Leita í fréttum mbl.is

A-liðið sigurvegari riðilsins eftir jafntefli við Blika

Víkingur er sigurvegari A-riðils Íslandsmóts 3. flokks og Breiðablik fylgir Víkingum í úrslitakeppnina. Liðin skildu jöfn í Víkinni í toppslag riðilsins í kvöld, 2-2. Víkingar máttu afar vel una við þá niðurstöðu en Blikar hurfu hins vegar súrir á braut. Hvort lið á eftir einn leik í mótinu en Blikum dugir ekki sigur þar, þrátt fyrir að Víkingi dytti í hug að tapa, til að komast í efsta sætið.

Víkingar sigruðu svo Breiðablik nokkuð örugglega í B-leik kvöldsins, 2-0, en ná ekki inn í úrslitakeppnina.

Víkingar áttu undarlega slæman dag í A-leiknum, virkuðu stressaðir og lausir við baráttugleði frá upphafi til enda. Blikar mættu á hinn bóginn býsna vel stemmdir til leiks og voru hársbreidd frá því að fara heim með þrjú stig. Bæði lið fengu nokkur fín færi í báðum hálfleikjum og það voru Víikingar sem komust yfir í fyrri  hálfleik þegar Viktor stangaði boltann í netið. Einungis fáeinar mínútur liðu hins vegar þar til Blikar jöfnuðu og þeir komust svo yfir í síðari hálfleik, sem var fyllilega í samræmi við gang mála á vellinum. Víkingar voru svo rausnarlegir, hvað eftir annað, að gefa gestunum tíma og rúm til að athafna sig framan við Víkingsmarkið. Um hríð í seinni hálfleik réðu Kópavogsstrákarnir lögum og lofum á gervigrasinu fína og ósigur heimamanna blasti við. Það var svo Róbert Rúnar sem blessunarlega jafnaði leikinn með skalla upp úr hornspyrnu á lokamínútunum. Víkingar fögnuðu niðurstöðunni sem sigri en fyrir Blika jafngilti jafnteflið hins vegar tapi. Verulegar líkur hljóta að vera á því að þessi lið mætist í úrslitaleik Íslandsmótsins í september og þá er eins gott fyrir Víkinga að mæta til leiks með hausinn í lagi og vel reimaða skó!

Domari-ser-ekki-solina-fyriB-lið Vikings átti einn besta leik sinn í sumar gegn Breiðabliki í kvöld og gaf til kynna strax í upphafi að það hygðist fylgja eftir fræknum sigri gegn öðru stórveldi úr nágrenni Reykjavíkur hér um kvöldið, FH. Víkingarnir voru bæði sókndjarfir og baráttuglaðir en vörðust líka vel. Blikar áttu eitt hættulegt skot á markið í fyrri hálfleik, sem var varið í horn. Meira sköpuðu þeir sér ekki af viti í öllum leiknum. Agnar Darri skoraði um miðjan fyrri hálfleik og í loftinu lá að það mark myndi duga en dæmin sýna að slík forysta er bæði tæp og brothætt. Þegar Ólafur Andri bætti við marki í síðari hálfleik var engin spurning um lyktir leiksins. B-liðið hefur þar með lokið sínum leik í Íslandsmótinu og er komið með 19  stig.

Viktor Jóns er enn í sæti markakóngs A-liða, með tíu mörk. Næstur honum kemur Árni Vilhjálmsson úr Breiðabliki. Þeir skoruðu sitt markið hvor í kvöld. Á hæla þeim kemur Ragnar Bragi Sveinsson úr Fylki með 8 mörk og þar á eftir Aron Elís með 7 mörk. Það er því stóra spurningin hver þeirra reimar á sig réttu markaskóna í lokaleikjum Íslandsmótsins.

A-lið Víkings mætir sigurvegara C-liða í undanúrslitum fimmtudaginn 9. september. Efstu lið þriggja C-riðla leika um sætið í úrslitakeppninni í byrjun september og þar verður líka það lið í 2. sæti sem best stóð sig í mótinu. Þetta verður sum sé fjögurra liða mót og sigurvegarinn mætir Víkingi í undanúrslitaleik. Líkur benda til að kandídatar í mótherja Víkings verði Breiðablik 2, Afturelding, sameiginlegt lið af Norðurlandi vestra (Sigló+Sauðárkrókur+Hofsós) eða Reykajvíkur-Þróttur.

Andstæðingur Blika í hinum undanúrslitaleiknum 9. september verður líkast til Haukar úr Hafnarfirði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

vikingarnir.blog.is

Frjálst og óháð blogg
Frjálst og óháð blogg
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 2734

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband