Leita í fréttum mbl.is

FH-ingar sendir stigalausir í háttinn

Víkingar gerðu það gott í Kaplakrika í kvöld og sneru heim með 2 x 3 = 6 stig eftir sigur í báðum leikjum. B-leikurinn jafnaðist á við besta þriller í bíósal og rúmlega það.

Markalaust var í hálfleik A-liðanna og raunar máttu Víkingar þakka fyrir þá stöðu. Í síðari hálfleik fóru Víkingar að bíta meira frá sér og Aron Elís skoraði í tvígang, í fyrra skiptið úr þvögu framan við FH-markið en í síðara skiptið beint úr aukaspyrnu sem dæmd var vegna brots á Patriki. Flott skot í markmannshornið.

B-lið Víkings var ágætlega inni í fyrri hálfleiknum en fór illa með færin sín. FH-ingar nýttu hins vegar færi sem þeir fengu og skoruðu í tvígang, fyrra markið var sérlega glæsilegt, sláin inn. Staðan í hléi var 2-0 og gengi okkar manna fram eftir hálfleiknum benti ekki endilega annars en þess að FH-ingar sigldu á topp riðilisins með sigri á Víkingum.

Svo fóru hlutirnir að gerast og það með látum. Agnar Darri komst einn inn fyrir og skaut beint á markvörð FH úr dauðans dauðafæri. Hann bætti fyrir ólán sitt andartaki síðar með því að klára færið á sinn hátt og skoraði aftur skömmu síðar af löngu færi, glæsilegt mark.

Allt í einu var staðan orðin 2-2 og FH-ingar tóku við sér. Þeir áttu sóknir og dauðafæri en Halldór varði og varði. Inn fór boltinn ekki en hins vegar náðu Víkingar sókn undir lokin og Ólafur Andri skoraði sigurmarkið. Strákarnir stigu stríðsdans, enda sætasti sigur B-liðsins í sumar í höfn. 

Dómari B-leiksins var góður og dæmdi vel. Þetta skipti Víkinga miklu máli því FH-ingarnir í hlutverki aðstoðardómara voru skandall. Þeir höfðu aftur og aftur bein áhrif á gang leiksins með rangstöðuflöggunum sem höfðu þann tilgang einan að bægja hættu frá FH-markinu. Annar snillingurinn reyndi svo, þegar allt annað þraut í síðari hálfleik, að fá dæma vítaspyrnu á Víking en dómarinn vatt réttilega ofan af vitleysunni. Það á nú að vera alveg nóg í leik á Íslandsmóti að mæta ellefu manna liði á knattspyrnuvelli þó ekki bætist við tveir línuverðir líka.

Á-liðið er eftir leiki kvöldsins í efsta sæti riðilsins. Það náði góðu forskoti á Breiðablik því þau tíðindi bárust af Versalavelli í kvöld að Stjarnan hefði skellt Blikum þar 0-2! Víkingar eru komnir með 31 stig eftir 12 leiki en Blikar eru með 25 stig eftir 11 leiki. Blikar eiga eftir báða leikina við FH og svo leikinn við Víkinga í Víkinga í næstu viku. Víkingar eiga eftir útileik við Fram og svo Blikaleikinn.


FH-leikurinn - breyttur leiktími!

Víkingar fara í Fjörðinn síðdegis í dag, miðvikudaginn 18. ágúst, til að keppa við FH-inga á Kaplakrikavelli.

Athugið að leiktíminn hefur í báðum tilvikum verið færður aftur um eina klukkustund. Leiktíminn sem birtist á KSÍ-síðunni og hingað til hér á bloggsíðunni gildir því ekki heldur sá tími sem fylgir hér á eftir!

  •  A-liðið mætir kl. 17:15 og leikurinn hefst kl. 18:30 í Kaplakrika.
    • Hlynur, Villi, Röggi, Hörður, Óli Æ., Robbi, Jón R., Patrik, Aron E., Davíð, Viktor, Óli A., Fjölnir, Bjarki, Sverrir, Daníel.
  •  B-liðið mætir kl. 19:00 og leikurinn hefst kl. 20:00 í Kaplakrika.
    • Halldór, Þórarinn, Eyþór, Magnús, Óli Þ., Agnar, Emil, Siggi, Gunni, Lárus.

Hádegisæfing, Skagaferð og FH-leikur

Næsta æfing 3ja flokks verður í Víkinni kl. 12:30 á morgun, þriðjudaginn 17. ágúst. Engin æfing í dag, mánudag.

Annað kvöld, (þriðjudag), fer meistaraflokkur Víkings upp á Akranes til að spila við Skagamenn í fyrstu deild. Þjálfari vor mælir eindregið með því að  liðsmenn 3ja flokks fjölmenni upp á Skaga og hvetji Víkinga til dáða. Nú er hvert stig gulls í gildi í toppslag fyrstu deildar!

  • Í boði er ókeyps rútuferð fyrir liðsmenn 3. og 4. flokks á Skagaleikinn, brottför úr Víkinni kl. 17:40.
  • Fyrir brottför býður knattspyrnudeild Víkings væntanlegum ferðalöngum í pizzuveislu í Víkinni kl. 16:45, þ.e. um klukkustund fyrir brottför.
  • Áríðandi skilaboð til væntanlegra Skagafara: Munið svo að mæta í Víkingsklæðnaði til að nærvera ykkar verði sýnileg gestum og gangandi á vellinum á Akranesi!
Á miðvikudagskvöld spila bæði A- og B-lið Víkinga við FH í Íslandsmóti 3ja flokks. Leikirnir verða í Kaplakrika í Hafnarfirði.

Á toppinn eftir sigur á Fram

A-lið Víkings tyllti sér í toppsætið í riðlinum sínum á Íslandsmótinu með því að sigra Fram með fjórum mörkum gegn engu í Víkinni í dag. Viktor skoraði eina mark fyrri hálfleiks með skalla eftir hornspyrnu Patriks. Eftir hlé bættu Víkingar þremur mörkum við, Patrik skaut að marki og boltinn lenti utan í varnarmanni Fram, breytti um stefnu og endaði í netinu án þess að markvörðurinn fengi vörnum við komið. Aron Elís skoraði í tvígang í síðari hálfleik, í fyrra skiptið með skalla og í bæði skiptin eftir undirbúning Davíðs Arnar.

Framarar pökkuðu liðinu í vörn frá upphafi til enda leiks og voru fyrst og fremst mættir til þess að verjast. Þeim var verulega ágengt í þeim efnum og það var ekki fyrr en vel var liðið á síðari hálfleikinn að Víkingum tókst að rjúfa varnarmúra gestanna svo um munaði. Við hæfi er að nefna hlut Sigurðar Arnar, markvarðar Fram, sem átti stórleik og bjargaði liðinu sínu hvað eftir annað með því að verja skot frá Víkingum í dauðafærum, bæði í fyrri og seinni hálfleik.

 Næstu leikir Víkinga á Íslandsmótinu eru gegn FH í Kaplakrika í Hafnarfirði á miðvikudaginn kemur, 18. ágúst. A-leikurinn hefst kl. 17:30 og B-leikurinn kl. 19:00.


Sætt og súrt stefnumót við Fjölni

Víkingar lögðu Fjölni í A-leiknum í Víkinni í kvöld, 2-1, en þurftu að játa sig sigraða í B-leiknum, 0-3. Staða efstu A-liða í riðlinum er óbreytt eftir leiki kvöldsins því höfuðkeppinautur Víkings um toppsætið, Breiðablik, sigraði Fylki 2-4 eftir að hafa lent undir 2-0.

Víkingar höfðu undirtökin í A-leiknum frá upphafi til enda og áttu skilið að skora fleiri mörk frekar en Fjölnir að minnka muninn. Úrslitin voru því í raun nokkur gestrisni af hálfu Víkings. Patrik skoraði í fyrri hálfleik eftir sendingu frá Jóni Rey og seinna markið kom þegar vel var liðið á síðari hálfleikinn. Davíð Örn fékk fína sendingu frá Patrik og vippaði laglega yfir markvörðinn.

Sigur Fjölnis í B-leiknum var í samræmi við gang mála á vellinum, einkum í fyrri hálfleik. Grafarvogsmenn voru einfaldlega sterkari þegar á heildina er litið en sanngirni er afstætt hugtak í þessum efnum sem öðrum þegar horft er til þess að rangstöðufnykur var af marki nr. 2 og mark nr. 3 átti aldrei að fá að standa vegna æpandi rangstöðu. Aðstoðardómara var því eðlilega sárt saknað í B-leiknum, ekki síst af því dómarinn hafði afar takmarkaða yfirferð á vellinum og hélt sig í hringnum á miðjunni og í þægilegri grennd við hann.

Víkingar fengu færi í leiknum en uppskáru ekki það sem máli skiptir úr þeim. Þeir komust í fjórgang í stöðuna einn á móti markmanni en náðu ekki að setj'ann.

A-liðið á nú fjóra leiki eftir á Íslandsmótinu en B-liðið tvo. Ástæðan er sú að Fram er með A-lið en ekki B-lið og báðir A-liðsins leikir Víkings og Fram eru eftir. Sá fyrri er á sunnudaginn kemur, 15. ágbúst, kl. 16:00 í Víkinni. Síðari leikur A-liðsins við Fram er 30. ágúst.

A- og B-liðið mæta FH í Kaplakrika í næstu viku, 18. ágúst, og Breiðabliki í Víkinni 25. ágúst. Viðureign A-liða Víkinga og Blika verður að öllum líkindum stóra stóra uppgjörið um sigur í riðlinum.


Hitað upp fyrir heimferð með rússibanareið og hamborgaraáti

Víkingshópurinn er kominn í hús í Bekkelaget skole eftir hamborgaraveislu í boði flokkssjóðsins á Burger King í hjarta Oslóarborgar. Þegar samið var við veitingahaldarann í dag um að annast veisluhöldin fylgdi sögu að hér yrðu á ferð þreyttir en soltnir úlfar af Íslandi sem erfitt væri að metta þannig að dygði nema rétt rúmlega fyrir þarnæsta horn á leiðinni heim. Þá færi að gæta örsvengdar hjá sumum sem síðar ágerðist og endaði í alsvengd fyrr en hendi væri veifað.

Borgarakóngurinn kvaðst ætla að sjá til þess að svengdar yrði ekki vart hjá nokkrum manni hérna megin miðnættis. Þar með ættu allir í hópnum að lifa sæmilega af til morguns þegar mötuneytislið í Bekkelaget skole færi á stjá til að gefa kornfleks, brauð og makríl í dós á garðann.

Fyrirheit Borgarakóng standast og rúmlega það. Hann steikti ofan í hópinn tvöfalda ostborgara, lét fylgja með fullorðna skammta af frönskum, hálfan lítra af gosdrykk og hálfan lítra af íshristingi í eftirrétt.

Þegar allt þetta var lagt saman stóðst máltíðin allan samanburð við stórátakamatseðil Múlakaffis í Reykjavík sem sérhannaður er fyrir stjórnendur flutningabíla, ýtukarla og helluleggjendur í gangstéttarframframkvæmdum. Víkingsstrákar urðu margir frá að hverfa íshristingnum að einhverju eða öllu leyti. Þeir skjögruðu út ofurmettir og hafa nú ekki minnst á mat eða gaulandi garnir í samfellt tvær klukkustundir, sem er sjaldgæft ef ekki einsdæmi í seinni tíð.

Í fyrramálið, sunnudag, verður ræst snemma enn einu sinni en í þetta sinn til að pakka niður ogundirbúa brottför. Strákarnir voru svo bugaðir af þreytu eftir tívolírölt og kjötsvima + kviðfylli Borgarakóngs að ekki reyndist unnt að láta þá taka sig til af neinu viti nú í kvöld. Meira að segja Sindri aðstoðarþjálfari lognaðist áðan út af í miðri setningu í kvöldspjalli á fararstjórakontórnum og verður að bíða til morguns eftir að fá málfræðilegan og rökfræðilegan botn í umræðuefnið sem hann stofnaði til. Það fyllir okkur meðsofendur aðstoðarþjálfarans vissulega óöryggi að ganga til hvílu með heila atburðarás í lausu lofti, auk þess sem óvíst er að kvöldsaga sé yfirleitt við hæfi að morgni dags. Það sem sagt er í kvöldrökkri þolir nefnilega ekki endilega dagsbirtu.

  • Sjá nýjar myndir í sarpinum af inngangi skemmtigarðsins Tusenfryd þar sem langflestir sktrákarnir vörðu laugardeginum. Einnig myndir frá síðustu kvöldmáltíðinni á Borgarakóngi, ferðalagi í sporvagni og af sofandi aðstoðarþjálfara með nátthúfu. 

Þjálfari gerir upp ferð á Norway Cup

„Ferðin hefur verið yndisleg og hún fer í reynslubankann hjá strákunum. Ég staldra hins vegar fyrst og fremst við hve þægilegan og flottan hóp við erum með á Norway Cup. Ég get sagt það hreint út að ég hef ekki fyrr kynnst því í hliðstæðum ferðum...

Bankahólf í bakpoka

Víkingar á Norway Cup geymdu verðmæti í einum bakpoka á meðan á dvölinni í Bekkelaget skole stóð. Þessi ráðstöfun varð eiginlega til fyrir tilviljun strax eftir komuna hingað og virkaði bara býsna vel, reyndar svo vel að húsvarslan í skólanum hefur áhuga...

Gróttan sló Víking út úr Norway Cup í vítaspyrnukeppni

Vikingur 1 náði inn í 8 liða úrslitin á Norway Cup ásamt Gróttu, fimm norskum liðum og einu brasilísku. Gróttan og Víkingur lentu saman í leik í morgun og það voru Seltirningar sem hrósuðu sigri á endanum eftir afar kaflaskiptan leik, dramatík og spennu....

Víkingsveisla Eyglóar

Víkingar fengu óvænt og afar velkomið heimboð í í kvöld. Eygló Halldórsdóttir, mamma Eyþórs okkar Snæs Tryggvasonar, bauð öllum hópnum heim til sín í margréttaða kvöldmatarveislku af bestu gerð. Það var afskaplega notalegt að breyta til og fá heimilismat...

« Fyrri síða | Næsta síða »

vikingarnir.blog.is

Frjálst og óháð blogg
Frjálst og óháð blogg
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband