15.1.2010 | 18:26
Æfingaleikur við ÍR
Víkingar spila æfingaleik við ÍR-inga í Egilshöll á sunnudagskvöldið kemur, 17. janúar. Sunnudagsæfingin kl. 18:00 fellur því niður.
Allir leikfærir mæti kl. 19:55 (að undanskildum þeim sem taka þátt í landsliðsæfingum). Leikurinn hefst kl. 20:30.
Gunnar Örn stjórnar liðinu í leiknum sjálfum en Sindri hinn hárprúði verður líka á vettvangi og æfingu hjá þeim sem eru utan vallar hverju sinni. Það verður því tekið á því á sunnudaginn hvort sem menn spila eða æfa.
Ath. að hér til vinstri á heimasíðunni er að finna upplýsingar um æfingatíma 3. flokks í janúar og febrúar. Sömuleiðis er nýja flokksráðið fært upp á bak við tilheyrandi hnapp.
14.11.2009 | 19:41
Haustmótsmeistarar!
Víkingar kræktu sér í meistaratitil A-liða þriðja flokks í haustmóti Knattspyrnuráðs Reykjavíkur með því að leggja Fjölni í úrslitaleik í Egilshöll. Okkar menn áttu meira í fyrri hálfleiknum og komust yfir á 28. mínútu þegar Fjölnir sendi boltann í net nafna síns Fjölnis eftir góðan undirbúning Arons Elíss. Víkingur var sem sagt yfir í leikhléi en Fjölnismenn komu óþægilega ákveðnir til síðari hálfleiks og jöfnuðu á áttundu mínútu. Fleiri urðu mörkin ekki í venjulegum leiktíma og verður að segja þá sögu eins og hún er að Víkingar mega prísa sig sæla yfir að hafa hangið á jafntefli út leikinn.
Ákveðið var að hlaupa yfir framlengingu en kýla strax á vítaspyrnukeppni til að knýja fram úrslit. Þar sýndu Víkingar úr hverju þeir eru gerðir. Aron Elís, Röggi og Viktor Jóns tóku fyrstu spyrnur Víkings og skoruðu örugglega. Fyrsti Fjölnismaðurinn skaut fram hjá en Hlynur Víkingsmarkvörður varði glæsilega tvær næstu spyrnur Fjölnis og þar með voru úrslitin ráðin! Víkingar stigu stríðsdans á vellinum en Fjölnismenn gengu hnípnir af velli.
Til hamingju Víkingar með flottan endi á sparktíð ársins!
31.10.2009 | 17:24
Grunnskólameistarar 2009!
Réttarholtsskóli varð í dag grunnskólameistari í fótbolta eftir öruggan sigur á Árbæjarskóla í úrslitaleik í Egilshöll. Liðsmenn Réttó voru allir úr árgangi 1994 í Víkingi og voru sannarlega í sérflokki á grunnskólamótinu í dag. Þeir sigruðu í öllum fjórum leikjunum í riðlakeppninni með samanlagðri markatölu 33-0, lögðu Víkurskóla í undanúrslitum 4-0 og svo Árbæinga í úrslitaleiknum 3-1. Markahlutfall Réttó var þannig 40-1 í mótinu. Þetta segir væntanlega allt sem segja þarf um að bikararnir lentu örugglega í réttum skóla í mótslok!
Eina markverða andstaðan sem Réttó fékk í mótinu var í úrslitaleiknum gegn Fylkisstrákunum í Árbæjarskóla. Réttó fór illa með þrjú færi framan af leiknum en það var svo Davíð Örn sem kom loksins tuðrunni í netið. Árbæingum tókst að jafna skömmu síðar og skora eina markið sem Réttó fékk á sig í dag. Árbæingar hresstust nokkuð við jöfnunarmarkið en Aron Elís kom þeim niður á jörðina á ný með góðu marki. Viktor Jóns innsiglaði sigurinn með glæsimarki tveimur mínútum fyrir leikslok.
Vel gert hjá okkar mönnum og einu verður að bæta við sem skiptir máli. Búningar Réttóliðsins voru þeir langflottustu á mótinu og eru satt að segja bæði áberandi og fallegir. Ingvar G. Jónsson, þjálfari og kennari, á heiðurinnn af hönnuninni á þessum fínu treyjum og Henson saumaði.
Til hamingju Réttó og Ingvar þjálfari!
29.10.2009 | 23:24
Sparktíðarlok við hátíðlega athöfn
Glatt var á hjalla í Víkinni í kvöld þegar 3. flokkur sparktíðarinnar 2009 efndi til síðbúins uppskerufagnaðar. Jafnfram skildu leiðir strákanna um sinn því þeir eldri, '93-árgangurinn, eru komnir upp í 2. flokk en '94-strákarnir eru orðnir eldra árið í 3. flokki.
Gunnar Örn Gunnarsson verður áfram þjálfari þriðja flokks og Sindri Guðmundsson verður honum áfram til aðstoðar. Það eru góðar fréttir og fagnaðarefni því þeim hefur tekist að gera marga góða fótboltastráka enn betri og næsta tímabil verður á margan hátt áhugavert, ekki síður en nýliðið tímabil.
Þegar Gunnar Örn hitti strákana í fyrsta sinn, í veislusalnum í Víkinni sunnudaginn 2. nóvember 2008, sagði hann að þeir væru sjálfir gæfu sinnar smiðir. Og gefin ástæða er til að rifja upp þau skilaboð sem hann bað strákana um að fara með heim til sín og stinga að foreldrum sínum: Hann kvaðst ætla að haga þjálfun, uppstillingu liða og öðru tilheyrandi eftir eigin höfði og þær ákvarðanir yrðu allir að gera sér að góðu, bæði leikmenn og foreldrar (einkum þó pabbarnir...).
Við þetta hefur Gunnar Örn staðið keikur, þrátt fyrir að ýmislegt hafi á gengið eins og dæmin sanna. Fyrir það skal honum þakkað, með frómri ósk um að hann haldi ótrauður áfram á sömu braut og stjórni/þjálfi eins og honum sjálfum þykir best fara fyrir flokkinn og félagið. Þannig eiga hlutirnir einfaldlega að vera.
GÖG ávarpaði strákana í Víkinni í kvöld og fór yfir þá viðburði sem sátu í minningunni sem bestu og verstu stundirnar á fótboltavellinum. Fylkisleikur A-liðsins í fyrstu umferð Íslandsmótsins sagði hann að hefði verið mesta svekkelsi sumarsins, ekki vegna tapsins heldur vegna þess að strákarnir trúðu ekki á verkefnið. Leikir við KR í Frostaskjóli, og við Keflavík og Breiðablik í Víkinni stóðu hins vegar upp úr að mati þjálfarans.
Gunnar Örn sagðist hafa þjálfað marga um dagana en hvergi fyrir hitt jafn góða, áhugasama og duglega drengi og þá sem hann hafði með að gera í 3. flokki á nýafstöðnu tímabili! Hann hvatti þá til að slaka hvergi á heldur æfa vel og samviskusamlega og hafa gaman af því sem þeir væru að gera.Hann klikkti út með því að útnefna þá liðsmenn sem sýnt hefðu mestu framfarir í sumar. Kapparnir eru vel að vegsemd sinni komnir:
- Óli Þór Davíðsson í C-liði,
- Hörður Hreiðarsson í B-liði,
- Arnon Björn Bjarnason í A-liði.
Allir strákarnir á samkomunni gengu svo að kjörborði (í fyrsta sinn á ævinni!) og völdu þrjá bestu í hverju liði í leynilegri atkvæðagreiðslu. Tveir urðu efstir og jafnir í A- og C en hrein úrslit fengust í B.
Til hamingju með árangurinn á uppskeruhátíðinni strákar, sérstaklega Óli Þór og Hörður sem unnu tvöfalt....
Bestir í C-liðinu
1.-2. Aron Austmann Ellertsson og Bjarki Þórðarson,3. Óli Þór Davíðsson.
Bestir í B-liðinu
1. Hörður Hreiðarsson,
2. Viktor Jónsson yngri,
3. Agnar Darri Sverrisson.
Bestir í A-liðinu
1.-2. Jón Bragi Brynjólfsson og Jón Reyr Jóhannesson,
3. Kári Sveinsson.
Aron Björn, Hörður og Óli Þór. Mestu framfarir ársins!
Aron Austmann, Óli Þór og Bjarki Þórðar. Bestir í C!
Viktor Jóns, Hörður og Agnar Darri. Bestir í B!
Kári, Jón Bragi og Jón Reyr. Bestir í A!
29.10.2009 | 22:41
Aron Elís og Patrik á úrtaksæfingum U-17
Gunnar Guðmundsson, þjálfari U-17 ára landsliðsins í knattspyrnu, valdi Aron Elís og Patrik á úrtaksæfingar U-17 helgina 24.-25. október. Æft var í Egilshöll og Kórnum. Jafnframt var fundur með þjálfurum 3. flokks karla þar sem kynnt var starf landsliðanna og fjallað um samskipti og samvinnu þjálfara.
31.8.2009 | 21:26
Fjölnir í úrslitakeppni B-liða
Fjölnir lagði Fylki 2-3 í hörkuleik í Árbænum í kvöld og komst þar með í úrslitakeppni Íslandsmótsins. Víkingar sitja því eftir með sárt ennið og geta víst engum um kennt nema sjálfum sér!
Fylkisstrákar skoruðu fyrsta markið en Fjölnir jafnaði fyrir hlé og staðan 1-1 stóð yfir nokkuð fram í síðari hálfleik. Þá fékk Fjölnir dæmda vítaspyrnu og skoraði. Fylkismenn voru slegnir út af laginu um hríð og fengu þriðja markið í andlitið skömmu síðar. Staðan allt í einu orðin 1-3 og Fylkir í vondum málum (og Víkingar í enn verri málum).
Dómarinn hafði haft nóg að gera við að halda leiknum í böndum og notað gula spjaldið að minnsta kosti þrisvar. Nú fór hann í hinn litinn og rak Fjölnismann út af fyrir fautalegt brot. Fylkismenn mótmæltu því ákaft skömmu síðar að fá ekki dæmda vítaspyrnu og í þeim hasar fékk þjálfari Fylkis reisupassann og varð að fara af velli.
Fylkismenn tvíefldust bara við mótlætið og fóru að láta Fjölni finna verulega fyrir sér. Þeir uppskáru vítaspyrnu og löguðu stöðuna undir lokin. Síðustu mínúturnar voru æsispennandi og Fylkir var hársbreidd frá því að jafna en markvörður Fjölnis bjargaði.
Fjölnismenn sluppu með skekkinn og fögnuðu vel. Fylkir var í heildina tekið frískara lið og átti fleiri og hættulegri færi en það er víst ekki nóg frekar en fyrri daginn.
- Skilaboð frá þjálfaranum: Æfing kl. 19:00 annað kvöld (þriðjudag) í Víkinni!
30.8.2009 | 19:33
Uppskerubrestur í Kópavogi
29.8.2009 | 09:10
Sunnudagsleikirnir við Blika
27.8.2009 | 11:37
Óli Pétur í KR
23.8.2009 | 19:31
B-liðið hélt merkinu uppi gegn Þórsurum
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar