Leita í fréttum mbl.is

Blikar kláruðu Íslandsmótið fyrir Víkinga

Víkingar mættu ofjörlum sínum úr Breiðabliki 2 í undanúrslitum A-liða í Víkinni í kvöld. Grænstakkarnir sigruðu örugglega og sannfærandi, 1-3, og voru nær því að skora fleiri mörk en Víkingar að saxa á forskotið.

Blikarnir skoruðu á lokasekúndum fyrri hálfleiks en Patrik jafnaði með laglegu marki þegar tíu mínútur voru liðnar af þeim síðari. Þá héldu áhangendur þeirra röndóttu að heimamenn væru komnir á bragðið en svo var ekki. Blikar bættu tveimur mörkum við og höfðu leikinn í hendi sér.

Fyrr í kvöld sigraði HK Breiðablik i hinum úrslitaleiknum á Smárahvammsvelli, 0-2. Það verða því Blikar 2 og HK-menn sem spila til úrslita á sunnudaginn kemur í innanbæjarslag í Kópavogi.

Blikar voru vel að sigrinum komnir i dag. Þeir mættu ákveðnir til leiks og spiluðu einfaldlega betur en heimamenn frá upphafi til enda. Leikur A-liðs Víkings minnti óþægilega mikið á undanúrslitaleikinn gegn Gróttu á Norway Cup á dögunum. Þar vanmátu Víkingar andstæðinginn með afleiðingum sem óþarft er að rifja upp. Sama kann að hafa gerst í kvöld þegar þeir mættu C-liði úr Breiðabliki á Íslandsmótinu (Grótta er líka C-lið!), með tölustafinn 2 aftan við félagsheitið. Sá merki tölustafur hefur trúlega verið hluti af hinum andlega örlagavaldi Víkings í kvöld og fengið okkar menn til að trúa því að Kópavogsmenn væru auðveld bráð.

Víkingur mætti bara ekki til leiks í huganum. Strákarnir í Breiðabliki 2 voru hins vegar uppgíraðir og baráttuglaðir og uppskáru eins og til var sáð. Það er af sem áður var þegar eitt aðalsmerki Víkingsstráka í árgangi '94 var einmitt að koma vel andlega undirbúnir af Þrándi þjálfara í mikilvæga leiki, sama hver andstæðingurinn var. Þegar liðið hins vegar mætir nú í tvígang á fáeinum vikum í úrslitaleiki með hugarfarið í augljósu ólagi hlýtur eitthvað að vera að í undirbúningnum.

Tæpast hefði það breytt miklu um úrslitin en óhjákvæmilegt er samt að spyrja hverju það sæti að þessi undanúrslitaleikur skyldi fara fram á grasi en ekki á gervigrasinu nýja og góða, hinum eiginlega heimavelli Víkingsliðsins? Það var út af fyrir sig gestrisni við áhorfendur að láta þá fá stóla undir bossana sína og enn meiri gestrisni við Blikana, sem æfa meira á grasi en Víkingar.

Öruggt er að Breiðablik hefði ekki hagað sér svona ef þetta hefði verið heimaleikur þess félags! Um síðustu helgi áttust við A-lið Blika og Víkings í úrslitakeppni í 4. flokki. Þetta var heimaleikur Blika og hvar skyldi hann nú hafa verið? Auðvitað á hinu skelfilega gervigrasi inni í Fífunni. Eðlilega! Blikar útveguðu sér ákveðið forskot í leiknum með því að velja honum aðstæður sem hentuðu þeim. Færa má hins vegar rök fyrir því að Víkingar hafi fært Blikum dulítið forskot með því að velja að spila á grasinu í Víkinni í kvöld en það afsakar auðvitað ekki úrslitin í kvöld. Við erum bara svo grannagóðir hérna megin Fossvogsdals.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

vikingarnir.blog.is

Frjálst og óháð blogg
Frjálst og óháð blogg
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 2734

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband