23.8.2009 | 19:31
Veisla að loknum Þórsleikjum

19.8.2009 | 12:06
C-leikurinn við Fjölni
C-lið Víkings og Fjölnis eigast við í Víkinni kl. 17:00 í dag, miðvikudag.
Mæting kl. 16:00:
Jón Dan, Konráð, Daníel, Stebbi, Aron Austmann, Tómas, Magnús, Óli Geir, Einar, Gulli, Siggi, Óli Þór, Bjarki Þórðar, Alexander, Þórarinn, Egill + Leifur og Ágúst ef heilsan þeirra leyfir.
18.8.2009 | 21:01
Viktor sendi Fjölnismenn sigraða heim
Víkingar sigruðu Fjölni 2-0 í leik B-liða 3ja flokks í Víkinni í kvöld. Viktor Jóns yngri kom sínum mönnum yfir í fyrri hálfleik þegar þeir spiluðu gegn hávaðaroki í Fossvogsdal. Hann var aftur á ferðinni undir lok síðari hálfleiks þegar Fjölnismarkvörðurinn hugðist hreinsa frá. Viktor pressaði, komst fyrir boltann og setti í netið. Góður sigur en Fjölnismenn áttu satt að segja meira í leiknum en úrslitin gefa til kynna. Þeim lánaðist bara ekki að skora.
Fyrr í kvöld tapaði Vikingur naumlega og grátlega á síðustu andartökunum í A-leiknum. Fjölnismenn höfðu yfir í hálfleik, 1-0, en undir miðjan síðari hálfleik jafnaði Ólafur Ægir. Það leit síðan út fyrir að liðin myndu deila stigum en í bláenda leiksins þurfti Fjölnir endilega að þvæla tuðrunni inn í Víkingsmarkið og hirða með sér stigin þrjú heim í Grafarvog.
14.8.2009 | 17:36
Grindavík, svínaflensa og vatnsbrúsar
Víkingspjakkar góðir:
Grindavíkurliðið í úrvalsdeild í fótbolta karla liggur nánast eins og það leggur sig í bælinu í inflúensu sem kennd er við þá góðu skepnu svín. Í Fréttablaðinu í dag, 14. ágúst, er haft eftir einum úr liðinu, Óla Stefáni Flóventssyni, að hann hafi líkast til verið orðinn veikur (án þess að vita af því) á æfingu fyrir viku og verið hóstandi þar. Svo bætir hann við: ,,Við vorum líka allir að drekka úr sömu vatnsbrúsunum og annað slíkt".
Ég var nokkuð hugsi í Hafnarfirði í gærkvöld þegar ég sá sömu vatnsbrúsana ganga á milli ykkar - sem hefur verið sjálfsagður hlutur hingað til en á ekki að vera það lengur! Ef einn eða tveir úr hópnum hafa verið komnir með þessa flensu í gær, án þess að vita af því, eru yfirgnæfandi líkur á að fjöldinn allur úr hópnum sé smitaður nú. Alveg eins og gerðist í Grindavík!
Þessi inflúensa er ofboðslega smitandi og óþarfi að gera beinlínis með því til dæmis að vera með sameiginlega vatnsbrúsa.
- Ég legg því til að þið hafið hver sinn brúsa á æfingum og í leikjum hér eftir. Það er einfalt í framkvæmd og mjög heilsusamlegt, sérstaklega þegar þessi veiki herjar á landsmenn.
- Pappírsþurrkur í vasanum til að hósta og hnerra í (og setja svo í ruslafötu) er líka einfalt mál í framkvæmd.
- Handþvottur er líka einfalt mál í framkvæmd og raunar besta vörnin gagnvart inflúensusmiti.
Ef Grindavíkurliðið hefði fylgt þessum ráðum væri það ekki í bælinu!
Hvers vegna er ég með þetta nudd í ykkur?
Stutta svarið er: Ég vil að þið verðið frískir og haldið inflúensunni sem lengst frá ykkur næstu daga og vikur.
Lengra viðbótarsvar: Ég er í samráðshópi á vegum sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra vegna inflúensufaraldurs og hef verið frá því í maímánuði. Þess vegna hefi ég séð og heyrt margt um þessa veiki og hve alvarleg hún kann að verða á Íslandi í vetur.
Sjálfur hefi ég breytt lífstílnum á þann veg að ganga með pappírsklúta í vasanum til að hósta í og ég þvæ mér oftar um hendur en áður. Ég myndi aldrei koma nálægt vatnsbrúsa sem gengi á milli manna þótt þyrstur væri.
Þar með er ekki sagt að ég fái ekki flensuna, því ef til dæmis einhver smitaður hóstar nálægt mér er fátt til varna. Hins vegar er sjálfsagt mál að gera einfaldar ráðstafanir til að reyna að koma í veg fyrir að veikjast og fyrsta boðorðið ykkar ætti að vera það að vera með eigin vatnsbrúsa í boltanum og hleypa engum öðrum munni nálægt honum.
Lifi Víkingur á flensutímum sem annars!
-ARH
13.8.2009 | 22:20
Endurtekið efni í FH-leikjum
Úrslit A- og B-leikja FH og Víkings í Hafnarfirði í kvöld voru endurtekið efni frá fyrri umferð sömu liða í Íslandsmótinu. Fyrr í sumar tapaði A-liðið 0-5 fyrir FH í Víkinni en B-liðin gerðu jafntefli, 11. Í kvöld tapaði A-liðið 4-1 í Kaplakrika en B-liðin gerðu aftur 1-1 jafntefli.
FH-ingar komust í 3-0 á tuttugu mínútum í A-leiknum og í það minnsta tvö markanna voru af ódýrustu gerð. Í seinni kafla fyrri hálfleiks voru Víkingar sprækari og Aron Elís minnkaði muninn. Víkingar fengu færi til að komast nær FH en það voru hins vegar Hafnfirðingarnir sem kláruðu dæmið með marki beint úr aukaspyrnu í síðari hálfleik og þar með voru úrslitin ráðin.
B-leikurinn var helmingaskiptaströggl framan af en um miðjan fyrri hálfleik fengu heimamenn dæmt víti sem þeir skoruðu úr. Víkingar náðu að svara að bragði með fínu skallamarki Sverris Hjaltesteds. Fleiri urðu mörkin ekki og raunar máttu Víkingar vel við una að fara heim með stig úr leiknum því þeir fengu einungis eitt gott færi í seinni hálfleiknum. Hafnfirðingar voru á hins vegar býsna aðgangsharðir við Víkingsmarkið en vörninni tókst að hrinda atlögum eða markmanninum að verja skotin. Þegar langt var liðið á leikinn fengu Hafnfirðingar dæmda aukaspyrnu fyrir meint brot Viktors Jóns yngri út við hliðarlínu FH-megin á vellinu en andartaki áður hafði (heima)dómari Hafnfirðinga horft ljúfmannlega fram hjá nákvæmlega eins broti FH-ings á Víkingi. Dómnum var mótmælt hástöfum á Víkingsbekknum og Viktor hugsaði upphátt eitthvað sem dómararinn tók til sín. Rauða spjaldið fór á loft og Víkingar spiluðu því einum færri til leiksloka en héldu sjó.
- Ath.: Æfing í Víkinni á sunnudagskvöldið kl. 20:00!
26.7.2009 | 13:30
Sæti 4, 5 og 6
Víkingslið 3. flokks höfnuðu í fjórða, fimmta og sjötta sæti á ReyCup.
A-liðið mætti Haukum á Valbjarnarvelli kl. 10:00 í leik um 5. sætið og náði því verðskuldað en þurfti að hafa fyrir sigrinum. Eina markið kom í seinni hálfleik og var skráð sjálfsmark hjá dómaranum en Aron Elís og Jón Bjarni gerðu báðir tilkall til að eigna sér það. Mál þar að lútandi verður rekið fyrir Bæjarþingi Reykjavíkur ef í hart fer.
B-liðið hitti Þrótt fyrir á sama tíma á leynivellinum við Suðurlandsbraut til að gera út um 3. sætið, eina möguleika Víkinga á mótinu til að komast á verðlaunapall. Fyrri hálfleikurinn var markalaus og síðari hluti hans lofaði góðu. Þá var Víkingsliðið nánast eitt á vellinum, Þróttarmegin, en tókst bara ekki að skora. Þróttarar komu hressari til seinni hálfleiksins og uppskáru eina mark leiksins úr þvögu framan við Víkingsmarkið. Eftir það var sem vindur færi úr okkar mönnum og þeir gerðu sig aldrei líklega til að jafna þó bronsverðlaun væru í boði fyrir sigur í leiknum. Víkingur 2 lenti því í 4. sæti.
C-liðið mæti FH í Víkinni á hádegi í leik um 5. sætið og átti dauðafæri fljótlega í leiknum. Síðan skoraði FH og þegar leið á hálfleikinn fékk Víkingur á sig afar vafasaman vítaspyrnudóm sem Hafnfirðingar nýttu sér til að komast í 2-0.
Baldvin markvörður sagði fáein vel valin orð og dómarinn þreif þá upp gula spjaldið (mynd: Helgi Hannes). Dómarinn sem þarna kom við sögu er með tagl og Óla Ægi að góðu kunnur frá því á TBR-velli á föstudagskvöldið. Sami dómari vék líka spjöldum að Viggó, þáverandi Víkingsþjálfara, á ReyCup í fyrra svo þetta er komið í vana hjá honum/henni.
FH bætti við þriðja markinu í síðari hálfleik og úrslitin urðu þar með 3-0 og 6. sæti fyrir Víking 3.
- Myndasarpur á ReyCup 2009 Nýjar myndir frá leikjum helgarinnar komnar í sarpinn....
Gunnar Örn boðar til æfingar í Víkinni á morgun, mánudag, kl. 18:00. Framhaldið ræðst þar og verður tilkynnt á vettvangi og hér á heimasíðunni.
Úrslit sunnudagsleikja í 3. flokki.
A-lið
Fram Þróttur 1 Úrslit: 1 5
07 Vestur KR Úrslit: 0 3
Haukar 1 Víkingur 1 Úrslit: 0 1
Esbjerg Grindavík Úrslit: 2 1
Grótta 1 Stjarnan Úrslit: 1 2
B-lið
Haukar 2 Fylkir 2 Úrslit: 2 0
Víkingur 2 Þróttur 2 Úrslit: 0 1
KR 2 Álftanes Úrslit: 1 - 5
Víkingur 3 FH 2 Úrslit: 0 - 3
25.7.2009 | 19:38
Sunnudagsleikirnir
25.7.2009 | 09:37
Laugardagsleikirnir
24.7.2009 | 19:35
A-liðið til leiks kl. 8:00!
24.7.2009 | 15:45
Skin og skúrir í föstudagsleikjum
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.3.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar