Leita í fréttum mbl.is

Bankahólf í bakpoka

Víkingar á Norway Cup geymdu verðmæti í einum bakpoka á meðan á dvölinni í Bekkelaget skole stóð. Þessi ráðstöfun varð eiginlega til fyrir tilviljun strax eftir komuna hingað og virkaði bara býsna vel, reyndar svo vel að húsvarslan í skólanum hefur áhuga á að benda öðrum á að gera slíkt hið sama.


Flokkssjóður fjárfesti fyrir utanförina í plastveskjum með rennilás og merkti með nöfnum allra í hópnum. Meiningin var að geyma þarna vegabréf, peninga, tryggingapappíra og önnur slík verðmæti viðkomandi. Ætlunin var að hver og einn passaði upp á plastveskið sitt en niðurstaðan varð sú að hafa veski allra í bakpoka sem fararstjórn passaði upp á þegar við værum í skólanum. Ef hópurinn færi af bæ væri bakpokinn í vörslu húsgæslu skólans. Gengið var frá því skriflega að gæslumenn mættu aðeins afhenda pokann einum manni, þ.e. öðrum fararstjóranum.


Flestir strákarnir geymdu alla peningana sína í bakpokanum og vitjuðu hans þegar þeir þurftu skotsilfur. Þeir skömmtu sér sjálfir úr plastveskjunum sínum og skiluðu þeim svo aftur til vörslu í pokanum. Bakpokinn var því eins konar færanlegt bankahólf og svínvirkaði sem slíkur.
Við höfðum á tilfinningunni að strákarnir kynnu býsna vel að meta að vita af eigum sínum þarna á vísum stað og kerfið virkaði sem sagt þannig að þeir afgreiddu sig sjálfir í hvert sinn. Fararstjórar voru ekki með nefið ofan í því sem þeir voru að gera með innihaldið í plastveskjunum – ekkert frekar en að verðir í bankahvelfingum skipta sér af því sem eigendur bankahólfa gera með það sem í hólfunum þeirra er. Þeir bara opna hólfin og draga sig svo hógværir í hlé, rétt eins og við með bakpokabankahólfið!


Við komum okkur upp annarri öryggisreglu og hún var sú að biðja húsgæsluna um að læsa skólastofunum okkar þegar við brugðum okkur af bæ, einkum fyrri hluta vikunnar þegar bæði liðin voru burtu í einu. Húsgæslufólkið var ekki vant slíku uppátæki og þótti það einkennilegt í fyrstu en kveikti strax á að þetta var bæði einfalt og gott öryggisráð. Þegar líða tók á vikuna var nóg að húsgæslufólkið sæi fararstjóra Víkings skálma inn í kaffistofuna, þar sem það var á vakt, þá hljóp það strax til og náði í húslyklakippuna eða snaraði bakpokanum snjáða, ígildi bankahólfs, á borðið. 

Húsgæslufólk skólans átti mun meiri samskipti við Víkinga en önnur lið hér á vettvangi. Þegar við skiluðum bakpokanum góða í gæslu að morgni föstudags óskaði húsgæslan þess innilega að Víkingar kæmu fagnandi heim fundinum með Seltirningum í Gróttu. Þegar við svo komum til að ná í pokann aftur tóku gæslumenn úrslit vítaspyrnukeppninnar næstum því eins nærri sér og Víkingarnir sjálfir! Segjum svo að það sé ekki til frændsemistaug þegar að er gáð.

Bankaholf-i-bakpokaweb

 

 

 

 

 

 

 

 

Ös í pokaafgreiðslu. Danni og Fjölnir góðir kúnnar!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

vikingarnir.blog.is

Frjálst og óháð blogg
Frjálst og óháð blogg
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband