Leita í fréttum mbl.is

Víkingur 1 og Grótta í átta liða úrslitum á Norway Cup á morgun!

Víkingur 1 sigraði í morgun lið frá Hörðalandi, Skogsvald/Hald, með tveimur mörkum gegn einu á Norway Cup og er þar með kominn í átta liða úrslit á mótinu!  Liðpið er því áfram á blússandi siglingu í úrslitakeppninni og á næsta leik kl. 10:00 á morgun, föstudag, að norskum tíma (ekki síðdegis í dag, eins og útlit var fyrir í morgun). Það sem gerir tilveruna skrítna og skemmtilega er að andstæðingar í átta liða úrslitum eru vinir vorir Gróttumenn af Seltjarnarnesi! Grótta er þar að auki með okkur í Bekkelaget skole þannig að þetta verður eins konar íslenskt fjölskylduuppgjör á norskri grundu.

Víkingar voru betra liðið í leiknum  í morgun og átti sigurinn fyllilega skilið en Norðmennirnir voru líka með ágætt lið, betra en flest önnur norsk lið sem Víkingar hafa spilað við á mótinu. Víkingur komst yfir snemma í fyrri hálfleik með marki Jóns Reys. Viktor skallaði í slá, boltinn hrökk út á völlinn og Jón Reyr var réttur maður á réttum stað og kláraði dæmið snyrtilega.

Leikur okkar manna róaðist óþarflega mikið eftir markið en Norðmenn náðu sem betur fer ekki að nýta sér að. Gunnar Örn þjálfari barði í brestina í hálfleik og lagði einfalda spurningu fyrir strákana: Langar Norðmenn meira til að halda áfram í mótinu en ykkur? Víkingar svöruðu spurningunni úti á vellinum með því að koma galvaskir til leiks og fljótlega kom mark a la Viktor Jóns.

Síðan var málið að halda fengnum hlut og það gerðu strákarnir. Norsku strákarnir höfðu greinilega ekki búist við að lenda í slíkum mótbyr og gerðust grófir á köflum. Harka færðist í leikinn og leikmenn úr báðum liðum fengu áminningu. Í blálokin var dæmt víti á Víking, fyrir eitthvað sem enginn sá nema hugsanlega dómarinn. Norskir áhangendur liðins frá Hörðalandi voru orðnir snaróðir og liðsmenn þeirra sömuleiðis inni á vellinum. Dómarinn leit á klukkuna, sá að einungis 30 sekúndur voru eftir og dæmdi vítið til að friða hina æstu hjörð, vitandi það að norskt mark á þessum tímapunkti myndi ekki hafa áhrif á úrslitin. Norðmenn skoruðu og leikurinn var blásinn af, úrslitin 2-1 fyrir Víking.

Nokkrir úr norska liðinu sýndu dæmalaust óíþróttamannslega framkomu og stungu höndum aftur fyrir bak þegar okkar menn vildu þakka þeim fyrir leikinn. Norski aðstoðarmaðurinn okkar, Lotta, skammaðist sín sárlega fyrir framkomu landa sinna og sagðist vera feginn því að þeir hefðu verið sendir út úr keppninni.

Sem sagt: slökun í dag, Grótta í fyrramálið. Það verður sjálfsagt einkennilegt andrúmsloft í morgunmatarsalnum!


Víkingur 1 kominn í 16 liða úrslit - Víkingur 2 féll úr keppi

Víkingur 1 er áfram á sigurbraut á Norway Cup. Liðið sigraði í leik sem var að ljúka með fjórum mörkum gegn engu. Markaskorarar kvöldsins voru Patrik, Röggi (vítaspyrna), Villi og Ólafur Ægir.

Niðurstaða þriggja leikja Víkings 1 í dag er sem sagt sú að liðið hefur tryggt sér sæti í 16 liða úrslitum og til lukku með það! Næsti leikur er kl. 10:00 á morgun, fimmtudag, og þá er slagurinn um að komast í átta liða úrslit. Að sjálfsögðu verða fluttar fréttir af þeirri viðureign svo fljótt sem verða má, nú þegar þetta er skrifað vitum við ekki hver andstæðingurinn verður.

Andstæðingar Víkings 1 í leiknum í kvöld voru drengir af Þelamörk í Noregi, frá félagi sem Sannidal/Kragerö heitir. Segja verður þá sögu eins og hún er að þetta er ekki stórbrotið fótboltalið og reyndar eilítið undrunarefni að það skuli þó hafa náð þetta langt í mótinu. Víkingar stjórnuðu leiknum frá upphafi til enda, voru með boltann í 80& leiktímans og þurftu lítið að hafa fyrir því að verjast - einfaldlega af því sóknartilburðir Norðmanna voru afar takmarkaðir. Eina dramatíska atvikið í leiknum var þegar Patrik var felldur í vítateignum og dómari dæmdi víti eftir að hafa ráðfært sig við aðstoðardómara. Enn dramatískara atvik átti sér stað við hliðarlínuna fyrir leik, þegar Víkingar voru að hita upp og einum Víkingi tókst óvart að skjóta niður annan aðstoðardómarann. Sá fékk sum sé boltann í hausinn, steinlá og þurfti aðhlynningar við en náði fljótlega áttum í tilverunni eftir þessa sérlega óvenjulegu og óvæntu atlögu Víkings að réttarkerfi knattspyrnunnar á Norway Cup.

Víkingur 2 lauk sinni þátttöku á mótinu í kvöld með 1-0 tapi fyrir norska liðínu Fyresdal. Strákarnir geta engu að síður borið höfuðið hátt og því skal til haga haldið að þeir hafa fengið erfiðari andstæðinga til að glíma við á mótinu en Víkingur 1 (riðlakeppnin) og komust alla leið í 32ja liða úrslit.

Það bar ögn á spennu í strákunum í leiknum í kvöld, á sama tíma og norskir andstæðingar þeirra voru sjálfsöryggið uppmálað. Norska liðið var ágætlega spilandi og í loftinu lá stærstan hluta leiksins að líklegra væri að það bryti ísinn með marki en Víkingar. En þegar leið á leikinn fóru okkar menn að sækja í sig veðrið. Fyrri hálfleikur leið án þess að skorað væri mark og allt stefndi í að sú saga endurtæki sig í þeim síðari. Venjulegur leiktími var að renna út og Sindri þjálfari var kominn með vatnsflöskutöskuna í hendur, tilbúinn að ræða við strákana um framlengingu. Þá skyndilega náðu Norðmenn sókn og tókst að skora, dómarinn blés leikinn af og allt í einu voru okkar menn dottnir úr keppi. Stutt á milli feigs og ófeigs á stundum!


Bæði Víkingsliðin komin í 32ja liða úrslit á Norway Cup!

Víkingar hafa verið sigursælir í dag í Osló, Víkingur 1 hefur spilað tvo leiki og unnið báða, Víkingur hefur spilað einu sinni og sigrað. Bæði liðin spila í kvöld og þá ræðst hvort fyrir þeim á að liggja að komast í 16 liða úrslitin.

Já, það er rétt skilið: Víkingur 1 spilar alls þrjá leiki í dag en Víkingur 2 tvo!


Víkingur 2 hitti fyrir Oslóarstráka úr félagi sem Rustad heitir. Víkingar voru sterkari í leiknum og tvímælalaust betra fótboltalið. Það var því við hæfi að þeir kæmust yfir í fyrri hálfleik þegar Þórarinn skoraði í fyrstu snertingu eftir innáskiptingu. Staðan í leikhléi 1-0. Í seinni hálfleik jöfnuðu Norðmenn en Sindri átti Fjölni uppi í erminni á bekknum og skipti honum inn á,níu mínútum fyrir leikslok, með þeim orðum að nota nú síðustu kraftana til að gera út um leikinn. Það gerði Fjölnir og sendi Oslóardrengina út úr mótinu.


Víkingur 1 spilaði eftir hádegið við skemmtilegt lið frá Madeira í Portúgtal, Barreirense að nafni. Okkar menn byrjuðu með nokkrum látum og létu finna verulega fyrir sér en tókst ekki að skora. Eftir það var barátta og hasar um allan völl án þess að liðunum lánaðist að skora. Leikurinn var framlengdur og ekkert mark kom í framlengingu heldur en hart var barist.


Sjálfurinn leikurinn var æsispennandi og ekki fyrir viðkvæma eða hjartveika á að horfa. Hvað þá vítaspyrnukeppnin, hún var svakalegur þriller. Davíð Örn, Villi, Hörður, Viktor og Villi tóku fyrstu fimm spyrnurnar fyrir Víking og skoruðu allir af miklu öryggi. Portúgalir skoruðu örugglega líka úr fyrstu fimm spyrnunum en Hlynur var ekki langt frá því að ná að kasta sér fyrir boltann í einni þeirra.

Sverrir Hjaltested tók sjöttu spyrnuna og negldi í netið. Þá var komið að sprækum framherja Portúgala. Hann stillti boltanum upp en ekki á réttum stað. Dómarinn færði þá boltann til og truflaði einbeitingu kappans. Portúgalinn tók síðan kæruleysislegt tilhlaup, skaut himinhátt yfir markið og hrundi samstundist grátandi niður í svörðinn. 

Líflegir áhangendur Madeiraliðsins á hliðarlínunni tóku tapið líka afskaplega nærri sér en Víkingar stigu hins vegar stríðsdans. Langt er síðan strákarnir hafa fagnað jafn svakalega og innilega og í dag og þeir áttu aldeilis innistæðu fyrir því!


Bæði lið taka það rólega þessa stundina og hvílast fyrir átök kvöldsins. Strákarnir eru orðnir nokkuð þreyttir en munu örugglega finna aukreitis forða af orku þegar blásið verður til leiks. Og svo lumar Víkingur 1 á leynivopninu Patriki, sem fékk rautt spjald í leik morgunsins og tók út leikbann á móti Portúgölum.  Hann kemur ferskur og lítt þreyttur til vallar á eftir. 


Dagurinn í dag er bæði langur og strangur. Við ræstum strákana í Víkingi 1 kl. sex og hugðumst gefa þeim brauðsneiðar sem Davíð og Jóhanna höfðu puðað við að smyrja  handa þeim í gærkvöld, af því mötuneytið var ekki opnað nógu snemma fyrir okkur. Þá kom í ljós að einhverjir höfðu stolið mestöllu brauðinu og við gripum í tómt í orðsins fyllstu merkingu.

Þá var efnt til sjálfsprottinnar morgunmáltíðar með trúarlegu yfirbragði í stofu fararstjóra. Smalað var saman tiltæku brauði og kexi og lagt á stól (engin borð á vettvangi). Það kom sér vel að við höfðum tekið með okkur álegg af ýmsu tagi úr mötuneytinu til snarls og gátum lagt líka á stólinn. Með þessu var drukkið kranavatn. 

Sindri braut brauðin og útdeildi meðal lærisveina sinna, Gunnar Örn gekk á eftir með plastbikar og bað þá bergja á. Hann bauð upp á slurk  af blóðleitum vökva til að ná upp orkuvinnslu í morgunsárið. Sólberjasaftin dugði vel til síns brúks og víst er að brauðþjófnaður næturinnar þjappaði hópnum saman til átaka frekar en hitt.


Krossið nú fingur heima og heiman og hugsið til Víkingsstrákanna. Víkingur 2 mætir til leiks kl. 19:00 að norskum tíma og Víkingur 1 kl. 19:30!

IMG_6359web

 

 

 

 

 

 

 

 

Portúgalinn þrumar yfir markið í örlagaspyrnunni sinni.

fagn

Stákarnir ærir af fögnuði, portúgalski framherjinn grætur.


Víkingur 1 áfram á Norway Cup en morgunsigurinn var dýrkeyptur

Víkingur 1 sigraði örugglega í fyrstu úrslitarimmunni á Norway Cup kl. 8:00 í morgun og fer í þá næstu strax kl. 13:15 í dag. Víkingar skoruðu þrjú mörk og héldu hreinu í leiknum við Lura frá Stavanger. Sigurinn var síst of stór því að minnsta kosti eitt dauðafæri fór forgörðum en Norðmennirnir komu sér aldrei í umtalsvert færi allan leiktímann. Víkingssigurinn var dýrkeyptur því Patrik fékk á sig tvö gul spjöld, í bæði skiptin eftir árekstur við markvörð Norðmanna, og var því vísað af velli. Hann verður í banni í leiknum núna kl. 13:15, sem er að sjálfsögðu blóðtaka fyrir Víkinga, enda átti drengur góðan leik í morgun og skoraði flott mark, hið fyrsta í leiknum.

Staðan var 0-1 fyrir Víking að fyrri hálfleik loknum en í þeim síðari skoraði Davíð Örn beint úr aukapyrnu og Röggi setti svo þriðja markið örugglega úr vítaspyrnu. Norskur leikmaður var orðinn afar pirraður á að ráða ekkert við Jón Rey og keyrði Víkinginn að lokum niður í völlinn í vítateignum. Við fengum víti og Norðmaðurinn rautt spjald, sem var verðskuldað. Hins vegar var Patrik ranglega dæmdur brotlegur og átti rautt spjald hvergi skilið.

Víkingur 2 er þessa stundina að spila fyrsta leikinn sinn í úrslitum og Víkingur 1 býst til ferðar á völlinn í leik nr. 2 í dag.

Reikningsskekkja á kontór Norway Cup - Víkingur 2 fer í B-úrslit!

Mikið bull var í gangi fram eftir öllu kvöldi varðandi örlög Víkings 2 í útslitakeppninni á Norway Cup. Sjálfir stóðum við í þeirri meiningu að liðið hefði hafnað í 3. sæti riðils síns og færi þar með í B-úrslitakeppni en mótstjórn lét þau boð út ganga um tíuleytið að norskum tíma að Víkingarnir væru komnir í 2. sæti í riðlinum og þar með í A-úrslit. Þetta var tilkynnt á heimasíðu mótsins og tilgreindur leikur Víkings 2 kl. 8 í fyrramálið. Með þau tíðindi gengu Víkingar til hvílu, bæði liðsmenn og þjálfari.

Fyrir hreina tilviljun komumst fararstjórar síðan að því að búið var að breyta þessu öllu saman á heimasíðunni og nú var Víkingur kominn í 3. sæti riðils með leik kl. 11 á morgun, miðvikudag. Við athugun kom í ljós að mótsstjórn hafði skráð ranglega úrslit í einum leik í riðlinum í dag en lét Víkinga hins vegar ekki vita um afleiðingar þess að skrá úrslitin rétt.

Við hefðum því að óbreyttu rifið liðið upp eldsnemma í fyrramálið og ætt í annan borgarhluta til þess eins að fara heim aftur! Nú eru úrslit vonandi rétt skráð, enda klukkan að halla í miðnætti í Oslóarborg.

Þar með fer fyrri hluti miðvikudagsins eftirfarandi í skauti sínu:

  • Víkingur 1 spilar á velli 3 í Furuset við norska liðið Lura kl. 8:00 að morgni miðvikudags í A-úrslitakeppni.
  • Víkingur 2 spilar á velli 15 á aðalsvæðinu Ekeberg við Oslóarliðið Rustad kl. 11:00 á miðvikudag í B-úrslitakeppni.

isl-faniVíkingur 2 tapaði fyrir Sunndal 2-4 í lokaleik í riðlakeppninni og hafnaði sem sagt í þriðja sæti í sínum riðli. Þetta var hörkuleikur. Sunndal komst yfir og Víkingur jafnaði með góðu skoti Steinars Ísaks. Sunndal komst yfir á nýjan leik og Víkingar jöfnuðu með vítaspyrnu sem Agnar Darri fiskaði og skoraði úr. Við hefðum alveg þegið jafnteflið en Norðmenn deildu ekki þeim áhuga og skoruðu tvö mörk í viðbót á lokamínútunum. Það kom fyrir lítið hafa íslenska fánann við hún nokkra metra frá íslenska markinu í seinni hálfleik!

Sunndal var langbesta liðið af þeim sex liðum sem Víkingsliðin hafa spilað við í riðlakeppninni. Í gær sigruðu Sunndælingar til dæmis Oslóarliðið Höybraaten Stovner 5-0, liðið sem Víkingur tapaði fyrir með einu marki gegn engu í fyrsta leik riðilsins á sunnudaginn. Þrátt fyrir að andstæðingurinn væri sterkur og vel spilandi var í raun súrt að klóra ekki stig úr leiknum við Sunndælinga í dag. Víkingar börðust eins og ljón og hefðu uppskorið meira í fyrsta leiknum á sunnudaginn ef þeir hefðu sýnt þá það sem í þeim bjó í dag.

Aðalatriðið er samt það að bæði Víkingsliðin eru komin í úrslitakeppnina, A- og B-hluta. Þetta er í raun nýtt mót með útsláttarfyrirkomulagi og annað hvort að duga eða drepast! 


Víkingur 1 upp úr riðlinum með fullt hús stiga

Víkingur 1 sigraði Hesseng frá Finnmörku í Noregi í lokaleik síns riðlils með þremur mörkum gegn engu og fer í úrslitakeppnina með fullt hús stiga, eftir þrjá sigra af þremur mögulegum. Víkingar gátu leyft sér að fara rólega í leikinn og spara frekar kraftana til morgundagsins. Hesseng hafði samt ekkert í okkar menn að gera, Norðmenn pökkuðu liðinu í vörn mestallan tímann, komust aldrei í færi og skutu aldrei á mark Víkings. Víkingar réðu því sem þeir vildu og gerðu það sem þurfti.

Patrik kom Víkingum yfir í fyrri hálfleik og svo var aðeins spurning um hvenær markvörður Hesseng þyrfti að sækja boltann í netið, ekki hvort. Villi skoraði mark númer tvö, sérlega flott afgreiðsla hjá stráknum eftir sókn sem hefði sómt sér vel á kennslumyndbandi. Áhorfendur á hliðarlínunni tóku andköf og þótti mikið til koma að sjá tilþrifin. Tvö-núll var staðan í hálfleik og í seinni hálfleik brunaði Patrik upp í hægra hornið og þrumaði í fjærhornið, markvörðurinn gat engum vörnum við komið.

Víkingur 1 fer í fyrsta (og vonandi ekki þann síðasta!) úrslitaleikinn í fyrramálið. Hann fer fram í öðrum bæjarhluta og því þarf að ræsa strákana fyrir allar aldir. Líkur benda svo til þess að Víkingur 2 fari í úrslitaleik á sama tíma í enn öðrum bæjarhluta og enn lengra í burtu! Yfirgnæfandi líkur eru á að  liðið fari áfram en úrslit lokaleikja í riðlinum ráða örlögum þess að öðru leyti.


Slakað á með dýfingum af 10 metra palli

Slökun og rólegheit einkenndu daginn hjá strákunum, enda meiningin að leyfa þeim að njóta sigra morgunsins og búa sig undir leiki morgundagsins. Við ætlum að sjálfsögðu með bæði lið áfram og ætla má að leikur eða leikir bikarkeppninnar, sem hefst á...

Saga af dómaratríói

Dómaraflóran á Norway Cup er jafn fjölskrúðug og sjálf iðkendaflóran á mótinu. Það staðreyndum við í morgun í leik Víkings 2 og Stadsbygda. Rétt eftir að við mættum á völlinn til upphitunar birtist náungi og gekk beint að skrifara þessa pistils, sem hélt...

Tvöfaldur Víkingssigur að morgni dags!

Víkingar vöknuðu fyrir allar aldir, mættu hressir til leiks og rúlluðu upp andstæðingum sínum í morgun. A-liðið sigraði norskt lið frá Ål í Buskerud með fimm mörkum gegn einu, þar af átti Viktor þrennu, Röggi og Davíð skoruðu eitt mark hvor. B-liðið...

Sæmdartap fyrir Oslóarliði

Víkingur 2 tapaði fyrir Oslóarliðinu Höybraaten-Stovner 0-1 í fyrsta leik síns riðils. Markalaust var í fyrri hálfleik en sigurmark Norðmanna kom fljótlega í seinni hálfleik. Í blálokin fengu Víkingar dauðafæri í tvígang en heppnaðist ekki að skora. Þeir...

« Fyrri síða | Næsta síða »

vikingarnir.blog.is

Frjálst og óháð blogg
Frjálst og óháð blogg
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband