti að vera lokið. Stórleikur Harðar hins hárprúða dugði meira að segja ekki til að okkar menn fengju eitthvað út úr leiknum. Útslit sem sagt 0-1 fyrir Hamar/Ægi frá Hveragerði og Þorlákshöfn.
Skagamenn voru langt frá því að vera komnir almennilega fram úr rúmunum í upphafi leiks við Víking 2 og dómarinn þurfti að hraðrita í kladdann hjá sér á fyrstu mínútunum til að hafa undan markaregninu. Þrjú mörk gegn engu var bláköld staðreynd eftir stundarkorn í upphafinu og í hálfleik var staðan 6-1 Víkingum í vil. Eftir hlé fóru Víkingar að slaka ögn á en skoruðu samt í tvígang. Skagastrákar vöknuðu á sama tíma og voru mun hressari en áður. Lokastaðan 8-3. Ólafur Andri endurtók leikinn frá í gær og skoraði þrennu, Röggi og Gulli settu tvö hvor og Sigurður Davíð eitt. Mjög fínn líkur hjá Víkingum og stórsigur verðskuldaður.
Víkingur 1 þurfði að leggja Þór frá Akureyri til að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni og gerði það af öryggi. Liðið var baráttuglaðara og öruggara í aðgerðum sínum en gegn Skagamönnum í gær og uppskar í samræmi við það. Í hálfleik var staðan 3-0. Aron Elís skallaði í markið strax í upphafi leiks og bætti öðru marki við með langskoti nokkru síðar. Viktor skallaði síðan í netið eftir hornspyrnu og aftur eftir hlé eftir góða sendingu Patriks. Þórsarar komust í þvígang í ágæt færi í síðari hálfleik og skoruðu úr einu slíku en Halldór varði í hinum tilvikunum. Góður leikur Víkings og mun meira sannfærandi sigur en gegn Skaganum í gær.
Víkingur 2 hélt sigurgöngunni áfram gegn FH og sendi Hafnfirðingana heim með sjö mörk á bakinu gegn engu. Aron Ellerts, Sigurður Daði og Ólafur Andri skoruðu tvisvar hver og Konni eitt.
Víkingur 3 sneri við blaðinu frá fyrri leikjum og lagði Þór frá Akureyri með þremur mörkum gegn einu. Andri Már, Jóhann Gunnar og Jökull Starri skoruðu fyrir Víking og þar með voru þrjú stig í höfn.
Síðasti leikur dagsins var svo viðureign Víkings 1 og Dananna frá Óðinsvéum. Fyrir lá að bæði lið voru komin áfram í mótinu en undir var efsta sætið í riðlinum og sæmd með í þessum landsleik. Strax í upphafi komst knár sóknarmaður FIF/1909 í gegnum Víkingsvörnina. Halldór markvörður reyndi að bjarga því sem bjargað varð með því að kasta sér á boltann fyrir fætur Danans, sem féll við og dómarinn úthlutaði Dönum vítaspyrnu og markverðinum gult spjald. Danir komumst þar með yfir eftir það höfðu Víkingar góð tök á leiknum á köflum og áttu tvö mjög góð færi, annað skotið hafnaði í stöng. Það tókst samt ekki að pota tuðrunni í netið en Danir stálu hins vegar senunnni með því að skora úr eitraðri skyndisókn á síðustu sekúndum hálfleiksins. Eftir hlé var minni kraftur í Víkingum en í fyrri hálfleik og Danir voru lengst af líklegri til að bæta við marki frekar en Víkingar að minnka muninn. Það gekk eftir og Danir skoruðu þriðja markið.
Þrátt fyrir sigur gestanna frá Óðinsvéum var óhressasti maður vettvangsins þjálfari danska liðsins og lét dómarana óspart heyra það! Hann óð inn á völlinn í leikhléi til að kvarta yfir því að dómarar leyfðu Víkingum að spila fast og hélt því fram að Danirnir hefðu átt að fá dæmt aðra vítaspyrnu í fyrri hálfleik. Varla var búið að flauta leikinn af þegar þjálfarinn æddi enn á ný inn á völlinn til að ausa úr kvörtunarskálum yfir dómarana. Enn var hann að tuða í danska hópnum við vallarendann löngu eftir að leik lauk. Þegar nú liggur fyrir hvernig þessi náungi bregst við sigurleikjum væri fróðlegt að vita hvernig hann hagar sér eftir tapleiki!
- Fleiri myndir frá því í dag í myndaalbúminu.
25.7.2008 | 13:16
Davíð Örn og Gaupi
Stöð 2 filmaði sigursæla Víkinga 1 í morgun eftir að þeir lögðu Þórsara frá Akureyri að velli og tryggðu sér sæti í útslitakeppni ReyCup. Guðjón Guðmundsson, betur þekktur sem Gaupi, var að viða að sér efni í þátt um mótið sem sýndur verður fljótlega. Og þar munu siguróp okkar manna hljóma, sem og viðtal við sóknarjaxlinn Davíð Örn Atlason.
24.7.2008 | 14:59
Aðallega sætt en örlítið súrt með
Þrír sigrar og eitt tap var uppskera Víkingsliðanna þriggja á upphafsdegi ReyCup. Okkar menn skoruðu tólf mörk en fengu á sig sex.
Víkingur 2 byrjaði daginn á því að leggja Eyjamenn með fjórum mörkum gegn einu. Í hálfleik hafði ekkert mark verið skorað, sem reyndar var með nokkrum ólíkindum með yfirburði Víkings í huga. Eftir hlé létu Víkingar hógværðina hins vegar til hliðar og fóru að prófa netið í marki ÍBV. Ólafur Andri skoraði þrjú mörk í röð og þegar hann hafði náð þrennunnni í hús bætti Sigurður Davíð fjórða markinu við eftir að Eyjamenn höfðu potað inn fyrsta og eina marki sínu í leiknum, sem kom upp úr umtalsverðri gjafmildi Víkinga. Lokastaðan sem sagt 4-1 og miðað við gang leiksins sluppu Eyjastrákar vel.
Strax á eftir mættust Valur og Víkingur 3. Valsarar gerðu strax harðar atlögur að Víkingsmarkinu en markvörðurinn þar á bæ lét þá ekki komast upp með múður og hélt liðinu á floti fram hálfleiknum. Í hálfleik var Valur einu marki yfir og bætti öðru við í þeim síðari. Lokastaða 2-0.
Víkingur 1 byrjaði með látum gegn Skagamönnum. Davíð Örn skoraði laglega á upphafsmínútunum og ýmsir á hliðarlínunni töldu það upphafið að blúndulagðri markaveislu í boði Víkings. Skagamenn náðu hins vegar fljótt vopnum sínum og náðu að nafna með aðstoð vindhviðu. Í leikhléi var staðan því 1-1. Aron Elís skoraði síðan eina mark síðari hálfleiks og tryggði Víkingi stigin þrjú. Verðskuldaður sigur en þarna gat svo sem allt gerst.
Víkingur 2 og KA áttust svo við í fjórða og síðasta Víkingsleik dagsins. Ekki fór á milli mála að Víkingsstrákar ætluðu ekki að sýna Akureyringum neina gestrisni, heldur röðuðu á þá mörkum í fyrri hálfleik. Ólafur Andrei skoraði í tvígang (og varð þar með fimm marka maður í dag!), Lalli, Haukur og Gulli skoruðu eitt hver og í leikhléi var staðan 5-0. Eftir hlé skoraði Daníel og þar með tók Víkingur sér leyfi frá markaskorun en KA-strákar settu þá tvö. Lokastaðan 6-2 og Víkingur því með 6 stig af 6 mögulegum eftir keppnisdaginn.
Nánari úrslit getið þið séð með því að smella á staðan á ReyCup efst í tenglalistanum hér til vinstri.
Á morgun, föstudag, taka Víkingar daginn snemma. Víkingur 2 og Skagamenn hefja leik kl. 8:00 og Víkingur 3 og Hamar/Ægir eigast við á sama tíma. Víkingur 1 og Þór frá Akureyri mætast síðan kl. 10:00.
- Vel að merkja: Í leikaskránni var sameiginlegt lið Siglfirðinga og Ólafsfirðinga (KS/Leiftur) í riðli með Víkingum 1, Skagamönnum og FIF/1909 frá Danmörku en í gær var ákveðið að Akureyrar-Þór kæmi í stað KS/Leifturs í riðlinum þar sem þeir síðarnefndu töldu sig eiga frekar samleið með B-liðum í keppninni. Danska liðið var að sjálfsögðu stóra spurningamerkið í riðlinum. Það vann Þórsara 4-1 í dag. Danirnir eru vel spilandi og sigruðu sannfærandi en Akureyringar stóðu samt þokkalega í þeim lengi vel. Víkingur 1 og FIF/1909 keppa kl. 14:00 á morgun og þá lýkur keppni í riðlinum þar sem tvö lið halda áfram í undanúrslitakeppnina.
Seinni leikur Víkings 2 á morgun er við FH kl. 11:00 og seinni leikur Víkings 3 er við Þór frá Akureyri kl. 12:00. Lokaleikur Víkings 3 í riðlakeppni er svo ekki fyrr en kl. 9:00 á laugardagsmorguninn, við Breiðablik.
- Fáeinar myndir af atgangi dagsins í albúminu!
23.7.2008 | 10:46
Víkingar mæta Dönum á ReyCup
Þá er leikjaskráin á ReyCup orðin klár og opinber. Víkingar senda þrjú lið til keppni í 4. flokki.
- A-liðið, Víkingur 1, er í í A-riðli ásamt dönsku liði (FIF/1909 frá Óðinsvéum), Skagamönnum og Siglfirðingum (KS).
- Annað B-liðið okkar, Víkingur 2, er í B-riðli ásamt Skagamönnum (ÍA), Hafnfirðingum (FH), Eyjamönnum (ÍBV) og KA frá Akureyri.
- Hitt B-liðið, Víkingur 3, er í C-riðli ásamt Blikum, Val, Hamri/Ægi (sameiginlegt lið Hveragerðis og Þorlákshafnar) og Þór frá Akureyri.
Fyrstu leikir á morgun, fimmtudag:
- ÍBV-Víkingur 2, kl. 9:00 á velli C1 (gervigrasi).
- Valur-Víkingur 3, kl. 10:00 á velli C1 (gerfigras).
- ÍA-Víkingur 1, kl. 11:00 á velli C3 við Suðurlandsbraut.
- Víkingur 1 spilar einungis við Skagamenn á morgun en Dani og Siglfirðinga á föstudag.
- Víkingur 2 spilar líka við KA á morgun (kl. 12:00) og síðan við Skagamenn og FH á föstudag.
- Víkingur 3 spilar einungis við Val á morgun en síðan við Hamar/Ægi og Þór á föstudag og við Breiðablik að morgni laugardags.
Við ætluðum að auðvelda gistivinum heimasíðunnar lífið með því að vísa beint á leikjatöflu viðkomandi liða með hnöppunum efst til vinstri á forsíðunni en tæknilegur frágangur heimasíðu ReyCup er svo aulalegur að slíkt er bara ekki hægt! Þið verðið því að byrja á að velja 4. flokkur karla A eða 4. flokkur karla B í glugganum og rekja ykkur þannig áfram. Fljótvirkari leið er ekki í boði, forritarar ReyCup eru ekki nær nútímanum í heimasíðufræðum en þetta.
Við þekkjum vel til allra andstæðinga okkar á ReyCup nema auðvitað Dananna, FIF/B1909, frá Odense (Óðinsvéum). Sögur fara af að í þessu liði séu knáir strákar, nær allir fæddir 1994. Að minnsta kosti einn Íslendingur hefur spilað með þeim, Sigursveinn Þráinsson, en ekki vitum við um hvort hann verður í leikmannahópnum á ReyCup. Á afrekaskrá FIF/B1909 er héraðsmeistaratitill í tvígang á allra síðustu árum (Fjónsmeistarar) og árið 2006 var liðið í 12. sæti í sínum flokki á Danmerkurmeistaramótinu. Liðsmaðurinn Lasse Thomsen hefur þegar skrifað undir þriggja ára samning við eitt af stóru liðunum" í Danmörku, FC Midtjylland, frá og með árinu 2009. Víkingar fá sem sagt verðuga andstæðinga að glíma við á ReyCup og geta í leiðinni prófað dönskuna sem þeir hafa setið sveittir yfir í skólunum sínum, hahaha.....
PS. Ávarp frá æðsta embættismanni Reykjavíkurþorpsins er birt á heimasíðu ReyCup líkt og gerist og gengur þegar slíkir viðburðir eiga í hlut. Ráð væri hins vegar fyrir mótshaldara að veita vegleg aukaverðlaun þeim sem kemst næst því að skilja eina setningu í ávarpinu. Sú hljóðar svo í drottins nafni:
Eins og fleiri stjórnmálamenn er ég keppnismaður og syrgi ekki unna sigra.
Amen.
21.7.2008 | 21:07
ReyCup í sjónmáli
10.7.2008 | 20:11
Selfyssingum enginn griður gefinn
7.7.2008 | 18:07
Þróttardagur í Laugardal
2.7.2008 | 16:38
Öruggur Víkingssigur í kulda og trekki á Ísafirði
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar